08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (3030)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

N. hefur nú ekki öll getað orðið sammála um afgr. þessa máls, en meiri hl. n., þ. e. a. s. allir nm. nema hv. 1. þm. Eyf., leggja til, að frv. verði samþ. með ofurlítilli orðabreyt. Orðabreyt. sú, sem þarna er lagt til af meiri hl. n., er gerð til þess, að ekki gefist neitt minnsta tilefni til þess að misskilja orðalagið eins og það var upprunalega í frv. N. vill hafa orðalagið þannig, að einnig sé átt við fjárveitingu í fjárl. — Eftir að þetta frv. hafði náð samþ. Alþ., leitaði ríkisstj. eftir samþ. Alþ. fyrir ráðstöfunum til þess að greiða niður vöruverð, sem henni þótti nauðsynlegar, þannig, að það var á valdi Alþ., hvenær sem var, að taka ákvarðanir sínar um það, hvort það vildi veita nokkurt fé til þess að greiða niður verð á þessum vörum, og þá hversu mikið. Eins og allir hv. þm. vita, þá er það með öllu óvíst, hver er vilji meiri hl. Alþ. í þessum efnum. Það liggur ekki annað fyrir um það en að tveir flokkar hafa lýst sig andvíga þessum greiðslum, en þriðji flokkurinn segist ekki mundu setja sig á móti því, að fyrst um sinn verði fé úr ríkissj. veitt til þess að greiða niður þessar umræddu vörur. Hins vegar vilja þeir fá skýlaust samþ. Alþ. til slíkra ráðstafana. Hvernig þingmenn Sjálfstfl. líta á þetta mál og hversu margir þeirra vilja fara þessa leið, það er óséð, þannig að ekki er hægt að fullyrða neitt um vilja meiri hl. Alþ. í þessu máli. Annars ætti þetta frv. ekki að geta valdið neinum ágreiningi, skilst mér, og þess vegna tel ég það furðu gegna, að ekki skuli hafa orðið fullt samkomulag í n. um þetta atriði, svo að hún gæti afgr. málið einróma, því að hér er aðeins um það að ræða, að taka af öll tvímæli um það, hvernig skilja beri þetta ákvæði dýrtíðarl. Um annað er ekki að ræða. Ég held, að það sé áreiðanlega skilningur meiri hl. Alþ., að það hafi aldrei verið tilgangur löggjafans, þegar dýrtíðarl. voru sett í vor, að veita ríkisstj. ótakmarkaða heimild til fjárframlaga úr ríkissj. til þess að borga niður vöruverð. Hitt hafa menn ekki verið á einu máli um, hvort ríkisstj. gæti með réttu bent á orðalag l. til stuðnings því, að hún hefði þessa heimild, og sumir eru þeirrar skoðunar að þessi heimild, frá lögfræðilegu sjónarmiði, sé ekki til, og aðrir halda því fram, að ríkisstj. hafi þessa heimild. Í nál. minni hl. er því haldið fram, að það sé ekki rétt á þessu stigi málsins að gera neina breyt. á dýrtíðarl. Ég álít, að þetta sé misskilningur, af því að með þessu frv. er ekki farið fram á neina breyt. á dýrtíðarl. Það er aðeins verið að taka af öll tvímæli um það, hvernig skilja beri þetta ákvæði l. Að öðru leyti standa l. alveg eins og þau voru, eftir að þessi breyt. á orðalagi þeirra hefur verið samþ. Það er því ekki hægt að nota þá röksemd, að hér sé verið að breyta dýrtíðarl., en Alþ. verður að gera l. þannig úr garði, að það orki ekki tvímælis, hvernig beri að skilja þau. Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, ég get aðeins bætt því við, að það mundi kannske einhver spyrja sem svo, hvort ætlazt sé til þess, að þetta frv. gangi í gildi þegar í stað, eins og 2. gr. þess hljóðar um, hvort þessar greiðslur úr ríkissj. eigi samstundis að falla niður, þangað til Alþ. hefur tekið sínar ákvarðanir. Ég geri ráð fyrir því, að það líði nokkur tími, áður en frv. er komið í gegnum báðar d., og þá mundi verða séð, hvort fyrir því væri meiri hl. á Alþ., sem ég geri ráð fyrir, að sé. Og þá gæfist ríkisstj. frekara ráðrúm til þess að leggja till. sínar fyrir þingið, ef hún óskaði eftir að fá frekari frest, þá mætti veita hann með því, á síðasta stigi málsins, að ákveða, að l. skyldu ganga í gildi ákveðinn dag, sem samkomulag yrði um. Þetta er það, sem ég hef að segja frá sjónarmiði meiri hl. n. Þá liggur hér fyrir brtt. frá mér við l. á þskj. 136, en eins og sjá má á nál., áskilja nm. sér rétt til þess að bera fram frekari brtt. Þessi brtt. mín snertir nokkuð annað atriði þessa máls. Í brtt. er lagt til, að n. sú, sem ákvað grundvöll þeirrar landbúnaðarvísitölu, sem nú er samkomulag um, skuli halda áfram að starfa og skuli hún halda áfram að vinna að því að endurskoða þann grundvöll, sem hún hefur fundið, næsta ár og skuli hafa rétt til að halda áfram slíkri endurskoðun, þegar henni þykir ástæða til, og í rauninni er hér ekki heldur um neina efnisbreyt. að ræða eða röskun á dýrtíðarl. Þessi till. er aðeins fram borin til þess að gera l. skýrari og fyllri. Samkv. l., eins og þau nú eru, er svo að sjá, sem hlutverki sex manna n. sé nú þegar lokið, því að í dýrtíðarl. stendur, að hún eigi að hafa lokið við að finna þessa vísitölu fyrir 15. ágúst 1943 og sé þá þessu starfi hennar lokið. Nú er það augljóst mál, að það þarf að vera einhver aðili, sem ákvæði vísitöluna næsta haust, og þá væri eðlilegt, að það væri þessi n. Mér finnst því, að það ætti ekki að geta orðið ágreiningur um það, að n. beri að starfa áfram, og tel sjálfsagt, að það sé tekið skýrt fram í l., að henni beri að halda áfram starfi sínu. Og ef hún heldur áfram að starfa, er sjálfsagt, að hún endurskoði þann grundvöll, sem hún hefur fundið, eftir því sem henni þykir ástæða til. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því, hve mikil ástæða sé til slíkrar endurskoðunar, en eins og sést á nál. vísitölunefndar, þá telur hún fulla ástæðu fyrir þessari endurskoðun, vegna þess að hún hafði ekki ráðrúm til að gera þann útreikning, sem þarf til þess að finna grundvöll vísitölunnar, þannig úr garði eins og hún hefði helzt kosið. Hér er farið fram á, að þessi grundvöllur verði því aðeins endurskoðaður, að ástæða þyki til. Nú get ég ekki skilið, að nokkur geti haldið því fram, að þessi n. sé óskeikul í þeim vísitölugrundvelli, sem hún hefur fundið, ekki sízt vegna þess, að n. sjálf telur rétt, að þessari rannsókn verði haldið áfram. Ég fæ þess vegna ekki skilið, að nokkur maður geti haft á móti því, að hún endurskoði grundvöllinn, ef henni sjálfri finnst það nauðsynlegt. Ef þeir aðilar, sem á bak við vísitölun. standa, búnaðarfélagið, alþýðusambandið, starfsmannafélag ríkis og bæja og hagstofustjóri, vilja halda áfram þessu starfi, því þá ekki að gefa þeim tækifæri til þess? Því hefur verið haldið fram, að varasamt væri að gera þessa breyt. á l., vegna þess að það gerði röskun á því samkomulagi, sem náðst hefur. En þetta er misskilningur. Ef ekki næst samkomulag um nýjan grundvöll, þá. gildir gamli grundvöllurinn, þannig að röskun á samkomulaginu getur ekki komið til greina. Annars ætti ekki að vera mikil hætta á því, að ekki næðist samkomulag um þá endurskoðun, sem fram færi á grundvelli vísitölunnar. Nm. hafa þegar komið sér saman um hlutfallið á milli verðs landbúnaðarafurða og tekna launastéttanna í bæjunum, og við því samkomulagi mundi ekki verða hreyft. Það, sem gert yrði, væri aðeins að láta fara fram frekari rannsókn á þeim útreikningum, sem n. gerði, og aflað yrði frekari gagna til þess að geta reiknað þetta hlutfall betur og réttar út. Og það ætti ekki að vera minnsta hætta á því, að nm. mundu ekki hlíta þeim útreikningi og þeim niðurstöðum, sem hún sjálf kæmist að. Ég þarf svo ekki að hafa um þetta frekari orð. Ég vonast til þess, að sú breyt., sem meiri hl. n. leggur til á þskj. 135, verði samþ., og ég vonast einnig til þess, að brtt., sem ég flyt við dýrtíðarl., á þskj. 136, nái samþykki deildarinnar.