10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (3078)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt mikið, enda er það ekki undarlegt. En það er undarleg kenning, sem hefur verið haldið hér fram af hæstv. ríkisstj. og hv. frsm. minni hl. En þessi kenning er um það, að þessi setning, sem nú á að falla niður úr 4. gr. dýrtíðarl., eigi að vera ævarandi og ótakmörkuð heimild fyrir ríkisstj. til þess að borga niður dýrtíðina. Mér er hins vegar kunnugt um það, að er þetta mál lá fyrir fjhn. í fyrra, — og mér hefur að nokkru verið kennt um það samkomulag, sem þar náðist, — þá held ég, að engum í fjhn. hafi dottið í hug, að þessi setning veitti ríkisstj. heimild til þess að borga meira fé til þess að borga niður dýrtíðina heldur en það fé, sem aflaðist með þeim sköttum, sem gert var ráð fyrir í þessu sama frv.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. lýst yfir því, að það fé væri búið.

Mér finnst því ærið undarlegt, að ríkisstj. skuli nú vilja hanga á þessari setningu sem ævarandi heimild til þess að borga niður dýrtíðina, að þetta sé heimild til stærri fjárútláta en gert er ráð fyrir, að þeir tekjustofnar, sem l. fela í sér, geta staðið undir.

Varðandi það, sem 2. hv. þm. S.-M. sagði. að hann ætti bágt með að skilja okkur, sem vildum fella niður þessa heimild, en vildum þó ekki láta hætta að borga niður dýrtíðina, þá verð ég að segja, að mér þykir einkennilegt, ef jafnskynsamur maður skilur ekki tilgang okkar í þessu máli. Við teljum ekki heppilegt, að þingið geti ekki ráðið öllu í þessum málum, ef því þykir ástæða og þörf til.

En það er annað atriði í þessu máli, sem vert er að taka til athugunar, og það er það, sem háttv. þm. V.-Sk. ræddi um. Hann vildi svo vera láta, að hér væri verið að svíkja eitthvert samkomulag. Ef einhverjir eru sviknir, þá eru það ekki bændur, því að engir eru óánægðari með þessa niðurborgun en einmitt bændur. Einnig álít ég, að launþegar séu ekki ánægðir með þessa leið.

Þetta er einungis gert vegna erlendra markaðsins, og ég tel það ekki svik við neinn aðila, þótt réttur þings og stjórnar sé skýrt afmarkaður. Annars verð ég að segja það, að ég er dálítið undrandi yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa komið fram með neinar till. varðandi lausn þessa máls á komandi tíma.

Það hefur komið bændum allilla, á hvern hátt kjötið hefur verið verðbætt og þó sérstaklega kartöflurnar, en út í það skal ekki farið hér, þar eð það hefur fram komið í öðru sambandi.

En ég vildi víkja nokkrum orðum að ræðu, sem hv. þm. Siglf. hélt hér um daginn, enda þótt henni hafi verið svarað að nokkru af 2. þm. S.-M. Hjá honum gætti nokkuð mótsagna, sem oft vill verða, er menn ræða hér um landbúnað. Hann sagði, að landbúnaðarafurðir væru hér allt of dýrar, en hins vegar hefur ekki komið fram hjá honum eða flokksmönnum hans að þeir álitu, að bændur fengju of hátt verð fyrir afurðir sínar samanborið við kaup launþega. Hann sagði, að hér væri nær eingöngu rekinn kotabúskapur, og því vil ég þar til svara, að auðvitað vantar hér ýmislegt til þess, að landbúnaðurinn sé fullkominn, en þó er það svo, að þar, sem hann er lengst kominn, sýna tölur, að hann getur borið sig og svarar að öllu kröfum tímans. Að öðru leyti vildi ég ráðleggja þessum þm. að athuga ástand og afkomu þeirra ríkisbúa, sem nú eru starfrækt og búa við hin beztu skilyrði. Má vera, að hann öðlaðist við það nokkra reynslu.

Þá er hér till. frá 6 manna n., sem fer fram á, að ný nefnd verði skipuð til að hafa eftirlit með verðlagi og samræma það kaupgjaldi.

Komi það fyrir, að n. finni, að grundvöllur sá, er byggt hefur verið á, sé rangur, þá mun hún að sjálfsögðu leiðrétta það. Þannig tel ég, að þessu máli sé bezt komið.

Það var af slíkum ástæðum, að tveir nm. vildu ekki flytja þetta með okkur, en út í það fer ég ekki, enda munu þeir gera grein fyrir afstöðu sinni.