03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) :

Það er nú nokkur ágreiningur um það, hvort í l. frá 13. apríl 1943 felist slík heimild til greiðslna úr ríkissj. samkv. þessum l., sem hæstv. ríkisstj. hefur byggt á. Í þessum 1. er ákveðinn sérstakur skattur, sem ætlaður er samkvæmt beinum ákvæðum laganna til þess að nokkru leyti að standa straum af greiðslum í þessu skyni, eins og þar er tekið fram, og er þess vegna skoðun sumra hv. þm., að fjárveiting samkv. 4. gr. þeirra l. sé þar takmörkuð við þennan tekjuskatt. Nú er vitað, að þessi tekjuskattur fellur niður, ef gr. um hann verður ekki endurnýjuð, og þess vegna er auðsætt, að það verður að fá nýja heimild til þessa. En þar við bætist, að það mætti líta svo á, að í þeirri gr. l., þar sem talað er um, að ríkisstjórnin greiði niður dýrtíðina „með heimild“, þá sé átt við það, að það sé „að fengnu samþykki Alþ.“ En þó að þetta sé svo, að um þetta sé ágreiningur, þá kemur annað til, og ég held, að það sé enginn vafi á því, að meiri hl. fjhn. telur, að meiri hl. Alþ. muni vilja taka ákvörðun um þetta með atkvgr. Þess vegna er það, að meiri hl. fjhn. vill, að þetta frv. verði samþ. eins og það kemur fyrir. Í þessu felst þó ekki það (eins og kemur fram í áliti minni hl.), að þetta sé sama og að meiri hl. sé á móti því, að þessar greiðslur séu inntar af hendi. Það er annað mál. Meiri hl. er sammála um, að það sé komið undir atkvgr. Alþ., hvort greiðslur verði gerðar.

Ég geri ráð fyrir því, að ef þetta frv. verði samþ., að þá sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að fá heimild til að halda þessum greiðslum áfram fyrst um sinn, og meiri hl. fjhn. mun taka til máls um það síðar, hvað sem líður afstöðu einstakra nm. til þessa máls.