03.12.1943
Sameinað þing: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

111. mál, línurit yfir vegi

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar og orðið sammála um, að það væri nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar, sem farið er fram á í þáltill., að veittar verði, en jafnframt vill n., að þáltill. verði gerð nokkru víðtækari en hún er. N. álítur, að auk þeirra upplýsinga, sem í þáltill. er farið fram á, að gefnar verði, þá skuli einnig veita nokkrar upplýsingar um það, að hvaða bæjum og hve mörgum í hverri sýslu væri hægt að flytja vörur eftir akfærum vegum. Það er ekki nóg, að áliti n., að glöggar upplýsingar liggi fyrir um það, hversu marga kílómetra veg eða vegi er búið að leggja í hverri sýslu á landinu, af því að það er ekki trygging fyrir því í hlutfalli við vegalengdirnar í sýslum, sem akfærir vegir liggja um, að tiltölulega eins margir bæir í sýslunni geti notið veganna. N. fannst því, að það þyrfti að upplýsa einnig, hversu margir bæir í hverri sýslu yrðu að búa við vegleysur. Þess vegna hefur n. lagt til, að þáltill. verði samþ. með breyt., sem hún hefur borið fram á þskj. 534, sem er um það, að einnig séu fengnar upplýsingar um það, sem ég gat um áðan, samhliða því, sem fengið sé línurit yfir vegina. — Allshn. hefur einnig séð ástæðu til að setja það inn í þáltill., að kostnaðurinn við verkið skuli greiddur úr ríkissjóði, en skuli reiknast með kostnaði vegamálaskrifstofunnar. Eftir upplýsingum, sem fyrir liggja frá vegamálaskrifstofunni, þá mun hér um lítinn kostnað vera að ræða, þar sem gögn um þetta munu að mestu leyti vera fyrirliggjandi þar á skrifstofunni, og þarf aðallega að tína þau saman og samræma eftir skýrslum, sem þar eru. Ég óska fyrir hönd allshn., að þáltill, verði samþ. með þessari breyt., sem fram er komin á þessu þskj.