28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

123. mál, náttúrurannsóknir

Haraldur Guðmundsson:

Það vantar aðeins eitt í þessar umr. Það er skylt að þakka hv. E. þm. Reykv. hans miklu umhyggju fyrir hinum fátæku og smáu, og er óskandi, að framhald verði á þeirri umhyggju, ekki aðeins að því er tekur til Alþfl., heldur almennt.

Hv. 5. þm. Reykv. hóf mál sitt með óvenjulegum hætti. Geðvonzkan var svo óskapleg, að ég hef ekki heyrt neitt svipað því lengi. Hann ruddi úr sér ókvæðisorðum og útdeildi flm. hverjum sinn skerf. En því ber að fagna, að hv. þm. segist ekki meina neitt af þessu til hv. 6. þm. Reykv. Það er gleðilegt tímanna tákn, ekki sízt á þessum tímum.

Ég veit að vísu, að ýmsir líta allmiklum öfundaraugum til bitlinga Alþfl., enda þótt þeir séu sjálfir miklu meiri bitlingum hlaðnir, en það er víst ekki annað en mannlegur breyzkleiki. Ég vil minna á það, að fulltrúi Alþfl. í ráðinu hefur ekki helmings bitlinga á við marga aðra.

Hv. 6. þm. Reykv. heldur því fram, að þessi l. séu í rauninni þjóðinni til skammar og að þau eigi alls ekki að gilda. En hvers vegna hefur hann þá ekki borið fram frv. um að nema þau úr gildi? (BrB: Það verður gert). Nú, jæja, það var mikils vert að fá þessar upplýsingar. Flokkur þessa hv. þm. er nú nýbúinn að tilnefna mann í ráðið. Hvers vegna ekki að bíða með það eftir till. þessa hv. þm. um að leggja ráðið niður? Hann sagði, að tilnefning manns þeirra í ráðið ætti að vera einhvers konar mótmæli gegn ráðinu. Ég verð að segja, svo að ég noti hans eigin orð, að þetta er fáránleg kenning.

Þá fann hann ráðinu það til foráttu, að það yrði meira pólitískt með því að skipa það eins og frv. leggur til. Ég get ekki séð, að það verði neitt meira pólitískt þótt bætt verði í það fjórða manni og hann verði tilnefndur á sama hátt og hinir. Ég held, að það sé því ástæðulaust að vera þess vegna að vonzkast yfir fjölgun í ráðinu. Það væri nær fyrir þá, sem eru að skeyta skapi sínu á þessu ráði, að bera þá fram till. um að afnema það eða gerbreyta því.

Þessi hv. þm. fullyrti, að það væru engin vinnubrögð hjá ráðinu og það hefði lamandi áhrif á alla vísindastarfsemi í landinu. (BrB: Ég hef sannað það). Ég fyrir mitt leyti efast mjög um það, en ég skal játa, að á þessu eru margir byrjunarörðugleikar eins og svo mörgu öðru hjá okkur. Ég skal engan dóm leggja á það, hvað þessi hv. þm. hefur í huga, fyrr en hann leggur fram till. sínar, en ég tel, að það sé nógur tími til þess að gagnrýna ráðið, þegar það er búið að yfirstíga byrjunarörðugleikana og getur sýnt, hver árangur verður af starfi þess.

Ég hef aldrei gert ráð fyrir því, að ráðið framkvæmdi sjálft rannsóknir sínar, heldur að það fengi aðra menn til þess að taka upp þær rannsóknir, sem mest þörf er á, að gerðar verði, hver á sínu sviði. Þessi hv. þm. sagði, að slíkt ráð mundi hvergi vera annars staðar til í heiminum. Ég hygg þó, að það sé til, en ég vil þó ekki fullyrða það, þar sem mér er það atriði ekki nægilega kunnugt. En ég held, að þau orð hans hafi verið alveg úr lausu lofti gripin.

Hann verður að gera sér glögga grein fyrir því, að það er sitt hvað, að ráðið framkvæmi sjálft rannsóknirnar eða það hafi aðeins yfirstjórn þeirra í sínum höndum.

Að óbreyttri þeirri hugsun, sem nú liggur bak við þessi l., þá virðist það ekki annað en sjálfsögð sanngirniskrafa að samþ. þetta frv., þó að mér finnist það að vísu ekki skipta mjög miklu máli fyrir Alþfl., hvort hann fær að hafa þarna fulltrúa áfram eða ekki.