03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í C-deild Alþingistíðinda. (3071)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. V.-Sk. hefur í þessu sambandi talað um samningsrof. Ég var í fjhn. á síðasta þingi, og er mér því nokkuð kunnugt um þessa samninga, og ég þori að fullyrða það, að enginn fjhnm. hefur gert ráð fyrir því, að þetta samkomulag fæli í sér nokkra skuldbindingu um það, að greiða uppbætur á vörum á innanlandsmarkaði til stríðsloka. Ekkert slíkt fólst í samkomulaginu. Þetta verður ekki hvað sízt greinilegt af því, að hér í hv. d. við umr. þessa máls, þá var lögð á það höfuðáherzla af flokksmönnum þessa hv. þm., að greiðsla þessara uppbóta væri engin framtíðarráðstöfun, og sumir sögðu, að það væri varla unnt að leggja út á þá braut og alls ekki undir neinum kringumstæðum nema til stutts tíma. Þetta var hljóðið í flokksmönnum hans þá. Það virðist þess vegna liggja nokkuð í augum uppi, að hér sé tekið nokkuð stórt til orða, þegar talað er um samningsrof. Það hefur nokkuð verið deilt um það, hvaða heimild til handa ríkisstj. felist í núverandi dýrtíðarl., og flestir fjhnm. munu hafa lýst yfir því, að þeir hafi ekki ætlazt til, að þessi heimild gilti öllu lengur en til 15. sept. 1943. Ég skal játa, að þetta atriði bar lítið á góma í fjhn., það var aðallega rætt hér í hv. d. og þá einmitt á þann hátt, að uppbætur á innlenda markaðinum væru, úr því sem komið væri, ekkert bjargráð í framtíðinni. En ég minnist nú þess, að ég fyrir mitt leyti gerði ráð fyrir því, að stj. hefði slíka heimild til þess að nota hana í smáum stíl til þess að lækka dýrtíðina niður úr því, sem búizt var við, að hún gæti orðið samkvæmt l., eða 230–240 stig. Þessi l. voru upphaflega borin fram til þess að koma dýrtíðinni niður, og uppbæturnar voru samþ. í þeim tilgangi, að dýrtíðin kæmist raunverulega niður. Það var búizt við því, að dýrtíðin kæmist raunverulega niður yfir sumarmánuðina, og það mundi gera allt þetta mál auðveldara viðfangs. En svo skeður það, að þær ráðstafanir, sem gerðar höfðu verið samkvæmt l., þær ráðstafanir, sem gerðar voru um afurðaverðið, þær stórhækka dýrtíðina raunverulega, en út í það skal ég ekki fara nánar. En að svo miklu leyti sem ég sem fjhnm. í fyrra, ætlaðist til, að stj. hefði slíka heimild, þá kom mér aldrei til hugar, að heimildin yrði notuð til að verja milljónum, jafnvel tugum milljóna samkvæmt þessari heimild, heldur gæti stj. farið lengra í því að lækka dýrtíðina en dýrtíðarlögin sjálf gerðu ráð fyrir. Meira var aldrei ætlazt til af nm., að fælist í þessari heimild. Þegar nú þetta hefur orðið, að dýrtíðin raunverulega færist upp í stórum stíl og það þarf stórfé til að halda henni niðri, þá þá horfir málið öðruvísi við, og þegar þetta frv. er fram komið, þá gildir það einu um framkvæmdina, þó að það sé samþ., því að ef slíkt frv. hefði ekki komið fram í þinginu, hefði komið fram þáltill. um það, annaðhvort að taka skyldi heimildina af stj., eða gefa henni slíka heimild, svo að þingviljinn hefði komið fram og orðið að gilda. A. m. k. hef ég ekki heyrt stj. tala á þann veg, að hún hefði ekki tekið tillit til þess þingvilja. Hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir því, að samstundis og þetta frv. verði samþ. sem l. þá muni stj. hætta að greiða uppbætur, ef ekki sé þá komin önnur heimild til þess að greiða uppbæturnar eftir. Ég hefði nú heldur kosið, að hæstv. fjmrh. hefði haft yfirlýsingu sína á þann veg, að ef ekki kæmu mótmæli frá þ., þá mundi stj. halda áfram að greiða uppbætur, þar til er fjárl. verða afgr. Það verður kannske ekki svo langt þar á milli, og það er því eðlilegra, að þingviljinn komi fram í fjárl. í þessum efnum. Í fjárl. er óhjákvæmilegt að áætla tekjur, sem stafa af hækkun á tóbaki og áfengi, sem nú er búið að gera ráðstafanir til, og á móti því, ef áætlað er að greiða uppbætur, verða að koma þau útgjöld, sem til uppbótanna þarf. Það er eðlilegt, að þingviljinn, eins og hann er í þessu efni, komi fram í sambandi við fjárl., og ég held, að stj. mundi vera alveg óhætt að bíða eftir þeirri afgr. með sínar ráðstafanir.