10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

3. mál, eignaraukaskattur

Bjarni Benediktsson:

. . .1)

1) Framan af ræðunni vantar allmikið, en handriti að því telur innanþingsskrifari sig hafa glatað.

En þrátt fyrir það verður engu að síður að láta málið fá þinglega meðferð og ræða þau meginatriði, sem hér liggja fyrir, vegna þess að vissulega eru þau merkileg og alger nýjung í íslenzkri löggjöf, auk þess sem einstök atriði frv. og samband þess við önnur mál er með þeim hætti, að óvenjulegt er. Mér skilst, að meginástæðan fyrir þessu frv. sé sú, að það sé talið af sumum, að það hafi orðið slíkar breytingar á efnahagsskiptingunni hjá þjóðinni, að ekki megi við það una. Þessi skoðun virðist nokkuð algeng, m. a. hef ég tekið eftir því í bæklingi, sem hæstv. stj. lét útbýta snemma á þessu þingi. Mér þykir leitt, að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur, því að ég hefði gjarnan viljað öðlast fróðleik hjá honum um, á hvað traustum grundvelli þetta álit er byggt. Í þessum bæklingi, sem heitir Félagslegt öryggi eftir stríðið, segir svo á blaðsíðu 11, með leyfi hæstv. forseta:

„Sennilega hefur tekjuskipting íslenzku þjóðarinnar verið jafnari, munurinn á lífskjörum manna minni en í flestum öðrum löndum, a. m. k. fram til allra síðustu ára“. Með þessu er gefið í skyn, að á allra síðustu árum hafi munurinn á lífskjörum manna mjög aukizt hér á landi. Á bls. 12 segir svo:

„Síðan styrjöldin hófst, hafa meiri auðæfi safnazt á hendur einstakra manna og félaga en dæmi eru til áður í sögu landsins. Hafa í því tilefni verið gerðar ýmsar breytingar á skattalöggjöfinni, eins og kunnugt er“.

Ég er um bæði þessi atriði á talsvert annarri skoðun en kemur fram í þessum ritlingi, sem hæstv. stj. hefur látið útbýta. Ég tel og reisi það álit mitt á allmiklum kunnugleik á afkomumöguleikum manna, a. m. k. hér í Reykjavík, að því fari svo fjarri, að mismunur á lífskjörum manna hafi vaxið hér í Reykjavík á allra síðustu árum. Mér þykir sennilegt, að óhlutdræg rannsókn mundi leiða í ljós, að afkomumöguleikar manna, þegar einstöku undantekningar eru gerðar, hafi aldrei verið jafnari og almenningur hér á landi, a. m. k. í þessum bæ, hafi aldrei átt við betri kjör að búa en einmitt nú eða betri kjör hlutfallslega við þá, sem meira hafa borið úr býtum á hverjum tíma. Ég vil álíta það stórvarhugavert, svo að ekki sé sagt vítavert, af hæstv. stj. að leggja slík gögn og fullyrðingar fram fyrir Alþ. sem opinbert plagg, án þess að nokkrar skýringar fylgi. Ef það er sýnt með órækum tölum og skýrslum, þá er ekkert við því að segja. Það væru þá staðreyndir, sem maður yrði að horfast í augu við og taka afleiðingunum af. En þegar það er þvert á móti kunnugt, að atvinnuhættir hafa verið þannig, að fjárhagsleg afkoma almennings hefur bæði hlutfallslega og raunverulega stórbatnað á síðustu árum, þá er það ærið hæpið, að slíkar yfirlýsingar komi fram frá æðstu stjórn þessara mála hér á landi, án þess að nokkur sönnunargögn fylgi.

Þá er hin fullyrðingin, að meiri auðæfi hafi safnazt á hendur einstakra manna en dæmi séu til nokkru sinni áður. Nú gæti vel verið, að meiri auðæfi hefðu safnazt fyrir á hendur einstakra manna en dæmi væru til nokkru sinni fyrr, án þess að það hefði í för með sér vaxandi mun á lífskjörum manna, það er alveg víst. Þetta er að ýmsu leyti mjög villandi og hæpið. Ég efast um, að nokkur gögn liggi fyrir því, að t. d. stóratvinnurekstur hér, stórútgerð eða iðnaður sé betur stæður nú en fyrir stríð eða verði það að lokinni þessari styrjöld. Það er vitað af öllum, sem muna eftir síðustu styrjöld, að þá var það svo hér í bænum, — ég var þá ungur, en fylgdist samt nokkuð með, — að það var svo mikil aðsókn að fá að flytja fiskiskip inn í landið, að miklu færri komust að en vildu, og það þótti sérstök náð, ef menn voru teknir með í félög um að kaupa skip. Er það nú helzta kvíðaefnið, að það verði svo mikil ásókn að leggja fram fé í slík skip, að það muni valda erfiðleikum og ef til vill verði ekki hæjt að hleypa öllum að, sem vilja fá að kaupa skip inn í landið? Nei, því fer svo fjarri, að svo sé, því fer svo fjarri, að það lætur ekki nærri, að hægt sé að kaupa skip inn í landið fyrir nýbyggingarsjóðina, sem eru helzta eign margra, sem fengizt hafa við útgerð að undanförnu. Því fer svo fjarri, að nokkuð sé hæft í þessu, að það er ekki sýnilegt, að hægt sé að endurnýja togaraflotann nema að örlitlu leyti. Það má draga í efa, sé miðað við núverandi byggingarverð skipa, hvort togaraflotinn hefur raunverulega safnað fé til að smíða meira en 7–10 skip í mesta lagi, að því er mér skilst. Nú eru allir sammála um, að ef vel á að vera, þurfi að koma a. m. k. jafnmargir nýir togarar inn í landið og þeir gömlu og þeir þurfi að vera talsvert stærri og veigameiri. Það eru vissulega stórar upphæðir, sem menn reikna nú með í krónutölu, og ef til vill græða sumir meira nú en áður. En þá er því gleymt, hve gífurlega krónan hefur fallið í verði á þessu tímabili. Þá er einnig alveg horft fram hjá því, sem er hér höfuðatriði, að í fyrra stríðinu voru raunverulega litlir eða engir skattar því nær allan stríðstímann, en nú hafa verið þungir skattar, svo þungir, að það er tekið nær 90% af miklu af tekjunum. Ég verð því að ítreka það, af því að mér virtist hæstv. forsrh. koma hér inn, að mig furðar mjög á þeim fullyrðingum, sem hæstv. forsætisráðh. hefur látið gefa út, þar sem segir á bls. 11, að munurinn á lífskjörum manna hafi vaxið á síðustu árum, þegar allir kunnugir menn vita, að mjög hefur dregið saman um lífskjör manna, og eins, að fullyrt skuli vera í sama riti, að meiri auðæfi hafi safnazt á hendur einstakra manna en dæmi séu til áður, þegar vitað er, að auðæfin eru ekki meiri en það, að þau nægja ekki til að endurnýja atvinnutækin nema að sáralitlu leyti. Það er vissulega eitt af gleðilegum tímanna táknum, að fjármunir skuli hafa dreifzt út meðal almennings hér á landi á síðustu árum og að almenningur á nú við betri og ríflegri lífskjör að búa en áður. Ég bendi ekki á þessa staðreynd til að harma hana, heldur til að gleðjast yfir henni og að menn geri sér ljóst, að svona er það í raun og veru. Og þegar svo er gefin út opinber skýrsla á alþjóðar kostnað, eins og þessi pési mun vera, þá vil ég ekki, að það sé látið athugasemdalaust, þegar því er haldið fram, að þessum hlutum sé öðru vísi háttað en efni standa til.

Það hafa verið rækilega færð rök að því, bæði af mér við 1. umr. þessa máls og ekki sízt af hv. 1. þm. Reykv. við fyrri hl. þessarar umr., að sá svo kallaði siðferðislegi grundvöllur, sem frv. þetta er talið hvíla á, er alls ekki réttur, sem sé, að það hafi safnazt mikill auður í hendur manna, sem hafi á engan hátt til hans unnið. Staðreyndirnar eru allt aðrar, því að það fé, sem þessir menn hafa fengið í sínar hendur, er til komið að langmestu leyti fyrir þeirra eigin tilverknað, fyrir það, að þeir höfðu útvegað atvinnutækin og ráðizt í útgerð, iðnað eða verzlun, sem gerði það að verkum, að þetta fé komst í hendur þeirra. Ef útgerðarmenn hefðu ekki ráðizt í að kaupa skip og haldið þeim í rekstri þrátt fyrir misjöfn kjör og margháttaða erfiðleika, þá hefði okkur nú skort möguleika til að afla þess fjár, sem nú hefur fengizt, og þá hefðum við ekki borið annað úr býtum, meðan stríðið stóð, en setuliðsvinnuna eina, sem að vísu hefur gefið okkur mikla fjármuni, en enginn okkar hefði þó viljað, að þjóðin hefði átt allt sitt undir komið. Það er því fráleitt, þegar hv. 3. landsk. hvað eftir annað fullyrðir, að þessir menn hafi ekkert til fjárins unnið, því að þá segir hann alveg þvert ofan í það, sem rétt er, og ég veit, að jafnvitur maður og hann gerir sér ljóst, að þetta segir hann ekki í því skyni, að það sé tekið sem sannleikur, heldur til að villa mönnum sýn, því miður. Alveg það sama má segja um iðnrekendur. Þeim hefði vitanlega ekki verið hægt að græða á iðnaði sínum, ef einstakir menn og félög hefðu ekki brotizt í því fyrir styrjöldina að koma þessum tækjum upp, sem gerðu þeim fært að afla þess fjár, sem þeir hafa nú gert. Verzlunarmenn hafa lagt á sig mikið erfiði og fjöldamargir þeirra hafa dvalið fjarri heimilum sínum langan tíma til að útvega sér öflug og góð sambönd, sem hafa orðið sjálfum þeim til góðs og þjóðinni einnig, því að beinlínis fyrir dugnað og framsýni þessara manna, sem sumir hafa farið til Bandaríkjanna, áður en stríðið brauzt út, með framsýni um, hvað koma mundi, til að útvega sér sambönd, hafa þeir fengið það fé, sem þeir hafa aflað. Hv. 3. landsk. getur miklu fremur sagt, að sá stríðsgróði, sem hefur komið í hendur okkar með grunnkaupshækkun okkar, sé til okkar kominn án okkar tilverknaðar og við eigum því engan rétt á því fé, en útgerðarmenn, verzlunarmenn og iðnaðarmenn, sem hafa drifið gróðann inn í landið, hafi gert okkur mögulegt að fá okkar gróða, og getur verið, að það sé það, sem fyrir honum vakir, að honum sé órótt fyrir það, að ég og hann skuli hafa fengið meira fé en við höfðum stofnað til eða átt kröfu til.

Þá er það eitt atriði enn í þessu frv. í sambandi við álit mþn. Mig minnir, að hv. 3. landsk. héldi því fram. og hann leiðréttir það þá, ef það er ekki rétt. að þetta frv., ef að l. yrði, ætti að gefa ríkissjóði tekjur, sem næmu 15 millj. kr. (HG: Ég hélt það þá), en samkvæmt upplýsingum skattstofunnar, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir, að úr Reykjavík komi meira en 5 millj. kr., og gera má ráð fyrir, að 4/5 hlutar þessa skatts komi úr Reykjavík, ekki af því, að auðsöfnun hafi ekki átt sér stað víðar á landinu en þar, heldur vegna þess, að skattaeftirlitið er hvergi eins öruggt og hér í Reykjavík og kannske í Hafnarfirði. Annars staðar fá menn nokkuð að leika lausum hala, enda hefur það verið þannig, að í stórum héruðum landsins hafa menn að heita má alveg getað komizt hjá að greiða skatta. Við getum því sagt, að samkvæmt þeirri rannsókn, sem fram hefur farið, megi gera ráð fyrir, að þessi tekjustofn muni gefa ríkinu í mesta lagi 6–7 millj. kr., en eins og kom í ljós í áliti mþn., þá var þar gert ráð fyrir, að hann mundi gefa a. m. k. 15 millj. kr. Þetta sýnir ljóslega, hversu mönnum hefur vaxið í augum sá stríðsgróði, sem hér var um að ræða, og gildir þar um hið fornkveðna, að margur hyggur auð í annars garði. Þessir menn hafa fallið fyrir þeirri almennu freistingu að hyggja aðra menn auðugri en þeir eru. Þetta liggur sumpart í því, að þeir hafa álitið stríðsgróðann meiri en hann er, og sumpart vegna þess, að þetta frv. var illa úr garði gert. Ef á að leggja skatt á, þá er ekkert vit í öðru en hann sé þannig, að hann nái jafnt til allra. Hann verður að ná til allra þeirra, sem þennan gróða hafa fengið í sínar hendur, en því fer svo fjarri, að svo sé hér. Það er vitað og opinbert leyndarmál, að hér á landi hafa mjög stórfelld skattsvik átt sér stað, stórfelldur undandráttur undan skattaframtölum. En sá skattaundandráttur getur ekki átt sér stað hjá útgerðinni nema þá að örlitlu leyti. Tekjur hennar eru kunnar og kostnaðurinn sömuleiðis. Tekjurnar eru staðreyndar við opinbera sölu á uppboðum, sem eiga sér stað úti í Englandi, og sumpart með sölusamningum, sem gerðir eru fyrir milligöngu ríkisvaldsins, þannig að það fer ekki milli mála, hve miklar tekjurnar muni vera. Um kostnaðinn er nokkuð það sama að segja, hann er kunnur af kaupgjaldssamningum og með skrá yfir verð á kolum, veiðarfærum og öðrum útgerðarnauðsynjum, auk þess sem til er opinber útgerð, þar sem er bæjarútgerðin í Hafnarfirði, svo að það liggur beinlínis fyrir í opinberum plöggum, hver útgerðarkostnaðurinn muni vera, svo að skattayfirvöldin hafa ákveðinn mælikvarða á þessu sviði til að halda sér við, annars vegar tekjurnar og hins vegar útgjöldin, svo að þar er ekki um að villast.

Undandráttur frá skatti getur ekki komið til greina, svo að nokkru nemi. Eftir frv., eins og það liggur fyrir, og þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, skilst mér, að 2/3 eða 4/5 skattsins mundu lenda á útgerðinni, þ. e. a. s. þeim aðila, sem sannað er um, að á illt með að skjóta nokkru undan skatti, og hefur orðið að telja rétt fram. En þeir aðilar, sem eiga tugi millj. í innstæðum erlendis, sleppa, því að um leið og þessi skattur er á lagður, er vanrækt að bera fram frv. um róttækar ráðstafanir til að fá fram eignir manna. En slíkt væri óhjákvæmileg nauðsyn, ef þessi l. ættu ekki að verða að hreinustu skrípamynd.

Hv. 3. landsk. talar um, að hann muni e. t. v. bera fram frv. um vaxtaskatt og hafi áður borið það fram, en það hafi aldrei náð fram að ganga. En hann verður að gera sér ljóst, að eigi málið að vera réttlætismál, verður að gera ráðstafanir til að staðreyna það, hjá hverjum stríðsgróðinn hefur lent. Í þessu frv. er ýmislegt fleira, sem er harla eftirtektarvert, eins og t. d. það, að fyrst er ráðgert að skatturinn lendi á eignaaukningu, sem nemur 50 þús. kr. Svo er það fært upp í 75 þús., og nú er það komið upp í 100 þús. Á hverju byggist þetta? Hver er ástæðan til þess, að þessi mælikvarði er valinn? Ef skatturinn er réttmætur, því þá ekki að taka hann af allri eignaaukningu, sem hefur átt sér stað í landinu? Hví að gera þennan greinarmun, að sum eignaaukning sé eðlileg, en önnur óeðlileg? Mér er ekki ljós sá eðlismunur, sem á að vera á þessu. Það má vel segja um mig og hv. 3. landsk., að hvorugur okkar hafi unnið til að fá stríðsgróða. Aftur á móti hafa sjómenn og útgerðarmenn unnið til þess og bændur og atvinnurekendur. Ef þeir eiga að geta staðið undir atvinnurekstrinum, þá verða þeir að leggja eitthvað til hliðar á þessum árum, sem góð eru, til erfiðu áranna. Það er óhjákvæmilegt. Ef menn vilja ekki fallast á það, að menn megi leggja eitthvað til hliðar í þessu skyni, verða þeir að taka afleiðingunum og gera ráðstafanir til, að aðrir standi undir atvinnurekstrinum, þegar þar að kemur, með því að gerbreyta fjárhagsskipulaginu í landinu. Það gæti verið vit í því, en ekki í hinu að taka allt af þessum mönnum eða félögum upp í skatta og gera þeim þannig ómögulegt að rétta við atvinnu á heilbrigðum grundvelli, en ætlast svo til, að almenningur lifi af þessu. Það er ekki hægt að ætlast til þess, ef allt er tekið af þessum mönnum á góðu árunum og þeim gert ókleift að safna í varasjóði til að koma upp nýjum fyrirtækjum eða endurnýja hin gömlu, að þeir standi undir atvinnulífinu á vondu árunum. Þetta sýnir, hve illa frv. er úr garði gert. Sá, sem ætlast til, að einstaklingsframtakið haldi atvinnulífinu uppi, hlýtur að viðurkenna, að þeim, sem hafa mikinn atvinnurekstur og marga menn í þjónustu sinni, sé þörf á að hafa meiri gróða en hinir, sem engan atvinnurekstur hafa. Sá, sem mörg skip hefur, verður að græða meira en sá, sem hefur eitt skip, því að hann hefur fleiri skip að endurnýja og töp hans verða þyngri, þegar erfitt er í ári. Þetta geta allir gert sér ljóst, sem hugsa, sbr. gömlu söguna um draum Faraós. En á þetta er ekki verið að líta. Það á að taka af mönnum því meira, sem áhættan er meiri og þörfin að' endurnýja iðnreksturinn eða flotann. Mér sýnist yfirleitt nokkuð koma í einn stað niður, hvort sem litið er á eðli frv. í heild eða einstök atriði þess. Þar ber allt vitni þess, að málið er harla lítið athugað, og með þessum ráðstöfunum vinnst áreiðanlega minna en svarar því þjóðhagslega tjóni, er af mundi hljótast.

Við munum, hvernig þetta frv. er til komið. Það felur í sér síðustu leifarnar af vinstri samvinnunni sælu, sem átti að koma hér á á síðasta þingi og endaði í fáleikum, að ég ekki segi í fullum fjandskap. Mér skildist á hv. 3. þm. Reykv., að hv. þm. S.-Þ. hafi verið ljóst, að hv. 5. þm. Reykv. hafi verið keyptur landráðamaður í þjónustu Rússa, löngu áður en hann fór að reyna að fá hann með sér í stjórn, svo að ekki hefur það eitt getað valdið því, hve þeir samningar tókust illa, þó að hv. 3. landsk. og flokksblað hans stimpli þá nú daglega landráðamenn. Slíkt er engin nýjung. Þetta endaði svo í ritdeilu. Hv. 5. þm. Reykv. og hv. 2. þm. S.-M. gáfu út sína bókina hvor um það, hverjum það væri um að kenna, hversu til tókst um þessa samninga. En hinn sýnilegi árangur alls þessa er frv. það, sem hér er á ferðinni, og virðist það vera hið eina, sem þeir gátu komið sér saman um, að setja á þennan eignaaukaskatt. Á síðari hl. þ. í fyrra var fátt haft meira uppi en brigzlyrði um svik milli þessara heiðursmanna, en varla var búið að setja þetta þ., fyrr en frv. um þennan skatt kom fram. Nú skyldi mega ætla, að þetta frv. hefði verið meira en lítið aðkallandi, er þeir komu sér saman um það eftir öll brigzlyrðin, að stríðsgróðinn hefði staðið í stað um hríð og aukning hans væri hjá liðin, svo að hægt væri að leggja eitthvað ákveðið til grundvallar. En því fer fjarri. Það kom á daginn nú í haust, að bæta þurfti heilu ári við til að ná í viðbótargróðann. En ætli væri ekki betra að bíða eitt árið enn til að geta náð í meira með þessum sömu l. og sjá, hver gróðinn yrði í stríðslok, þegar veltitímarnir væru hjá liðnir? Liggur nokkuð á, og hlaupa þessir menn ekki á sig með því að knýja þetta fram, fyrr en þeir vita, hvaða upphæðir þeir eiga að miða við? Auk þess virðist ekki alveg óskynsamlegt að bíða með slíka tilraun, þar til er þjóðfélagið er komið á réttan kjöl aftur og séð verður, hvar gróðinn er í raun og veru, því að þá er auðveldara að átta sig á slíku en á þessum tímum, eins og kemur fram í því, að þó að málið hafi dregizt nokkra mánuði, hefur þótt ástæða til að gerbreyta frv., og dragist það enn, getur komið til greina tekjuöflun, sem var ekki gert ráð fyrir í fyrstu. Ég er hræddur um, að sá tími kunni. að koma, að hér þurfi að taka til róttækrar skattaálagningar og ef til vill enn róttækari en þessarar, en ég held, að rétt sé að geyma það, þangað til að komið er betra jafnvægi á fjárhagsskipulag okkar í heild. Sjálfst.menn hafa lýst yfir því, að verði gerð tilraun til að koma slíku skipulagi á, geti þeir vel fallizt á þess konar skatta sem þá, er hér ræðir um, en að taka þetta mál eitt út úr getur einungis leitt til aukins glundroða og gert villuna verri í stað þess að draga úr henni. Það er t. d. ljóst, að gera verður ráðstafanir til að hjálpa þeim, sem eiga við dýra húsaleigu að búa, vegna þess að þeir hafa neyðzt til að koma sér upp húsum á þessum verðhækkunartímum eða leigja í þeim húsum, sem reist hafa verið á þessu tímabili. Hv. 3. landsk. er ljóst, að það getur verið nauðsynlegt að bera fram frv. til að bæta úr þessu, og svo eru mörg verkefni, sem leysa þarf, um leið og verðbólgan minnkar. Og til að leysa þau dugar ekkert kákfrumvarp eins og það, sem hv. 3. landsk. ber fram um húsaleigu, þar sem ætlazt er til, að teknar verði tekjur, sem eru ekki til, af aðilum, sem hafa ekki aðstöðu til að vera án þeirra. Þá getur komið til greina, þegar menn snúa sér í alvöru að því að koma föstu formi á fjármálin, að grípa verði til slíkra ráðstafana sem þeirra, er hér ræðir um. Það voru aðrar ástæður, sem ollu því, að frv. ríkisstj. um verðlagsmálin á síðasta þ. náði ekki fram að ganga. Mönnum þótti ekki tímabært að taka verðlagsmálin upp og gátu ekki sameinazt um lausnina. Við lausn þessa mikla vandamáls hefði getað verið ástæða til að gera ráðstafanir svipaðar þeim, sem hér er gert ráð fyrir. En að gera slíkt án fullrar nauðsynjar og án þess að tryggja að skatturinn komi raunverulega niður á þeim, sem mest hafa grætt á stríðinu og tekizt hefur fram til þessa að skjóta tekjum sínum undan skatti, það verður ekki til að bæta neins manns vanda eða auka þjóðarheill, allra sízt þegar jafnberlega kemur fram og í þessu frv. og öðru, sem hv. 3. landsk. hefur fylgt, að það er á reiki, til hvers tekjunum á að verja. Í 5. gr. þessa frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Fé því, sem aflast samkv. l. þessum, skal verja þannig, að 1/3 þess gangi til alþýðutrygginga og byggingar verkamannabústaða, 1/3 til raforkusjóðs, byggingar nýbýla og landnáms í sveitum og 1/3 til framkvæmdasjóðs ríkisins“. Hvar er nú þetta fé tekið, sem er þannig ráðstafað? Ég drap á það áðan, að 2/3 eða meira er tekið af útgerðinni, þ. e. a. s., hv. 3. landsk. og hans flokkur telja, að útgerðin sé svo rík, að hún megi missa 5–6 millj., eins og ætlazt er til í frv., til verkamannabústaða, trygginga o. s. frv. Þeir telja einnig, að ósæmilegt sé, að útgerðin hafi nokkurt fé í varasjóði til erfiðu áranna, til að standa undir endurnýjun skipa o. s. frv., og þess vegna eigi að taka það fé til nýbýla o. þ. h. Álítur hv. 3. landsk. þá, að það sé svívirðilegt af útgerðinni að leggja nokkurt fé til hliðar í þessu skyni? Hv. þm. segir kannske, að það sé svívirðilegt hjá einstökum mönnum, að þeir hafi lagt of mikið til hliðar, en ef hann álítur það, hefði hann átt að láta eitthvað af þessum tekjum renna til opinberra sjóða til að hlaupa undir bagga með útgerðinni síðar meir, þegar erfiðara verður í ári. Með þessu frv. í vor hefur hv. 3. landsk. auðsjáanlega verið sannfærður um, að útgerðin væri búin að leggja svo mikið til hliðar, að þjóðfélagsöryggi stafaði hætta af. En í haust eða fyrir svo sem viku kemur hér fram annað frv. í hv. d. um svo kallaðan verðlagsskatt, og hv. 3. landsk. kvaðst vera sammála því að leggja á slíkan skatt, enda væri það ótrúlegt, að hann væri ekki með skatti, hverju nafni sem hann nefndist. Sá skattur átti að fara til að hjálpa sjávarútveginum til að kaupa skip. Þá þurfti að hjálpa þessum aðila með 8–10 millj. kr. láni, einmitt þeim aðilanum, sem hér á að taka fé af.

Þessu frv. er samkv. glöggum skýrslum stefnt gegn útgerðinni, peningana á að taka frá útgerðinni til þess að reisa nýbýli, sem hv. 5. þm. Reykv. telur, að séu stofnuð til þess að standa undir óarðbærum atvinnurekstri, sem helzt ætti að banna með 1., vegna þess að landið bíði svo mikið tjón af sköttum, sem teknir væru frá útgerðinni til þess að leggja í þessa starfrækslu. En svo kemur fram krafa frá sömu mönnum um það, að ekki skuli einungis taka 5 millj., heldur hjálpa þeim um 7 millj. og svo 4½ millj. þar að auki til þess að standa undir skyldum, sem á þessum atvinnurekstri hvíla. Þegar hv. þm. er búinn að færa rök fyrir því, hvaða samhengi geti verið á milli þessara tveggja frv., þá fyrst er tímabært að afgr. þetta frv. úr deildinni.