20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

100. mál, skipun mjólkurmála

Gunnar Thoroddsen:

Ég get sætt mig við, að till. verði tekin á dagskrá á morgun, þó að ég sé undrandi yfir, að það skuli hafa verið dregið svo lengi.

Hæstv. forseti segist hafa ætlað að skáka þessum tveimur málum saman, sem ég veit þó ekki með hvaða rétti hann gerir. Frv. hefur verið rætt dag eftir dag og orðið um það geysilega miklar umræður, en ég geri hins vegar ekki ráð fyrir, að miklar umr. verði um till. mína. Það er rétt hjá hæstv. forseta að láta ekki miklar umr. um eitt mál verða til að stöðva alveg framgang annarra og þess vegna að hafa það aftast á dagskránni, en það afsakar ekki, að mín till. sé þannig látin bíða, því að ég geri ekki ráð fyrir, að hún veki svo miklar deilur. Ef miklar umr. verða um hana, þá er eðlilegt, að önnur mál verði tekin fram yfir hana, en að óreyndu er ekki rétt að láta hana bíða þannig dag eftir dag.