02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

15. mál, fjáraukalög 1940

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þetta frv. til athugunar og orðið þess vör, að í því eru nokkrar skekkjur, eins og það liggur fyrir á þskj. 21, og hefur hún því flutt brtt. á þskj. 299 til lagfæringar á þeim.

Ég skal geta þess í sambandi við 5. brtt. um framlög til þjóðvega, að þessar umframgreiðslur höfðu ekki verið settar í frv., og geri ég ráð fyrir, að það hafi stafað af því, að þessi útgjaldaliður er eitthvað lægri í ríkisreikningnum en í fjárl., og býst ég því við, að ríkisstjórninni hafi ekki þótt ástæða til þess að leita heimilda fyrir þessum aukagreiðslum. En það hefur verið venja að leita samþykktar á öllum umframgreiðslum til einstakra vega, þótt heildarupphæðin hafi ekki farið fram úr heimild fjárl., og þótti fjvn. því rétt að taka þetta upp í fjáraukal. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar, en legg til, að frv. verði vísað til 3. umr. með þeim breyt., sem fjvn. leggur til á þskj. 299.