26.11.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

111. mál, línurit yfir vegi

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þessi þál. till. fer fram á að fela ríkisstj. að láta gera línurit yfir vegi landsins, svo að þm. geti áttað sig betur á því, hvar gerðir hafa verið akfærir vegir, og hægara sé fyrir þá að dæma um ástandið í vegamálum landsins, þegar skipt er því fé, sem til vega er lagt á hverjum tíma. Vegamálastjóri gaf mér þær upplýsingar, að hægt væri að láta gera þetta með lítilli fyrirhöfn. Það liggja fyrir hjá honum gögn, sem að þessu lúta. Kostnaður yrði lítill, en hagræði mundi verða mikið að þessu fyrir þm.

Ég vænti þess, að ekki þurfi að senda málið til n., þetta er svo einfalt mál, og óska, að gert verði út um það fyrir lok þessarar umr.