01.11.1943
Efri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

129. mál, lögreglumenn

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég get verið stuttorður. — Málefni það, sem hér er fram borið, er sjálfsagt sanngirnis- og hagkvæmnismál fyrir kaupstaði landsins miðað við önnur sveitarfélög, og ég efast ekki um það, að hv. Alþ. muni fúslega verða við því að láta kaupstaðina í þessu njóta jafnréttis á við aðra, enda má svo segja, eins og vikið er að í grg. frv., þar sem drepið er á landsréttardóma, að sjálfur hæstiréttur hafi kveðið upp úr um það, að löggæzlan sé málefni, sem ríkisvaldinu, en ekki einstökum sveitarfélögum beri að standa fjárhagslegan straum af, og Alþ. ætti ekki að láta undir höfuð leggjast að fylgja þeim leiðarvísi og þeim ábendingum hæstaréttar, sem með þessu hefur komið fram. Um þetta meginatriði frv. held ég, að allir sanngjarnir menn hljóti að vera sammála, og ég efast ekki um, að þetta frv. muni fá góðar undirtektir hér á hv. Alþ. Hitt er svo annað mál, að það má ef til vill deila um einstök atriði frv., eins og t. d. um það, hvernig skipun lögregluþjóna skuli komið fyrir, og ef til vill um það, hvort það sé rétt að setja einn lögreglustjóra yfir allt landið, eins og sagt var, að einn setudómari hefði viljað stíla sjálfan sig. Það gæti verið athugandi, hvort taka ætti upp slíka skipun, en það er aukaatriði, sem skiptir ekki miklu máli, en gæti verið til athugunar í n. Meginkjarni frv, er alveg ljós og sanngirnin svo bersýnileg, að ótrúlegt er, að um það verði deilt. Ég legg því málið óhikað á vald hv. d. án þess að fjölyrða um það frekar, ég get þar vísað til grg. Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til, 2. umr. og allsherjarnefndar.