08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er nú nokkuð liðið á fundartímann, og mun ég því ekki verða margorður. Ég get ekki séð, að mikið hafi verið hrakið af því, sem ég sagði. Hv. frsm. meiri hl. n. hélt hér ræðu, sem fjallaði mest um að berjast við skoðun, sem hann að vísu sagði, að ég hefði haldið fram, en ég hélt alls ekki fram. T. d. sagði hann, að ég hefði haldið fram, að alls ekki mætti breyta dýrtíðarl. Þetta er ekki rétt. Ég taldi þörf á að breyta dýrtíðarl., en það var tvennt, sem ég taldi því til fyrirstöðu, í sambandi við frv. hans nú. Í fyrsta lagi álít ég, að ekkert samkomulag sé fyrir hendi, en hins vegar væri verið að undirbúa það, svo að þar af leiðandi væri breyt. ekki tímabær. En hitt sagði ég aldrei, að ekki mætti breyta dýrtíðarl. eða ekki fyrr en eftir stríð. Þessi maður sagðist dást að mér fyrir það, hversu vel mér hefði farnazt að verja rangan málstað. Ég tel mig nú ekki neinn mælskumann, en ég veit það, að auðveldara er að verja réttan málstað en rangan. Og ætli ástæðan fyrir því, að mér farnaðist vel að verja minn málstað, stafi ekki einmitt af því, að ég leitaðist við að færa rétt og skynsamleg rök fyrir mínu máli? Aftur á móti verð ég að viðurkenna það, að ég dáist ekki að frsm. meiri hl. fyrir málaflutning hans, þó að ég viti, að hann sé mælskumaður, eins og kommúnistar eru margir. Ætli ástæðan fyrir því, að honum vafðist tunga um tönn, sé ekki sú, að málstaður hans v ar ekki eins góður sem skyldi? Þessi þm. sagði það, út af því, sem ég hef sagt, að ákvæði fjárl. um þetta efni kæmu ekki að neinu gagni, ef stjórnin hefði ótakmarkaða heimild til þess að greiða þetta fé, sem hún hefur greitt undanfarið. Ég hef aldrei haldið því fram, að ríkisstj. hefði ótakmarkaða heimild, og einmitt af því að hún hefur ekki ótakmarkaða heimild, hljóta ákvarðanir fjárl. eða ákvarðanir þ. að nægja, án þess að l. sé breytt. Hins vegar hefur ríkisstj. skýlausa heimild, svo langt sem hún nær, í 4. gr. dýrtíðarl. Takmörkunin á heimild stj. er ekki í l., heldur í því, að stj. hefur ekki rétt til þess að leggja skatt eða önnur gjöld á landsmenn. Ráðstafanir stj. hljóta því að takmarkast af því, hvaða möguleika þ. gefur henni til þess að framkvæma þetta. Í sjálfum lögunum frá í vor var í fyrstu gr. þeirra heimild til nýrrar skattaálagningar á landsmenn einmitt í þessu skyni. Allir munu sammála um það, að stj. hafi fyrst og fremst haft fullan rétt til að verja því fé, sem l. leyfðu henni, til dýrtíðarráðstafana. Það er örstutt síðan Alþ. samþ. l. um tekjuöflun fyrir ríkisstj., sem beinlínis voru borin fram í því skyni að standast kostnað við þessar aðgerðir fyrst um sinn, og tel ég, að sú samþykkt sé í gildi enn. Frsm. meiri hl. sagði, að lögfræðingar teldu, að ríkisstj. hefði ekki nokkra heimild til þess að greiða þetta fé. Það kann að vera, að lögfræðingar hafi sagt þetta, en hins vegar er ekki alltaf rétt, sem þeir segja, og þá greinir sjálfa á. Það er erfitt að skilja það, að menn neiti því, að ríkisstj. hafi heimild til að verja því fé, sem fyrir hendi er og beinlínis er útvegað í þeim tilgangi af Alþ., en slíkt fé er enn fyrir hendi og rennur daglega í ríkissjóð. Frsm. var að minnast á það, að þetta ákvæði hafi verið sett inn í lögin til þess að lækka verð á vörum, en það væri auðvitað því skilyrði bundið, að Alþ. samþ. það á hverjum tíma. Ég sé ekki, að þetta hefði þá haft inn í lögin að gera, því að Alþ. getur á annan hátt veitt fé í þessu skyni á fjárl. Vitanlega var þetta sett inn í lögin, til þess að stj. notaði þessa heimild, ef henni þætti þess þurfa. Frsm. meiri hl. sagði, að samkomulag um, að stj. hefði þessa heimild, hefði aldrei verið gert. Ég get ekki sagt um það, hvort allir þm. viti, hvað þeir eru að gera, þegar þeir setja ákveðin fyrirmæli inn í l. Það getur vel verið, að þannig hafi verið ástatt fyrir hv. 5. þm. Reykv., að hann hafi ekki gert þetta vitandi vits. Það er skylda allra þm. að vita, hvað þeir samþ., og ákvæðin í 4. gr. dýrtíðarl. eru alveg skýlaus. Hann hélt því fram, að það væri ekkert hættulegt að bera fram brtt. á dýrtíðarl., en þeir, sem vildu breyta þeim á annað borð, hefðu hins vegar getað það, þó að frv. hefði aldrei komið fram. Samt var það svo, að hv. 5. þm. Reykv. bar ekki fram brtt. sína fyrr en eftir, að frv. kom fram. Það sýnir, að í fyrstu hafði hann ekki hug á að gera nema eina breyt. á l. til þess að tryggja betur rétt Alþ. En úr því að hann er að bera fram breyt. á l., þá fer hann að hugsa, hvort ekki sé ástæða til þess að breyta einhverju fleira. Hvernig skýrir hann það, að hann setti þessar breyt. ekki strax í frv.? Hann segir, að tveir þingflokkar væru á móti þessum fjárgreiðslum. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar, sem ég hef ekki heyrt fyrr. Ég hef ekki heyrt annað en það, að þessir þingfl. hafi tjáð sig móti því, að stj. notaði tekjur af Tóbakseinkasölu ríkisins og Áfengisverzluninni nema með sérstöku samþ. Alþ. Þá segir hann, að ég vilji láta Alþ. ákveða, hve miklu fé verði varið í þessu skyni. Þetta er alveg rétt. Ég vil láta Alþ. ákveða það á eðlilegan hátt, eins og ég tók fram í fyrstu ræðu minni um þetta efni. Hann hélt því fram, að brtt. sín hefði mikla þýðingu og væri til eflingar samkomulaginu frá í vor. Það má vera, ef n. verður sammála, en ég hef reiknað með því, að n. gæti orðið ósammála, og þá yrði síðari villan verri hinni fyrri. Hann spurði enn fremur, hvort rangur grundvöllur ætti að haldast. Ég tók það fram, að málið er í rannsókn hjá nýrri 6 manna n. samkv. ósk. d., og komi það í ljós, að um rangan grundvöll sé að ræða, þá er fyrst tímabært að ráða bót á því, en sem stendur er það ótímabært. Ummæli þm., að ég vilji halda við ranglætinu, tel ég ekki svara verð. (BrB: Ég hef aldrei fullyrt að hér væri um ranglæti að ræða). Þá þarf engar vífilengjur hér um, fyrst ekki er vitað, hvað er réttlæti og hvað ranglæti.

Ég held þá, að ég þurfi ekki að ræða meira við þennan hv. þm. sökum þess, að hann fékkst svo mikið við það, sem ég hef aldrei sagt.

Hv. þm. Barð. (GJ) talaði um þessar margumtöluðu fjárgreiðslur ríkisstj. og sagði, að þær hefðu átt að koma á fjárl., en svo stóð þá á, að þetta var ekki auðið, því að fjárl. voru samþ. löngu á undan dýrtíðarl. Hann sagði, að meðferð málsins væri þ. ekki til sóma. Þar er ég sammála, og meðferð Nd. á okkur í Ed. var óhæfileg, þar eð þeir ætluðu okkur að afgreiða á 2 dögum það, sem þeir voru búnir að vera með í margar vikur.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hér væru átök um rétt þingsins. Ég er því ekki sammála. Annars vegar er stj., sem vantar fé, og hins vegar þingið, sem getur látið stj. fara frá, hvenær sem er. Þetta er því misskilinn metnaður fyrir hönd þ. Annars sagði þm. það eina, sem sagt hefur verið af viti um þetta mál af meðhaldsm. frv. En það var, að heimild ríkisstj. væri úr gildi fallin. Þessu er hægt að halda fram, þó að ég fallist ekki á það. En hitt, að segja að þótt stj. hefði slíka heimild, þá eigi hún ekki að nota hana nema meðan á þingi stendur, — slíkt skil ég ekki, og ef stj. ætti að leita álits þ. um öll mál, sem henni er fengin heimild um, þá yrði þ. tafsamt, og virðist mér við ekki þurfa að sakast um slíkt. Ef ekkert nýtt kemur fram, sem ég hef ekki áður heyrt, geri ég ekki ráð fyrir að taka aftur til máls.