10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

151. mál, skólasetur og tilraunastöð á Reykhólum

Jónas Jónsson:

Ég er ekki viss um, hvort óskir hv. flm. um óvenjulegan hraða á þessu máli eru réttmætar. Þó að í frv. séu merkilegar till., er ekki ástæða til annars en athuga það á venjulegan hátt í n.

Sú hugmynd, sem liggur til grundvallar, að gera þetta að vinnuskóla með sérstöku fyrirkomulagi geymir í sér svo merkilega tilraun, að ástæða gæti verið til að breyta eldri stofnunum í þessa átt. Ég hef talfært það við áhugamenn í sambandi við búnaðarskóla Suðurlands, hvort ekki mætti hugsa sér að hafa þann skóla ekki sem stórbýli, heldur samsafn af mismunandi stórum sveitasetrum, þannig að nemendur geti kynnzt mismunandi tegundum búskapar.

Frv., sem hér liggur fyrir, er merkileg tilraun í skólamálum, og er ástæða til að sýna því velvild. Það er sennilegt, að málið komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir stríð, en engu að síður er málið gott.