26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3028)

13. mál, virkjun Fljótaár

Stefán Jóh. Stefánsson:

1. flm. þessa máls, hv. þm. G.-K. (ÓTh), er veikur, eins og kunnugt er. Ég vildi því með örfáum orðum fylgja þessari þáltill. úr hlaði hér á Alþ. Í rauninni þarf ég ekki frekar að gera frekari grein fyrir till. en gert er í grg., en í till. er farið fram á að fela ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Siglufjörð 6 millj. kr. lán til virkjunar Fljótaár, samkvæmt l. nr. 35 2. apríl 1943, gegn tryggingu, sem ríkisstj. tekur gilda. Ríkisstj. hefur samþ. að veita ábyrgð af sinni hálfu til þessarar virkjunar, en eins og upplýst var, þegar málið var á ferðinni, hefur komið á daginn, að þessi upphæð er ófullnægjandi til þess að hrinda virkjuninni í framkvæmd. Hins vegar mun Siglufjörður hafa tryggt sér nægilegt lánsfé til þess að framkvæma virkjunina, þegar það er til staðar, að stj. veiti ábyrgð af sinni hálfu samkvæmt þeirri heimild, er hún hefur í l. til þess. Það hefur alltaf verið haft það form að veita ríkisstj. slíka heimild án þess beinlínis að fyrirskipa henni að veita ábyrgð fyrir hönd ríkisins. En núverandi stj. hefur óskað eftir því, að hún hefði um það bein fyrirmæli frá Alþ., að hún skuli veita þessa ábyrgð, og þess vegna er þessi þáltill. komin fram. Ég vildi mega vænta þess, að meiri hl. Alþ., sem á sínum tíma var fylgjandi því að setja l. nr. 35 1943, um heimild handa stj. til þess að veita slíka ábyrgð, yrði einnig sammála um að fela stj. að framkvæma lögin á þann veg, að ábyrgðin væri veitt. Virkjunin er þegar hafin, og það má ekki stöðva hana fyrir þær sakir, að ekki væri ábyrgð ríkisins fyrir hendi, þar sem heimild er í l. fyrir því að veita ábyrgðina. Ég vildi mega vænta þess, að Alþ. samþ. þessa till., svo að verkið gæti haldið áfram þann veg, sem til var stofnað í öndverðu.