28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

123. mál, náttúrurannsóknir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa ánægju minni yfir þeim upplýsingum frá hv. þm. Str., að þetta sérleyfi hafi fallið úr gildi. Þetta leyfi var gefið til 25 ára með því skilyrði, að það yrði að hefja vinnslu innan viss árabils, og það voru önnur jarðefni, sem fylgdu með. Og leyfið var veitt ekki aðeins fyrir Krýsuvík og einn eða tvo aðra staði, heldur einnig í Henglinum, undir Hofsjökli, inni á Hveravöllum og um allt hálendið, þannig að engar skorður voru við þessu settar, og ef ekki hefðu komið hér önnur öfl til, þá hefði af þessu orðið eitt af þeim allra stærstu pólitísku hneykslum, sem nokkur stjórn hefur framið. Það voru aðrir, sem gripu í taumana, og m. a. var stöðvaður útflutningur á jarðefnum, sem voru máske ekki mjög mikils virði, en þó um 200 þús. kr. Þm. kannast við það, því að hann ræddi um það við mig, en þetta voru jarðefni, sem ég sendi út sem sýnishorn. Hann sagði við mig, að hann gæti ekki gefið leyfi til þess, að ég flytti þetta út, því að sérleyfið hefði verið veitt til ákveðinna manna. Nú ætla ég að hlífa honum við því að nefna nöfn þessara manna, sem fengu þetta leyfi, því að það er útrunnið fyrir rás viðburðanna, en ég vil benda honum á, að þetta er í bréfi í stjórnarráðinu, sem er dagsett, að mig minnir, 8. marz 1939. Þetta er bréf, sem hann — bara af blygðun bannaði, að ég fengi að sjá, en ég náði því eftir öðrum leiðum, eins og ég náði í eintakið af Tímanum, sem gerði hann brunahæfan og geymt er í fórum einstakra manna.