16.12.1943
Neðri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í C-deild Alþingistíðinda. (3117)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég ætla, að það hafi verið að ósk hv. 3. þm. Reykv., að gengið var til atkvgr. um, hvort málið skyldi tekið af dagskrá hér á fundi í gær eða fyrradag. Og ég man ekki betur en hann lýsti því yfir, að hann teldi sjálfsagt, að málið fengi afgreiðslu á þessu þingi, og hann mun hafa spurt forseta, hvort hann tæki málið ekki á dagskrá áður en þingi lyki. Nú skilst mér, að þinglausnir eigi að fara fram á morgun. Í dag eru því síðustu forvöð með að afgreiða málið. Það er því ekki ófyrirsynju, að hæstv. forseti er að spurður, hvort hann sjái sér ekki fært að koma málinu að í dag, á þessum fundi eða öðrum.