28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (3132)

123. mál, náttúrurannsóknir

Hermann Jónasson:

Ég heyrði áðan útundan mér, að hv. þm. Barð. var að tala um, að ég hefði veitt einhverjum sérleyfi til þess að vinna jarðefni, og taldi það mundu vera um aldur og ævi. Þetta var leyfi til þess að vinna brennistein, ef ég man rétt, en það mun hafa átt að falla niður, ef vinnsla yrði ekki hafin innan tiltekins tíma, og ég hygg, að sá tími sé liðinn fyrir löngu, þannig að sérleyfið sé fallið úr gildi. Sú stjórn, sem ég veitti forstöðu, sat í átta ár, en þó mun það vera þannig, að þaðan fóru menn ekki með nein sérleyfi, og þessi heimild til þess að vinna brennistein í Krýsuvík átti að falla niður eftir tiltekinn tíma. Ástæðan til þess, að ekki var ráðizt í þetta, var sú, að það borgaði sig ekki að vinna brennisteininn til móts við það, sem hann er annars staðar.

Ég ætla þá aðeins að minnast á rannsóknaráðið án þess að lengja umr. mikið. Ég álít alls ekki rétt, sem komið hefur fram, að ástæðan til þess, að rannsóknaráðið hefur ekki unnið stórvægileg störf í þjóðfélagi okkar, sé sú, að það sé skipað af pólitískum flokkum. Ég get vel skilið, að hv. 5. þm. Reykv. færust orð eins og honum fórust þau, af því að honum fannst óeðlilegt, að flokkur hans var settur hjá á sínum tíma, og skal ég ekki fara inn á það. Um það má alltaf deila, vegna þess, hvað hans flokkur var lítill, með aðeins þrjá menn á þingi, hvort svo lítill flokkur ætti að skipa einn af fjórum mönnum, en öðru máli gegnir, þegar fjórir flokkar eru í þinginu og tveir hinir minni eru viðlíka stórir og það munar ekki mjög miklu, hvort þrír eða fjórir menn eru í ráðinu. Annars ætla ég ekki inn á þetta atriði, því að það má þrotlaust um það deila, hvar línan eigi að vera í þessu efni. En ég hygg, að það sé erfitt að færa sönnur á það, að ráðinu hafi ekki áunnizt meira en orðið hefur vegna þess, að það er skipað pólitískt, því að ástæðan er allt önnur. Ástæðan er sú, að íslenzka þjóðin á enn ekki nógu mikið af mönnum, sem geta fullkomlega unnið það starf, sem rannsóknaráðið á að vinna, og þetta sér maður bezt á því, að rannsóknastofa háskólans, — án þess að ég vilji nokkuð lasta þá menn, er þar starfa, — sem sett var á laggirnar í þágu atvinnuveganna, hefur ekki unnið það starf, sem við gerðum okkur vonir um, þegar l. voru sett, og eru þeir menn þó ekki skipaðir af pólitískum flokkum. En það er af þeirri einföldu ástæðu, að við eigum ekki enn þá þá menn, sem færir eru um að vinna það starf, sem rannsóknarstofa atvinnuveganna þarfnast. Þetta er ekki sagt af því, að ég vilji vekja deilur, en ég vil vekja athygli á því, að það er alveg rétt, að Sósfl. hefur tilnefnt í þetta starf mann, sem er einn af þeim fyrstu, sem líklegur er til að geta unnið þetta verk. Hann hefur verið í fjögur ár á rannsóknastofnunum erlendis, fyrst í Danmörku og síðan í Bandaríkjunum, og það er ekki hægt að neita því, að maðurinn hefur fengið mjög góða menntun og er líklegur til þess, að koma með miklar nýjungar inn í þetta starf. Ég vil bæta því við, að ég þekki þá menn, sem eru að búa sig undir þessi störf, af því að ég hef lagt fram nokkra vinnu í að útvega þeim fé, og ég get sagt það, að þegar einn af þessum mönnum, Björn Jóhannsson, kom inn á jarðefnarannsóknastofu, sagðist hann ekki geta þetta, hann hefði ekki nóga menntun. Hann er nú búinn að vera tvö ár, ætlar að vera það þriðja og er nú að taka doktorsnafnbót. Það tekur 10 ár og óskaplegt fé að afla sér þeirrar menntunar, sem þessir menn þurfa, til þess að geta tekið að sér störf hér heima, Og það er búið að taka Björn Sigurðsson, sem Sósfl. tilnefnir, 10 ár að undirbúa sig, þannig að þetta er ekki fljótgert. Björn Sigurðsson hefur alls ekki neitað að vinna undir stjórn rannsóknaráðsins. Maðurinn er mér persónulega kunnugur. Hann hefur rætt við mig, og ég hef talað við stj. hans vegna. Hann hefur ekki neitað að vinna undir stjórn rannsóknaráðsins, — ég hef stungið upp á því, — en hann hefur neitað að vinna undir stjórn rannsóknastofu háskólans. Ég tel ekki rétt að blanda málum svo mjög um þetta sem gert er. Það er ekki af því, að ráðið sé skipað pólitískt, sem misbrestur hefur verið á starfi þess, heldur af því, að beztu menn, sem við eigum, eru ekki starfinu vaxnir og það tekur langan tíma að ala menn upp í það. Og rannsóknastofa atvinnuveganna, sem er ekki skipuð með þessum hætti, hefur síður en svo unnið meira starf.

Þetta vildi ég taka fram, af því að ég álít rétt, að það komi fram, og af því að sjálfsagt er að vanda val þeirra manna, sem teknir eru, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að sá maður, sem Sósfl. tilnefnir, er mjög góður maður. En mér þætti fróðlegt, ef hv. 5. þm. Reykv. vildi benda á nokkuð marga menn í þessu landi, sem geta unnið þessi vísindastörf. Þeir eru ekki ýkjamargir.