02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í C-deild Alþingistíðinda. (3174)

173. mál, skipulag Reykjavíkurbæjar

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að flytja frv. þetta, og er það gert eftir áskorun frá meiri hl. bæjarráðs Reykjavíkur. Frv. þetta og ýtarleg grg., sem því fylgir, sýna fram á nauðsyn nýrra lagaákvæða um það, sem hér um ræðir, og einnig, hversu eðlilegt það er, að sérákvæði gildi um skipulag Reykjavíkur. Mér er ljóst, þar sem svo mjög er liðið á þingtíma, að vafasamt er, að frv. nái fram að ganga, en ég taldi þó rétt að leggja það fram, til þess að hv. dm. gætu haft það til athugunar. Ég geri ekki ráð fyrir, að reynt verði á, hvort menn eru með því eða móti fyrr en á næsta þingi, en vil leggja til, að frv. verði vísað til allshn.