02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í C-deild Alþingistíðinda. (3177)

173. mál, skipulag Reykjavíkurbæjar

Jónas Jónsson:

Það er kannske ekki undarlegt, þó að maður, sem hefur ekki verið nema tiltölulega stuttan tíma borgarstjóri, viti ekki algerlega um allar syndir, sem fyrirrennarar hans hafa drýgt. En af því að hann taldi, að það stæði upp á skipulagsnefnd ríkisins um uppdrátt af Reykjavík, þá verð ég að minna á, að árið 1927 kom skipulagsn. ríkisins með heildaruppdrátt af Reykjavík og lagði fyrir bæjarstjórn, sem þessi borgarstjóri, hv. 6. þm. Reykv., var ekki í. Svo liðu 4 ár, og bæjarstjórnin sinnti þessu ekki, heldur var komið í gegn á Alþ. l. um, að sá skipulagsuppdráttur; sem gerður væri á hverjum tíma, væri úr gildi fallinn, ef hann væri ekki samþ. innan tveggja ára. Það kom svo í ljós, að þetta var gildra til þess að losna við þennan uppdrátt og þurfa að fara eftir honum. Svo kom þetta blessað tímabil, þegar Norðurmýrin var byggð. Það er ekki hægt að saka skipulagsn. fyrir það, að uppdrátturinn var ekki notaður, heldur féll úr gildi á þennan hátt. Svo hefur bara skipulagsn. ekkert haft með Reykjavík að gera síðan. Og hún gat vitanlega ekki farið að gera heildaruppdrátt af Reykjavík aftur, meðan viðbúnaðurinn var svona. En allir aðrir kaupstaðir og kauptún fagna því að fá sem mestan stuðning af skipulagsn., þó að Reykjavík hafi ekki gert það. Og ég ætla að segja það til örvunar fyrir núverandi borgarstjóra, ef hann gæti bætt úr syndum okkar allra, að inni í þessum ágæta bæ, sem hann stýrir, er aðeins einn lítill blettur, þar sem börn þessa bæjar geta enn verið, og það er ekki blettur, sem bærinn á, heldur ríkið, þ. e. Arnarhólstúnið. Ég er ekki að beina því að þessum borgarstjóra. Hann ber ekki ábyrgð á því. En ég vil aðeins nefna þetta sem dæmi um það, að þessi sundrung bæjarstjórnar Reykjavíkur hefur verið ákaflega örlagarík fyrir bæinn og fyrirstaða þeirra manna, sem staðið hafa gegn skipulagningu bæjarins. En aðrir bæir og kauptún hafa farið allt öðruvísi að. Og niðurstaðan hefur svo verið samkvæmt því.

En þar sem hv. 6. þm. Reykv. taldi það vera eins konar hótun að gera ráð fyrir, að skipulagsn. ríkisins segði af sér, þá hef ég ekkert umboð fyrir þessa menn, sem í n. eru. En eins og ég þykist viss um, að hvaða hæstiréttur, sem væri, — og ekki sízt, ef hv. 6. þm. Reykv. væri í honum, — þá kenni ég illa skap hv. 6. þm. Reykv., ef hann vildi í þeim hæstarétti sitja hér, ef t. d. Norðlendingafjórðungur væri undanskilinn frá að þurfa að hlíta lögum landsins.

Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að tala meira um þetta. En málið er óneitanlega einkennilegt. En ég hef hugsað mér að láta prenta sem viðbótarfylgiskjal með þáltill. þessa skýrslu frá formanni skipulagsn. um þessi mál. Og ef ég verð á þingi framvegis, skal ég reyna að koma með mjög ýtarleg gögn um þetta efni með tilliti til framkomu bæjarstjórnar Reykjavíkur í þessu skipulagsmáli bæjarins og hvernig þessi bær hefur gert tilraun til að vera í þessu efni eins og ríki í ríkinu með sérstökum l. fyrir sig.