08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (3032)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson) :

Hv. frsm. meiri hl. þótti það furðulegt, að n. skyldi ekki geta orðið sammála um þetta mál, og er því ástæða til þess, að ég geri grein fyrir því, hvers vegna ég gat ekki orðið meðnm. mínum sammála, sem leggja til, að frv. verði samþ. Að vísu get ég að nokkru leyti vísað til nál. míns á þskj. 126. Ástæður mínar til þess, að ég tel ekki rétt að samþ. þetta frv. nú, eins og það liggur fyrir, eru einkum tvær. Í fyrsta lagi, að ég tel varhugavert að breyta nú l. um dýrtíðarráðstafanir nokkuð, og þó að þetta frv. kunni að vera meinlaust, eins og hv. flm. frv., frsm. meiri hl., var nú að reyna að sýna fram á, þá er það þó óhrekjanlegt, að það opnar l., eins og stundum er komizt að orði um l., þegar þeim er breytt, og hv. frsm. meiri hl. sannar þetta sjálfur mjög áþreifanlega frá byrjun, þar sem hann flytur brtt. við sitt eigið frv. um enn víðtækari breyt. á lögunum en frv. sjálft gerir ráð fyrir. Ef þingið fer að afgreiða l. um breyt. á dýrtíðarl. frá því í vor, má búast við, að fleira komi á eftir. Og meðan sá grundvöllur helzt, sem dýrtíðarl. byggjast á, tel ég brtt. sem þessa alveg óþarfa. Ég vil benda á það, að dýrtíðarl. voru samþ. með samhlj. atkv. í báðum deildum Alþ. Og það atriði, sem þessi brtt. hv. flm. fjallar um, var sett inn í dýrtíðarl. þá með fullu samkomulagi. Og með þessari brtt. er því í raun og veru verið að rjúfa þetta samkomulag frá í vor. Hv. flm. frv. segir reyndar, að brtt. sín sé aðeins til skýringar, en þó breytir hún allmiklu, ef að er gætt. Í dýrtíðarl. segir, að ef sex manna n. yrði sammála, þá skuli verð landbúnaðarafurða ákveðið í samræmi við þá vísitölu, er n. finnur, meðan núverandi ófriðarástand haldist. Svo mikilvægt atriði hefur auðvitað verið sett inn í lögin að athuguðu máli, og var það eitt meginatriðið í samkomulaginu.

En með brtt. hv. þm. er farið fram á, að annar grundvöllur en í l. felst verði lagður fyrir verðlagningu landbúnaðarafurða.

Háttv. 5. þm. Reykv., flm. þessa frv., segir, að ef n. verði ekki sammála um nýjan grundvöll, muni samkomulagið frá í sumar gilda. Það kann að vera rétt, en það yrði þó áreiðanlega ekki til þess að vekja traust á þessu samkomulagi, ef n. klofnaði og farið yrði að deila um niðurstöður hennar. Ég vil þó ekki halda því fram, að óhugsandi sé að hreyfa dýrtíðarl. fyrr en í stríðslok. Það getur verið nauðsynlegt, en grundvöllurinn fyrir því, að dýrtíðarl. sé breytt, er, að fullt samkomulag náist milli allra aðila, sem hlut eiga að máli, eða tilraun sé a. m. k. gerð til að ná samkomulagi.

Hér í hæstv. d. og víðar hafa farið fram allmiklar umr. um niðurstöður sex manna n. En ég held að þessar niðurstöður séu að ýmsu leyti ótímabærar, því að fyrst, þegar skýrslur liggja fyrir um störf og niðurstöður sex manna n., er tímabært og skynsamlegt að leggja endanlegan dóm á niðurstöður hennar. Og ef til vill kynnu nýjar upplýsingar og ýtarleg greinargerð um þessi mál að verða svo sannfærandi, að almennt samkomulag næðist um að gera víðtækar breytingar á dýrtíðarl. En þessar upplýsingar liggja ekki fyrir enn, og því tel ég það ótímabært að breyta lögunum nú, og er það önnur meginástæða mín til að vilja ekki fallast á samþ. þessa frv., eins og sakir standa, hvað sem síðar kynni að verða.

Auk þessa tel ég frv. sjálft alveg óþarft, því að ég er ekki í neinum vafa um, að skilja beri 4. gr. dýrtíðarl. þannig, að ríkisstj. hafi heimild til þess að greiða niður verð landbúnaðarafurða að svo miklu leyti sem hún hefur handbært fé til þess. Hins vegar er það alveg á valdi þingsins, hversu miklu fé skuli varið til þess.

Ég held, að engum og ekki heldur flm. þessa frv. detti í hug að hætta öllum fjárgreiðslum í því skyni að halda niðri dýrtíðinni. Því að þá mundi ný dýrtíðarbylgja falla yfir og ekki yrði ráðið við neitt.

Ég er ekki beinlínis mótfallinn þeirri hugsun, sem í frv. felst, og hef ég því ekki lagt til að fella það, heldur legg ég til, að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem er birt á þskj. 126, og hef ég í nál. gert grein fyrir efni hennar. Ég skal svo bæta því við, að nái það frv. fram að ganga, sem nú liggur fyrir háttv. Nd., um verðlagningu landbúnaðarafurða, en til þess eru fyllstu líkur, mun verðlagningin verða háð eftirliti viðskiptaráðs, og ætti þá nokkurn veginn að vera fyrir því séð og tilgangi flm. þann veg náð. Annars segir frsm. meiri hl., að því hlutfalli, sem fundið var, verði alls ekki haggað, nema samkomulag fáist um það. En ef nýtt samkomulag næst nú ekki, sé ég ekki, að þessi brtt. hafi nokkra minnstu þýðingu. Ef útilokað er að hagga hlutfallinu, hvað á þá yfirleitt að gera? Ég fæ ekki skilið það.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, en vonast til þess, að þótt skoðanir manna séu skiptar um það, þá sjái menn það þó, að ekki er hægt að gera annað skynsamlegra í þessu máli en samþykkja þá rökstuddu dagskrá, sem ég hef borið fram.