28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (3137)

123. mál, náttúrurannsóknir

Brynjólfur Bjarnason:

Ég er hissa á, að hv. 6. þm. Reykv. skuli vilja ljá lið sitt til að halda þessu káki áfram, sem er orðið landinu til skammar. Það er skrítið, að hann tók til sín það, sem ég sagði um vesalmennsku þjóðstjórnarflokkanna og einkum Alþfl. Það er misskilningur, að ég sé með einhverja utangarðsstefnu gagnvart Alþfl. Ég hef aldrei staðið á móti því, að Alþfl. skipaði menn í n. á Alþ. Ég vil bara ekki, að sú stefna verði ofan á, að skipun í rannsóknaráðið verði bitlingaúthlutun milli flokka. Sósfl. vill a. m. k. ekki taka við slíkum bitlingum. Fulltrúi þeirra var tregur að fara í þetta ráð, en rétt þótti að freista þess, hvort ekki fengist breytt hinni gömlu stefnu.

Hv. þm. Str. vill vefengja að ráðið geti staðið í vegi fyrir, að notaðir séu starfskraftar vísindamanna okkar. Ég hef nefnt einn mann, Björn Sigurðsson. Mér er vel kunnugt um, að hann vill ekki veita forstöðu stofnun, sem er undir atvinnudeildina gefin, né rannsóknaráðinu. Áðan voru lesin ummæli úr bréfi frá öðrum vísindamanni, Áskeli Löve, sem ekki vill heldur vinna undir yfirstjórn rannsóknaráðs. Þriðji vísindamaðurinn, sem hefur fengizt við að rannsaka sauðfjársjúkdóma, hætti störfum, því að hann vildi ekki una afskiptum rannsóknaráðs ríkisins. Það er Guðmundur Gíslason.