10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Ég skal vera mjög stuttorður. En til mín hefur verið beint fyrirspurn út af brtt. á þskj. 344.

Ég ætla ekki að fara út í það að svara því, sem sagt hefur verið um þær aths., sem fram komu í ræðu minni fyrr við þessar umr., því að mikið af því, sem ég sagði um daginn, var ekki beinlínis snertandi þessa breyt., sem með frv. er lagt til, að gerð verði í l. um dýrtíðarráðstafanir, þó að það leiddi af þeim umr., heldur voru almennar hugleiðingar um landbúnaðarmál.

En út af brtt. á þskj. 344 er það að segja, að það er rétt, að þegar maður athugar ýmsar gr. dýrtíðarl. frá í vor og þar á meðal 4. gr., þá er sýnilegt, að það eru í þeim l. mörg ákvæði næsta óljós og ógreinileg. Og þetta er eðlilegt, því að menn voru ekki búnir að vita, hvort samkomulag gæti náðst, og ekki búnir að hugsa sér í einstökum atriðum, hvernig það yrði. En sex manna n. varð, að svo miklu leyti sem ákvæði þessara l. voru ekki nægilega skýr, að taka að sér að skýra þau nánar.

Ég álít það ekki rétt, eins og þó kom fram í ræðu hv. þm. A.-Húnv., að þáverandi verðlag gildi áfram eftir 15. sept., ef samkomulag næst ekki ágreiningslaust í n. fyrir tiltekinn tíma um afurðaverðið. Og þetta er af þeirri ástæðu, að n. hefur ákveðið verðið eingöngu til 15. sept. 1944, ef brtt. á þskj. 344 verður samþ. Það er greinilega tekið fram í brtt. Það, sem gildir þá framvegis, ef ekki verður samkomulag, er sá verðgrundvöllur, sem n. hefur sett fram og ekki er hægt að breyta, nema allir nm. geti verið sammála um breyt. á sama grundvelli. Það, sem því n. þarf að gera eftir brtt., þegar að 15. ágúst n. k. kemur, er að reikna út, hver sú upphæð er, sem bóndinn þarf að fá, miðað við afurðir meðalbús, til þess að mæta rekstrarútgjöldum búsins og geta fengið hæfileg vinnulaun fyrir sig og sitt fólk. Þetta getur n. gert og jafnvel kannske eins aðrir aðilar. En það er ákaflega óeðlilegt, að einmitt þessi n., sem í náðist samkomulag um þessi mál, verði ekki látin hafa þetta með höndum. Við útreikning hennar í starfi hennar komu til greina margar tölur. Og bak við hverja tölu, sem í áliti n. er fram tekin, liggur mikil vinna og athugun á mörgum tölum. Og það gæti verið álitamál, sem hér er um að ræða, en þessi n. væri bærust að hafa þekkingu á. Og vitanlega væri æskilegast, að hver liður, sem hefur verið þáttur þess samkomulags, sem í n. varð, væri tekinn út af fyrir sig af þessari n., sem gekk frá þessari athugun í upphafi. T. d. er einn liðurinn vinnulaun bóndans, sem eiga að vera miðuð við tekjur launastétta í bæjum. Það er vitanlega ekki hægt að binda sig — við ákvörðun þeirra launa á næsta ári — við þær upplýsingar, sem n. hefur bundið sig við nú, enda gerir n. ráð fyrir, að þessi laun breytist til hækkunar eða lækkunar eftir því, sem fram kemur við athugun á þeim liðum, sem koma til greina við þann útreikning.

En þær breyt., sem eftir brtt. má ekki gera, nema öll n. sé sammála um þær, eru breyt., sem byggjast á því, að einn eða annar liður eigi að hafa meiri eða minni verkanir á verðlagsákvarðanirnar en eftir hinu upphaflega samkomulagi. En ef slíkar breyt. kæmu til greina, þá væri eðlilegast, að þá útreikninga, sem kynnu að verða þess valdandi, framkvæmdi n. sjálf. Og ég vil sérstaklega nefna t. d., að það eru engin þau orð í l. um dýrtíðarráðstafanir, sem heimila að skýra þau l. svo, að þessi n. eigi aðeins einu sinni að ákveða verðlag á landbúnaðarafurðum, en svo eigi hún ekki að skipta sér af því framar. Henni er í þessum l. falið að vera búin að finna þennan grundvöll fyrir 15. ágúst 1943, og síðan eru engin nánari ákvæði þar um. En vitanlega er eðlilegast — og til þess var ætlazt, þegar l. voru sett — að n. starfaði áfram. Og hér í brtt. þessari er miðað að því að tryggja, að sá árangur komi að áframhaldandi notum, sem náðist með samkomulagi 6 manna n. og var í því fólginn að binda enda á það eilífa stríð milli neytenda annars vegar og framleiðenda í sveit eða fulltrúa þeirra hins vegar um verðið á landbúnaðarvörum, en verði ekki að engu gerður, og að n. fái gögn til þess að vinna úr, svo sem þarf, til þess að byggja á athugun og niðurstöður um það verð, sem gilda skuli á verðlagstímabilinu frá 15. sept. 1944 og til jafnlengdar 1945. Þetta er það, sem flestir af okkur, sem fylgjum þessu frv. — og þar á meðal ég — töldum þann rétta skilning á þessu máli. Og þetta er það, sem sjálf landbúnaðarvísitölun. vill. Og það er á ýmsu sjáanlegt, að sú n. ætlaðist beinlínis til þess, að hún fengi aðstöðu til þess að starfa áfram að þessum málum, og m. a. að hún treysti sér ekki til að ákveða verðið á þessum vörum lengra fram í tímann en hún hefur gert með nál. sínu.