22.09.1943
Efri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

58. mál, birting laga og stjórnvaldserinda

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Ég þarf ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með löngu máli. Skal ég þó aðeins geta þess, að þetta frv. mundi koma, ef að l. verður, í staðinn fyrir aðallega tvenn l., frá 1877, nr. 11, og l. nr. 32 frá 1907. Í þessum l., þeim eldri, eru fyrirmæli um ritverk það, er Stjórnartíðindi nefnist, en í hinum síðari um Lögbirtingablaðið. Þessi tvö útgáfurit eru í raun og veru skyldari en menn skyldu ætla að órannsökuðu máli, því að stundum kann að vera nokkur vafi á um það, í hvoru þessara útgáfurita sumt eigi að birtast, hvort t. d. nægilegt er að birta sumt aðeins í Lögbirtingablaðinu, en ekki í Stjtíð., og út í það fer ég ekki nánar. En mér finnst hentugra að skipa þessum báðum ritum með einum samstæðum l. en gera það með tvennum eða jafnvel að nokkru leyti þrennum l., eins og nú er.

Það nýmæli er í frv., má segja, að l. og ýmis fyrirmæli, sem til l. jafnast, skuli verða gildandi ákveðnum tíma eftir, að þau eru birt, en áður var þetta ekki. Mér virðist rétt að taka tækifærið og skera úr um þetta með almennri reglu, þannig að borgurunum sé skylt að hlíta ákvæðum l., þegar þau hafa verið birt, en ekki skylt að gera það, áður en þau eru birt.

Ég tel sjálfsagt, að þetta frv., ef það lifir þessa umr., fari til n., og vil þá stinga upp á, að því verði vísað til hv. allshn.