17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (3168)

165. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og um fjárskipti

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er mjög einfalt, og ég ætla ekki að hafa um það mörg orð. — Þannig stendur á, að Suður-Þingeyjarsýsla er nú einna verst sett af öllum héruðum landsins viðvíkjandi mæðiveikinni — og því verr sett, þar sem hvorki er þetta mjólkurframleiðsluhérað né þar hrossauppeldi. Nú hefur það legið við borð að hafa þar sauðfjárskipti þannig að flytja þar inn heilbrigðan stofn og útrýma þeim veika. En ýmsir annmarkar eru á því og m. a. þeir, að l. eru þannig, að það er mjög erfitt að koma fram eðlilegum vilja fólksins í því efni. M. a. er það í l., að maður, sem hefur átt töluvert bú og er búinn að missa allar skepnur, hefur ekki atkvæðisrétt um það, hvað gera skuli. Þetta er eitt af því, sem menn hafa ekki áttað sig á, þegar l. voru sett. Og það er hér í frv. farið fram á mjög eðlilegar breyt. á þessari löggjöf.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í efni frv. að þessu sinni, en vonast til þess, að málinu verði vel tekið, og óska, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.