10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jón Pálmason:

Hv. þm. V.-Húnv. vildi andmæla því, að það hefði verið til þess ætlazt með dýrtíðarl., að ekki væri notað fé til þessara dýrtíðarráðstafana samkvæmt þeim, umfram það, sem aflaðist með þeim skatti, sem í þessum l. felst. Þetta er nú beinlínis tekið fram í 2. gr. l., þar sem sagt er, að þessi skattur sé á lagður til þess að standa undir þeim kostnaði, sem stafar af 4. og 5. gr. þessara l. Og það var það, sem vakti fyrir fjhn. a. m. k. og ég held öllum hv. þm. Það er því undarlegur hugsunarháttur, ef menn vilja draga út af þessu það, að það sé einhver ótakmörkuð og ævarandi heimild, sem megi draga út af þessum orðum, sem ég vitnaði til.

En eftir aths. hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Mýr. viðkomandi brtt. 344 virðast þeir miða mest að því að reyna að gera allt annað úr þessari till. en í henni felst í raun og veru. En að svo miklu leyti sem aths. þeirra byggjast á því, að viðhafa alla varfærni í þessu efni, þá er það náttúrlega allrar virðingar vert. En þeir höfðu báðir sömu aðferð, að lesa upp úr brtt. aðeins eina setningu, sem sé þá, að 6 manna n. skuli ákveða verðið fyrir 15. ágúst ár hvert. En þeir slepptu því, sem kemur strax á eftir, á hvaða grundvelli þetta skuli gert. Því að eins og ég tók fram áðan, þá er ekkert átt við með þessari till. annað en það, að starf þessarar n. skuli vera hliðstætt starfi kauplagsn. Í brtt. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Breytingar á verðlaginu skulu miðaðar við þær breytingar, sem á liðnu ári hafa orðið á kaupgjaldi í landinu og rekstrarkostnaði landbúnaðarins að öðru leyti“. Brtt. á ekki að vera nein önnur, nema því aðeins, að n. verði öll sammála um það vegna nýrra upplýsinga, að hún hafi gert einhver mistök, þannig að leiðrétting á þeim leiði annaðhvort til lækkunar eða hækkunar á verðlagi þessara vara. Ég hef borið þetta undir tvo af nm., sem í þessari 6 manna n. voru, og þar á meðal samflokksmann þessara hv. þm. tveggja, sem andmælt hafa þessari brtt. Og þessir tveir nm. telja, að ekkert sé óeðlilegt víð það, þó að þetta sé haft á þennan veg, sem gert er ráð fyrir með brtt., eins og ég hef nú skýrt það. Hitt er máske rétt hjá þessum hv. þm. báðum, að það væri hægt að reikna þetta út bara í stjórnarráðinu, hvaða breyt. er þörf í þessu efni. Og þá væri sjálfsagt líka hægt að reikna út verðlagsuppbótina á hverjum mánuði, án þess að hafa sérstaka n. starfandi til þess. En ætlunin var, að þetta verðlag yrði ekki reiknað út nema einu sinni á ári og það breyttist eftir breyt. á kaupgjaldi og öðrum liðum rekstrarkostnaðar við landbúnaðinn.

Þá er eitt meginatriði í sambandi við þessa brtt., sem hv. þm. Mýr. spurði um. Get ég sagt um það álit mitt, og ef meðflm. mínir hafa eitthvað við það að athuga, þá beini ég því til þeirra að segja til þess, ef þeir hafa einhverjar aths. fram að bera við álit mitt. Ég álít, að ef n. verður ekki sammála um útreikning eða breyt. á verðlaginu, þá verði við það að standa, sem í gildi er á þeim tíma um verðlagið. Þá er ætlazt til þess, að verðið sé óbreytt. Og það er líka alveg greinilega tekið fram í síðustu málsgrein brtt., að það sé alveg ófrávíkjanlegt skilyrði, að n. sé öll á einu máli.

Ég held svo, að ekki sé þörf á frekari skýringum varðandi þetta og að þessar aths., sem ég tek náttúrlega ekkert illa upp, séu þess vegna óþarfar.