11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (3040)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Það fara sennilega að verða nógu langar umr. um þetta mál, ekki stærra en það er, en ég vildi þó gera nokkrar aths. við það, sem fram hefur komið.

Mig furðar mjög á afstöðu hv. 3. landsk. til till. minnar á þskj. 136. Hann fullyrti, að niðurstaða sex manna nefndarinnar sé mjög hæpin og þurfi því endurskoðunar við. Samt vill hann ekki láta nefndina halda áfram að starfa, heldur skilst mér, að hann vilji láta aðra vinna það verk. Hann benti á í því sambandi, að ekki hefði vísitölun. framfærslukostnaðar verið falið að rannsaka sinn eigin grundvöll. Þetta er alrangur samanburður. Vísitölun. framfærslukostnaðar er ekki samningan., heldur eru þar að verki starfsmenn ríkisins, sem hafa haft nægan tíma til að viða að sér öllum gögnum til að fá sem réttasta vísitölu. Sex manna n. er aftur á móti samninganefnd, og hefur hún sjálf lýst yfir, að hún hafi ekki haft tíma til að afla fullnægjandi gagna. Hún beinlínis gerir ráð fyrir því að geta haldið áfram, og hún óskar eftir því og marglýsir yfir því í nál. sínu. Ég þarf ekki að lesa það upp, sem hv. 1. þm. Reykv. las upp úr nál. í ræðu sinni, þar sem n. tekur fram, að hún gerir beinlínis ráð fyrir því, að afla þurfi frekari gagna til að endurskoða niðurstöður, sem hún komst að. Spurningin er þá bara: Á n. að fá það, eða á að meina henni það? Það er gagnslaust að fela öðrum mönnum að vinna þetta verk, nema það sé meiningin að rjúfa það samkomulag, sem gert var með dýrtíðarl. í vor. Sú þál., sem rætt hefur verið um í þessu sambandi, kemur ekki þessu máli við. Þar er skorað á stj. að láta reikna út, hvaða verð hefði verið á landbúnaðarafurðum 1939–1942, ef það hefði verið ákveðið samkv. grundvelli sex manna nefndarinnar. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. stj. muni snúa sér til n. um þetta, en í þessari þáltill. er ekki minnst á að rannsaka þann grundvöll, sem n. fann og byggði á það verðlag, sem hún ákvað, enda er það svo, að það getur sex manna n. ein gert, meðan fyrirmæli dýrtíðarl. eru í gildi, vegna þess að það er hún ein, sem hefur vald til að ákveða verðið, enda er hún kunnugust þessum málum og bezt fær til að vinna verkið. Ef mönnum, sem eru í n., er ekki treyst, þá geta auðvitað þau samtök, sem þeir eru fulltrúar fyrir, skipt um menn, það er annað mál.

Þá var hv. 3. landsk. að fetta fingur út í, að í till. minni á þskj. 136 stendur, að n. skuli framkvæma þessa endurskoðun, ef ástæða þyki til. Mér skilst, að hann vildi fyrirskipa, að rannsóknin færi fram. En ef n. telur enga ástæðu til að rannsaka grundvöllinn, þá er beinlínis hlægilegt að fyrirskipa henni að gera það. En nú er vitað, að n. er sammála um, að endurskoðun þurfi að fara fram. Um, það liggur fyrir skýr yfirlýsing frá n. sjálfri. Ég skil þess vegna ekki vel, hvað hv. þm. er að fara. Ef hann vill fela nýjum aðilum að gera ákvarðanir um verð á landbúnaðarvörum fyrir næsta ár, en banna sex manna n. að gera það, þá er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo, að hann vilji rjúfa samkomulagið og hverfa frá, að verðið sé ákveðið með samkomulagi milli bænda og neytenda, og þar erum við þá gerólíkrar skoðunar.

Þá er hv. 1. þm. Eyf. Það fer að verða jag á milli okkar. Hann sagði, að breyta mætti dýrtíðarl., ef allir væru sammála, og á næstu stund segir hann, að hann hafi ekkert á móti því út af fyrir sig, að sú breyt. verði gerð, sem fram á er farið á þskj. 135, en það megi ekki samþ. hana, fyrst hún hrófli við dýrtíðarl. Þið takið eftir rökfærslunni. Það eru tvær fullyrðingar: Það má breyta dýrtíðarl., ef allir eru sammála, og næst: Það má ekki samþ. þessa brtt., af því að það má ekki hrófla við dýrtíðarl. Svona rökfærsla mun heita vítahringur eða blátt áfram hringavitleysa. (BSt: Svona málfærsla mundi nú á alþýðumáli heita ósannindi, blátt áfram). Mér var ómögulegt að skilja hann öðruvísi en svona. Hann segir, að stj. hafi ekki ótakmarkaða heimild til að greiða niður verð landbúnaðarafurða, því að hún takmarkist af því, hvað mikið fé sé til umráða í ríkissjóði. M. ö. o., ríkisstj. má tæma ríkissj., en ekki heldur meira. En má ég spyrja: Er til öllu ótakmarkaðri heimild um fjárveitingar úr ríkissjóði en þetta? Ég þekki það ekki. Þess vegna taldi ég þetta ótakmarkaða heimild.

Þá segir hann út af till. minni á þskj. 136, að ef rannsókn leiði í ljós, að grundvöllurinn, sem vísitölun. fann, sé rangur, þá sé kannske kominn tími til að breyta l. og benti hann þar á þá þál., sem nýlega hefur verið samþ. í d. Eins og ég sagði áðan, er það mesti misskilningur, að sú till. feli í sér, að neinum sé fyrirskipað að rannsaka grundvöll sex manna n., sem hún byggði verð sitt á. Hins vegar er ekki hægt að ganga úr skugga um, hvort grundvöllurinn er rangur eða réttur nema með rannsókn, og það er það, sem till. á þskj. 136 fer fram á.

Ég álít, að ekki megi fresta þessu máli. Það þolir enga bið. N. verður að fá að rannsaka þetta, og hún þarf að fá nægan tíma til starfa. N. óskar og gerir ráð fyrir, að hún fái að starfa áfram, sbr. nál. Á að neita henni um að finna réttari niðurstöðu, þó að hún sjálf telji það nauðsynlegt? Það er spurning, sem verður að svara, þegar till. mín á þskj. 136 kemur til atkv.