11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson) :

Hv. þm. Barð. minnti mig á, að ég hefði skrifað undir nál. fjhn. um tóbakshækkunina. Það er rétt, að ég skrifaði undir þetta nál., en ég ætla að minna hann á, að ég skrifaði undir það með fyrirvara, eins og hann tók að vísu fram, og ég gerði grein fyrir þeim fyrirvara. En fyrirvarinn var sá, að þó að ég vildi samþ. frv., teldi ég á því stigi, sem málið var á, óþarft að binda samþ. þess því skilyrði, sem hv. meðnm. mínir vildu gera, og er það í fullu samræmi við afstöðu mína í þessu máli. Eins og ég hef margsagt, er það tvímælalaust, að ríkisstj. hefur samkvæmt 4. gr. dýrtíðarl. almenna heimild til að greiða niður verð á innlendum afurðum, en eins og menn ættu að geta skilið, takmarkast þetta á hverjum tíma af því, hvert svigrúm stj. er gefið til að nota þessa heimild. Nú ætla ég, að þrátt fyrir nál, fjhn. um daginn sé það alveg óneitanlegt, að stj. hafi verið gefið umboð með samþ. frv. og því að taka þegjandi þeirri yfirlýsingu, sem hún gaf um það, til hvers hún ætlaði að nota heimildina. Með þessu voru henni gefnir möguleikar um sinn. Bæði Framsfl. og Sjálfstfl., sem eru allverulegur meiri hl. Alþ., en ekki Framsfl. einn, eins og hv. þm. Barð. sagði, lögðu samþ. sína á það, að féð yrði notað á þennan hátt fyrst um sinn. Sjálfstfl. setti að vísu það skilyrði, að stj. leitaði heimildar þingsins síðar, en hann tiltók ekki, hvenær það skyldi verða, og ég hef ekki heyrt, að þetta hafi verið afturkallað.

Ég sé ekki ástæðu til að eltast við einstök atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann sagði, að ég héldi því fram í öðru orðinu, að ekki mætti breyta dýrtíðarl., en í hinu, að ekki ætti að breyta þeim. Ég veit ekki, hve vel mér hefur tekizt að skýra hugsanir mínar fyrir hv. þm. Maður er ef til vill ekki dómbær um það sjálfur. En ekki skil ég, að ég sé svo óskýr í máli, að hv. þm. hafi ekki skilið, hvað ég átti við, heldur mun það vera, að honum finnst þægilegra að snúa málinu svona. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, hverju ég held fram, þar sem það er prentað á þskj., hver niðurstaða mín er, og það þskj. hefur fleiri rök inni að halda, sem hv. þm. getur ekki hrakið, fyrir því, að ekki sé tímabært að breyta dýrtíðarl. En úr því að ég fór að tala við þennan hv. þm., langar mig til að spyrja hann einnar spurningar: Hvaða ástand heldur hann, að skapast mundi, ef brtt. hans yrði samþ., en n. gæti ekki náð samkomulagi? Hann sagði í n. og kannske hér í hv. d., að sá grundvöllur, sem nú er, mundi haldast. En er það nú tryggt, að hann mundi þá haldast? Væri ekki réttara að gera einhverja viðbót við brtt. hans og taka þetta skýrt fram?

Ég get ekki látið vera, um leið og ég sezt niður, að láta þann grun í ljós, að það liggi fleira á bak við þessa brtt., þó að meinleysisleg sé, en uppi er látið. Það er alkunna, að áður en dýrtíðarl. voru sett, var umtal um það meðal bæjarbúa, að verð á innlendum afurðum væri of hátt. Þegar samkomulag náðist, fyrst í fjhn. og síðan á Alþ. sjálfu, um að slá málinu á frest og reyna samninga milli framleiðenda og neytenda, þá hygg ég, að margir hafi verið sannfærðir um, að afleiðingin mundi verða sú, að verðið lækkaði, ef það yrði miðað við það, að bændum yrðu ákveðin svipuð lífskjör og öðrum vinnandi mönnum. Þetta reyndist ekki svo. Eftir að safnað hafði verið algerlega óhlutdrægum skýrslum, kom í ljós, að verðið varð að hækka, til þess að bændum yrðu tryggð lífskjör, sem væru sambærileg við lífskjör verkalýðs í landinu. Hv. 3. landsk. sagði í sambandi við annað mál, að sér hefðu komið niðurstöður n. mjög á óvart. Ég býst við, að svo hafi verið um fleiri. Og ætli svo kunni ekki að verða, að eitthvað sé þar á bak við, er nú þarf að fara að hrófla við dýrtíðarl., og þess sé ekki saknað svo mjög, þó að þetta samkomulag fari forgörðum. Ég skal játa, að ég er ekki að segja þetta til hv. flm. frv., en mér þætti það líklegra, að eitthvað svipað vekti fyrir hv. 3. landsk. og fylgi hans við frv. markaðist af einhverju slíku, og marka ég það af því, hversu honum hafa farizt orð um þessi mál og önnur, sem verið hafa á dagskrá og komið hafa við dýrtíðarráðstafanir. Þótt svo kunni að fara, að hv. 5. þm. Reykv. kunni að snúa orðum mínum við og segja, að ég hafi sagt eitthvað annað en ég segi, þá ætla ég ekki að eyða tíma hv. d. í að svara því. Niðurstöður mínar og röksemdir liggja hér fyrir í nál., og ætla ég, að það sé svo skýrt, að ekki þurfi um að villast.