13.09.1943
Efri deild: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

37. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég stend ekki upp til að svara hv. 3. landsk. að svo komnu máli. Ég vildi aðeins upplýsa eitt. Hv. þm. sagði, að með vaxandi dýrtíð yrðu sjóðnum að aukast tekjur. Það er rétt. Hins vegar er það staðreynd, að tekjur sjóðsins hafa aukizt meira en í hlutfalli við aukningu dýrtíðarinnar undanfarið. Ég vil t. d. upplýsa, að í Dalasýslu munu tekjur sjóðsins hafa sexfaldazt síðan 1940, og ætla ég, að það vegi meira en á móti aukningu dýrtíðarinnar.

Ég vildi aðeins taka fram, að þannig er þessu varið. Tekjur manna hafa aukizt mjög almennt og sjóðurinn í hlutfalli við það, svo að hann mun aukast meira en dýrtíðinni nemur, þótt þetta frv. verði samþ.