02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í C-deild Alþingistíðinda. (3179)

173. mál, skipulag Reykjavíkurbæjar

Jónas Jónsson:

Í sambandi við mismunandi stórhug vil ég benda á, að það, sem á milli ber, er, að samkv. réttum l. á þetta að vera þannig, að Reykjavík geri sínar till. eins og aðrir bæir og skipulagsn. geri sínar till. og landsstjórnin skeri úr að síðustu. En þetta hefur ekki verið gert, heldur hefur staðið á bænum með að beygja sig undir sömu landslög og aðrir bæir í landinu. Ég vil benda á, að eitt af því ágæta, sem skipulagsn. bæjarins hefur hugsað sér, er að gera á vesturbakka tjarnarinnar og svo áfram að Stúdentagarðinum og við Háskólann eina aðalumferðagötu bæjarins. Hún hefur stundum verið kölluð Grútarvegur, þessi fyrirhugaða gata, því að slíkar verksmiðjur væru suður við Skerjafjörð. En að menn hugsa sér að gera aðalumferðagötu meðfram því, sem á að vera aðalprýði bæjarins, Tjörninni, það er furðulegt. Og til þess að geta gert þessa götu eftir uppástungu skipulagsn. bæjarins þyrfti að breyta og taka burt stórar byggingar, þannig að það er meir en rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að það yrði kostnaðarsamt að fara eftir þeim till. Það yrði ákaflega dýrt fyrir bæinn. Og meðan bærinn lagar ekki Uppsalahornið og hornið við Vesturgötu, þá veit ég ekki, hvar hann ætlar að fá peninga til þessara byltinga, sem fylgja mundu framkvæmd till. skipulagsn. Reykjavíkur. En það, sem bendir ekki á stórhug, heldur hug, sem ég vil ekki nefna, er, og það má leita víða í borgum að fordæmi fyrir því án þess að finna það, — að alrólegasti partur borgarinnar og fegursti sé tekinn og gerður að aðalgötu, sem hér í Reykjavík er við Tjörnina, þessa aðalprýði bæjarins.

Þetta ætla ég að láta nægja við þessa umr., en aðeins segja það, að stórhugur af þessu tagi, ef framkvæmdur væri, mundi draga bæinn niður frá skipulags sjónarmiði.