18.10.1943
Efri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

58. mál, birting laga og stjórnvaldserinda

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar og m. a. átt tal við hæstv. dómsmrh. um það, og mælir n. með því, að frv. verði samþ. með lítils háttar breyt.

Ég tel það mjög þakkarvert af hæstv. dómsmrh., að hann hefur tekið þá löggjöf, sem. hér er um að ræða, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda yfirleitt, til endurskoðunar og gert úr heillegan lagabálk.

Það er vitað, að sumpart eru þau l., sem nú eru í gildi um þetta, orðin nokkuð gömul, og þar af leiðandi eiga þau ekki til fulls við, og sumpart hefur þetta, sem frv. er um, verið í tvennum l. og e. t. v. ekki fullt samræmi þar á milli. Hitt atriðið, sem hefur gert endurskoðun þessa nauðsynlega, er það, að í framkvæmdinni hefur orðið mjög mikill misbrestur á, að eftir hinum settu reglum væri í þessu efni farið, sem sennilega hefur komið af því, að stjórnarvöldin hafi talið, að eigi væri lengur þörf á að fara í öllu eftir settum reglum, þar sem þær væru orðnar allgamlar og ættu ekki til fulls við. Þetta hefur verið misskilningur og verið látið líðast miklu lengur en góðu hófi gegnir.

Nú eru þessi ákvæði tekin saman í heillegan lagabálk og að meginefni staðfestar þær reglur, sem áður hafa um þetta gilt. Og enn fremur er, sérstaklega í 7. gr., skorið úr atriði, sem hefur valdið nokkrum ágreiningi milli lögfræðinga, þar sem sumir hafa talið, að l. yrði stundum beitt gagnvart einstaklingum, þó að ekki væri búið að birta þau, en aðrir hafa talið, að ekki kæmi til mála að beita l. gagnvart slíkum aðilum, nema birting l. hefði átt sér stað. Þessi síðarnefnda skoðun, má segja, að ríkjandi hafi verið á síðari árum meðal fræðimanna, og hún er tekin upp í 7. gr. frv. og þar skýrt kveðið á um þetta atriði.

Það má alltaf deila um það, þegar svona l. eru samræmd og gömul l. felld saman í einn bálk, hvað á að taka með þar. En þó verður að gæta þess að svo miklu leyti sem upptalningin í l. á að vera tæmandi, að engu má úr sleppa, sem ætlað er, að hafi stöðugt gildi, og þess vegna er það, að við höfum bætt við nokkrum atriðum, sem við töldum nauðsyn að birta í B-deild Stjtíð., en eru ekki talin í 2. gr., eins og hún liggur fyrir í stjfrv. Við höfum talið nauðsyn, að það væri áfram birt í B-deildinni, eins og verið hefur, um úrslit alþingiskosninga. Enn fremur teljum við rétt, að þar sé birt skrá yfir félög, firmu og vörumerki, sem tilkynnt hafa verið á árinu, heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun, sem ríkisstjórnin veitir. Þetta er í samræmi við gildandi l. og venju, sem verið hefur. Hitt getur verið reglugerðar- og framkvæmdaratriði, hvort í þessa skrá eigi að taka auglýsingar alveg eins nákvæmlega og ýtarlega eins og í Lögbirtingablaðinu. Það sýnist ekki vera nauðsynlegt. En þar á að minnsta kosti að birta svo glöggt efnisyfirlit yfir þetta, að auðvelt sé að átta sig á því.

Svo er það, sem minna máli skiptir, um heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun. Það er venja að taka þetta upp í B-deildina og hefur verið frá fyrstu tíð, og sýnist eðlilegt að halda því við. Enda er æskilegast, úr því að slík heiðursmerki og nafnbætur eru við höfð, að hægt sé að ganga að því á öruggum stað til þess að finna, hverjir hafi orðið þess aðnjótandi.

Eins og menn sjá, er þarna um mjög smávægilegar breyt. að ræða, einungis til þess að gera frv. ýtarlegra en það er, en breyt., ef brtt. verða samþ., hagga að engu leyti meginstefnu þess.

Brtt. við 3. gr. frv. er aðeins um það, að orðin „sbr. lög nr. 25/1929, 37. gr.“ falli niður. Þetta er ekki efnisbreyt., heldur er farið fram á, að þessi tilvitnun í l., sem þarna hefur átt sér stað, sé niður fellt, vegna þess að það hefur þótt ástæðulaust að taka tilvitnunina upp í ein l. af ótal mörgum, sem þarna er að öðru leyti vitnað til.

Svo eru fleiri atriði, sem við ræddum um, hvort taka ætti fram um í l., en misbrestur hefur orðið á í nokkur undanfarin ár. T. d. hefur mjög kveðið að því, að sá dagur hefur ekki verið hinn raunverulegi útgáfudagur A-deildar Stjtíð., sem tiltekinn hefur verið í B-deildinni, að A-deildin hafi komið út á. En að hafa þetta svo er auðvitað algerlega rangt. Það er hinn raunverulegi útgáfudagur, sem hér hefur gildi. En þótt nokkur misbrestur hafi orðið í þessu efni undanfarið, en það er hins vegar komið inn í l. með samþ. þessa frv., að skrá skuli og miða við útkomudag, og við töldum, að hinn raunverulegi útkomudagur kæmi þar einn til greina og hefði þýðingu, þá var það, að við töldum óþarft að taka slíkt fram. Auk þess skal þess getið, að frv. gerir ráð fyrir því, þó að það sé ekki berum orðum sagt, og n. féllst á það, að það verði hætt að geta um það í B-deild Stjtíð., að A-deildin sé komin út, heldur verði á hverju hefti Stjtíð. eða blaði, þ. e. a. s. A-deildar, skráður sá raunverulegi útkomudagur og eftir honum verði farið. Þetta er eðli málsins samkvæmt, og við töldum ástæðulaust að taka það fram, úr því að við gerðum ráð fyrir, að eftir þessari reglu yrði farið.

Að öðru leyti get ég látið mér nægja að vísa til nál., og vil einungis endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel, að þessi löggjöf sé mjög tímabær og hæstv. dómsmrh, beri þakkir fyrir frumkvæði sitt í því efni.

Mér hefur verið bent á það af lögfræðingi, að það mundi sennilega fara betur á því í fyrirsögn frv. að kalla frv. frumvarp til laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, vegna þess að stjórnarvöld í lagamáli táknuðu e. t. v. öllu frekar framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnina, en ekki eins glögglega löggjafann. Þetta er nú e. t. v. álitamál, en mér sýnist nú e. t. v. nokkuð í þeirri aths. Það er hægt að athuga þetta atriði til 3. umr. málsins. En ég vildi skjóta því undir álit hæstv, dómsmrh., sem hér er nú kominn í salinn, hvað honum sýnist í því efni. — Að öðru leyti legg ég til, að frv. verði samþ. með þeim litlu breyt., sem fram hafa verið bornar till. um.