03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (3066)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) :

Það hefur verið sagt af spaugsömum manni, að hæstv. ríkisstj. brysti nokkuð á að hafa til að bera „lipurð hinna æfðu stjórnmálamanna“. Þó að ég hafi ekki dáðst svo mjög að ummælum þessa hv. þm., þá finnst mér, að í þessu máli komi fram nokkur staðfesting á orðum hans, — í því, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa gert þetta að deilumáli milli sín og þingsins.

Hæstv. fjmrh. sagði, að stj. hefði aflað nýrra tekna til að standa straum af greiðslum vegna dýrtíðarl. Ég vil minna hann á, að þegar hækkuð var álagning á tóbaksvörur og þá jafnframt gefið undir fótinn með hækkun áfengisverðsins, var skýrt lýst yfir því af ríkisstj., að þessum tekjum yrði ekki ráðstafað nema samkv. ákvörðun þingsins. Þess vegna skilst mér ekki rétt, sem hann segir, að þegar ríkisstj. hefur aflað sér þessara tekna, þá hafi hún rétt til að verja þeim eins og hún vill. Það má segja, að þetta eigi eingöngu við tekjurnar af hækkun tóbaksins, því að heimilda hafi ekki þurft til að hækka áfengi. En ég hygg, að meginhlutinn af þessum tekjuauka verði af tóbakinu.

Fjmrh. lýsti yfir því, að ef frv. yrði samþ., þá mundi stj. gera ráðstafanir til þess, að horfið yrði frá því að greiða niður verð á þeim afurðum, sem nú er gert.

Ég lýsti yfir því fyrir mína hönd og taldi fleiri í fjhn. því fylgjandi, að haldið yrði áfram að borga niður dýrtíðina, eins og það hefur verið nefnt. Og fjhn. er reiðubúin, ef frv. þetta er samþ., að taka upp flutning á málinu á þá leið að heimila slíkar greiðslur. Þarna finnst mér hæstv. fjmrh. skorta „þá leikni, sem æfðir stjórnmálamenn hafa til að bera“. Ef á daginn skyldi koma, að meiri hl. Alþ. fylgi sömu stefnu og meiri hl. fjhn., þá sannar það bara, að Alþ. heldur fast við rétt sinn að ákveða, hvaða stefnu skuli halda.

Hv. þm. V.-Húnv. var að lýsa því, hvernig fara mundi, ef þingið veitti ekki stj. heimild til greiðslu. Það þarf enga spádómsgáfu til þess að sjá það. Mér og meiri hl. fjhn. er það jafnljóst og honum, og því síður er þörf á spádómum, þar sem hæstv. fjmrh. var sjálfur búinn að gera grein fyrir því, hvað verða mundi. Að því er hv. þm. V.-Húnv. sagði, þá hefur verið skipuð n. til að leita samkomulags um niðurfærslu dýrtíðarinnar. Ég sé ekki, að það komi þessu máli neitt við. Ef ekki er heimild í l. fyrir þessari greiðslu, þá er sama, hvort það er um langa eða skamma stund, sem greiðslan er gerð án heimilda. Og þó að þessi n. starfi, sem við vitum ekkert, hvenær lýkur störfum, — kannske aldrei, þá kemur það ekki heldur þessu máli við. Ég veit ekki betur en því hafi verið lýst yfir af formælendum allra flokka, að þeir litu þannig á, að í l. frá 14. apríl s. l. feldist ekki heimild til ótakmarkaðra greiðslna úr ríkissj.

En eins og ég sagði áður, - að alveg slepptu því að taka tillit til þeirrar deilu, hvort heimild sú er í téðum l., - þá á þingið rétt á því að taka afstöðu til málsins.