28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (3134)

123. mál, náttúrurannsóknir

Brynjólfur Bjarnason:

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að ræða mikið um það, en ætla að endurtaka það, sem ég sagði áður, að skipun rannsóknaráðsins er þannig, að ekki er sæmandi neinni þjóð, ekki einu sinni Íslendingum.

1. flm. ræddi lítið um málið sjálft, eins og hans er vandi. Hann sagði, að þegar rannsóknaráðið var stofnað, hafi Sósfl. ekki haft fulltrúa, vegna þess að það hefði verið eins og að bjóða fermingartelpu á ball og það væri ekki sæmandi. Ég er alveg sammála hv. flm. um þetta, og þó að Sósfl. sé ekki lengur nein fermingartelpa, er hann þó svo vandur að virðingu sinni, að hann vill alls ekki taka þátt í þessu balli, sem rannsóknaráðið er, og vill láta hina flokkana sitja eina að skömminni.

Hv. þm. S.-Þ. lætur sér vel líka, að flokkarnir þrír hafi sinn bitling. Látum þetta vera í samræmi við upphafið, og í samræmi við þá hentistefnu, sem gilti, þegar l. voru sett, þar sem miðað var við stærstu flokkana svo og þann, sem nú er minnstur. Þá var tilganginum náð með því, að þrír stærstu þingflokkarnir ættu fulltrúa í ráðinu. Nú næðist sami tilgangur með því að kveða svo á, að tveir stærstu þingflokkarnir og sá minnsti skuli eiga þar fulltrúa. Eðlilegast hefði verið, að brtt. hefði verið á þá leið.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði um þetta frá öðru sjónarmiði. Virðist hann mér alveg sammála um það, að skipun rannsóknaráðsins sé ekki með þeim hætti, sem æskilegt væri, og ég skal taka það fram, að sá þm. átti ekki neinn þátt í þeim skrípaleik, sem þá var leikinn. Þm. vill sýna Alþfl. þá sanngirni, að hann fái að skipa mann í ráðið. Ég er ekkert á móti því að sýna fulla sanngirni, en vildu þá ekki þingflokkarnir sýna Sósfl. þá sanngirni að láta hann hafa mann í bankaráð Landsbankans, Útvegsbankans, í framfærzlumálanefnd o. s. frv. Ég ætla ekki að telja það allt upp, en dálítið er það einkennilegt, að þessi hugsunarsemi kemur eingöngu fram gagnvart Alþfl. Flokkurinn virðist líka vera ákaflega hrifinn af þeirri sanngirni að fá styrk til þess að halda þessum bitling, en óneitanlega er það hjákátlegt fyrir þá, sem hafa fylgzt með sögu þessa máls. Um það leyti, sem þessi l. voru sett, voru sett l. um fjölda annarra n., sem öll voru sett með þessari sömu formúlu, að þrír stóru flokkarnir áttu að eiga þar menn, en Sósfl. var útilokaður, ekki vegna þess, að flokkurinn átti aðeins þrjá menn á þingi, heldur til þess að útiloka skoðanir hans. Það voru þessir menn, sem úrskurðuðu, að flokkurinn væri alls ekki flokkur, til þess að hann gæti ekki tekið þátt í opinberum umræðum, og enn fremur kom fram till. um, að menn úr flokknum mættu ekki gegna beinni trúnaðarstöðu, og samtímis voru skipulagðar á þennan flokk þær mestu pólitísku ofsóknir, sem þekkzt hafa hér á landi. — Og svo koma þessir menn og segja, að það sé ósanngjarnt, að Alþfl. fái ekki að halda sínum bitling. Við skulum ekki tala um sanngirni. Við skulum tala um málið sjálft og hvort Alþingi á að slá því föstu, að rannsóknaráðið verði skipað með sömu tilhögun og verið hefur og verði þessi till. samþykkt, er það yfirlýsing um það, að Alþingi telji þessa tilhögun eðlilega. Spurningin er ekki um það, hvort Alþfl. eigi að hafa fulltrúa, heldur um stefnuna.

Það er misskilningur hjá hv. 6. þm. Reykv., að minn flokkur muni banna fulltrúa flokksins að starfa í rannsóknarráðinu. Ég geri ráð fyrir, að hann muni ekki taka það í mál að starfa í rannsóknaráðinu nú, ef þessi stefna er tekin. Hv. þm. Str. var að tala um það, að ákaflega fáir Íslendingar gætu unnið þau rannsóknastörf, sem við fyrst og fremst þurfum á að halda. Þetta er hverju orði sannara, en þá er líka fjarstæða, að visst skipulag beri það að verkum, að hinir fáu vísindamenn, sem við höfum á að skipa, geti ekki starfað, svo að það verði ekki not af kröftum þeirra. En þannig hefur það verið um rannsóknaráð ríkisins. Ég hef bréf í höndunum frá einum þessara vísindamanna, þar sem stendur m. a.: „Nánari ákvæði eru þau, að ég fái að ráða mér sjálfur og verði ekki settur undir stjórn manna, sem ekki bera vit á mín störf. Sem sagt: Rannsóknarráðið má ekki hafa yfirstjórn mína, heldur á ég að heyra beint undir ráðuneytið og háskólann“. Hinn maðurinn, sem þm. talaði um áðan, Björn Sigurðsson, sem er fulltrúi sósíalista í ráðinu og þm. viðurkenndi, að væri mjög vel að sér í þessum greinum, neitar algerlega að starfa undir atvinnudeild háskólans og mundi ekki heldur undir neinum kringumstæðum sætta sig við að starfa á vegum rannsóknaráðs. Hann hefur tjáð mér þetta sjálfur, og ég get fullyrt, að þetta er rétt. Þriðji vísindamaðurinn hefur beinlínis sagt upp starfi sínu vegna þess, að hann gat ekki þolað að starfa undir stjórn þessa ráðs. Hér er um alvarlegt mál að ræða, og þegar þannig er búið að vísindamönnum vorum, er ekki furða þótt manni renni til rifja að sjá till. eins og þessa, sem hér er komin fram. Það virðist sannarlega annað viðfangsefni liggja fyrir Alþingi en að sjá um, að Alþfl. haldi sínum bitling.

Ég mun ekki fara nánar út í þetta, en vonast til, að n. taki þetta mál alvarlega, en ekki í neinu skopi, og að það verði yfirleitt á þann hátt afgreitt, að sæmandi sé fyrir þingið.