25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

100. mál, skipun mjólkurmála

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 173 till. varðandi rannsókn mjólkurmála í Reykjavík. Fer till. fram á, að skipuð verði nefnd, er hafi þessa rannsókn með höndum.

Verkefni þessarar nefndar á að vera að rannsaka þau atriði, sem deilt hefur verið um, m. a. umkvartanir neytenda, orsakir skorts á mjólk og mjólkurafurðum, sölu til setuliðsins og hversu mikið mjólkurmagn hefur hin síðustu ár farið til neyzlu og hversu mikið til vinnslu mjólkurafurða, — rannsaka dreifingar- og vinnslukostnað, flutningsfyrirkomulag í héraði og til sölustaða og gera till. um þessi atriði, — loks að athuga, hversu auka megi mjólkurneyzlu Íslendinga, eftir að hið erlenda setulið hættir mjólkurkaupum hér, og hversu bezt verði háttað heppilegu og friðsamlegu samstarfi framleiðenda og neytenda um mjólkursölumálin.

Um það þarf ekki að fara mörgum orðum, hve miklar og viðkvæmar deilur þetta mál hefur orsakað, allt frá því að mjólkursölulögin voru sett 1934. Deilur þessar hafa að vissu verið misjafnlega háværar, en nú hafa þær risið hvað hæst og dögum saman fest mest af fundartíma Alþingis. — Tilgangurinn með till. þessari er að leita endanlegrar lausnar í málum þessum og finna grundvöll fyrir eðlilegu samstarfi framleiðenda og neytenda.

Það er okkur öllum kunnugt, hverjar kvartanir hafa verið fram bornar af neytendum í Reykjavík og Hafnarfirði. Hvort þær eru að öllu réttmætar og sanngjarnar, verður ekki sagt að svo stöddu, en hitt er víst, að glöggt finna menn til þess, er þeir koma til Reykjavíkur úr sveitinni á haustin, þar sem þeir hafa drukkið ljúffenga og heilnæma nýmjólk, hversu meðferð mjólkurinnar hér er ábótavant.

Það hefur verið fram borið, að mjólkurstöðin sé úrelt og alls ófullnægjandi, og enn fremur, að gerilsneyðingin skemmdi mjólkina. Hversu rétt sem þetta er, verður ekki sagt annað en óhæfilegt forsjárleysi hafi átt sér stað meðal ráðamanna þessarar stofnunar. Strax 1936 komu fram kvartanir um, að mjólkurstöðin væri gölluð, og þó að nú sé hafizt handa um byggingu nýrrar mjólkurstöðvar, má segja, að í þessu hafi ríkt fullmikið seinlæti. Að því er gerilsneyðingu viðkemur, þá virðist mega gera hana mjólkinni að skaðlausu samkv. reynslu manna er lendis. Sumir telja, að um sé að kenna ónógu hreinlæti hjá þeim, sem láta mjólkina af hendi. Enn aðrir hafa getið þess til, að mjólkin væri of gömul og hinn langi flutningur mundi skemma hana. Þó er mér tjáð af greinagóðum mönnum, að slíkt muni ekki saka. Frá hendi þeirra manna, er með þessi mál fara, hefur engin fullnægjandi skýring fengizt varðandi þessi atriði; og það er fyrst nú, sem farið er að gefa skýrslur nokkrar hér um.

Það er vitað mál, að engin stöð hefur jafnmikið eftirlit sem mjólkurstöðin hér í Reykjavík. Við hana hefur verið skipaður gerlafræðingur, sem rannsakar mjólkina. Þegar kvartað hefur verið út af mjólkinni, hafa forstöðumenn löngum borið því við, að ástæðulaust væri að kvarta, þar eð gerlafræðingur sæi um mjólkina. En gerlafræðingurinn getur ekki orðið þeim að haldi í þessu efni, því að hann lýsir yfir, að hann hafi alls ekki vald til þess að endursenda mjólk, sem hann telur ekki fullboðlega vöru. Ég held, að af þessu megi verða ljóst, að eftirlitið og matið á vörunni er ekki eins fullkomið og stjórn mjólkursamsölunnar vill vera láta í skýrslum sínum. Ég nefni þessi atriði, er komið hafa fram, sem ástæður fyrir því, að telja má, að mjólkin sé ekki nægilega góð vara.

Ég skal geta annars atriðis líka. Eins og kunnugt er, er mjólkin flokkuð í fjóra flokka, að kallað er, og gerður verðmunur á henni eftir flokkum. Þó hygg ég, að enginn verðmunur sé á 1. og 2. flokki mjólkurinnar, heldur greitt sama fyrir þá. 3. fl. mun vera verðfelldur um 10 aura, miðað við 1. fl., og 4. fl. um 15 aura. Ef þetta eru ekki réttar tölur, vænti ég þess, að hv. formaður mjólkursölun. leiðrétti það. Það er skoðun margra, að þessi verðmunur sé of lítill, vegna þess, hver geysimunur er á þessari mjólk. Og vitanlega er ekki rétt að gera engan greinarmun í verðinu á 1. og 2. flokki, því að það mun verða til þess að draga úr áhuga og framtaki framleiðenda til þess að vanda mjólkina sem bezt.

Annað atriði, sem ég vildi leyfa mér að spyrja um, er viðvíkjandi því, að mér er tjáð, að mjólkin sé flokkuð, þegar tekið er á móti henni inn í mjólkurbúin, en ekki, þegar hún kemur til mjólkurstöðvarinnar hér í Reykjavík. En þó að mjólkin sé flokkuð, þegar hún er tekin inn í Mjólkurbú Flóamanna t. d., þá er það lítil sönnun þess, að hún sé góð vara, því að hún getur verið orðin verri vara, þegar hún kemur hingað til mjólkurstöðvarinnar. Um þetta atriði vildi ég m. a. spyrja þá menn, sem með þessi mál fara, hvernig þessi flokkun sé.

Ég minnist á þessi atriði hér, sem getið hefur verið til um, að gætu valdið því, að mjólkin væri ekki eins góð vara og æskilegt væri. En þessi atriði eru meira og minna órannsökuð. Og það á að vera hlutverk þessarar n., sem hér er farið fram á að skipa, að upplýsa þessi atriði. Og verði hún skipuð, þá upplýsist annaðhvort, að þessar ásakanir um slæma mjólk eru ekki á rökum reistar, eða þá hins vegar, að þær séu á rökum reistar, og ef þessar umkvartanir reyndust vera á rökum reistar, þá er það skylda stjórnenda mjólkurmálanna að kippa því í lag, sem mundi verða til hagsbóta bæði fyrir framleiðendur og neytendur.

Nú er svo ákveðið í 1. gr. mjólkursölul., að tilgangur l. og hlutverk stjórnenda mjólkurmálanna sé að útvega góða og óskemmda mjólk. Í 1. gr. mjólkurl. frá 1935 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Að jafnaði markar sú aðstaða verðjöfnunarsvæði, að hægt sé þar að selja daglega góða og óskemmda mjólk og rjóma“ o. s. frv. — Það er skoðun meðal þorra neytenda hér í bænum, að þessu ákvæði hafi ekki verið og sé ekki fullnægt.

Annað atriði, sem mjög hefur verið um rætt og þessi n. á m. a. að athuga, er sá tilfinnanlegi skortur bæði á neyzlumjólk og mjólkurafurðum, svo sem smjöri, skyri o. fl., sem hvað eftir annað hefur gert vart við sig og sérstaklega orðið umræðuefni nú í haust. Þetta mál hefur að vísu nokkuð skýrzt, en alls ekki til hlítar, og eitt atriði er í því, sem alls ekki hafa fengizt fullnaðarupplýsingar um, þar sem er salan til setuliðsins. Mjólkursölustjórnin hefur í skýrslu sinni gefið yfirlit nokkurt um það, hve mikil salan hefur verið að undanförnu, þannig að fyrstu vikuna í ágúst hefur salan verið rúmi: 8000 lítrar, fyrstu vikuna í september um 7400 lítrar og fyrstu vikuna í október um 6300 lítrar. M. ö. o., þessar fyrstu vikur í þessum þremur mánuðum er mjólkurmagnið á dag, sem fer til setuliðsins, frá rúmum 6000 lítrum og upp í rúmlega 8000 lítra. Nú mundi mikið muna um það, að þau 6000–8000 heimili, sem eru í Reykjavík, fengju hvert um sig einum lítra meiri mjólk á dag. Þá yrði ekki kvartað yfir mjólkurskorti. En skýringin á þessari mjólkursölu til setuliðsins af hálfu stjórnar mjólkursamsölunnar er sú, að setuliðið neiti að kaupa mjólkina áfram, ef a. m. k. nokkuð að ráði verður dregið úr sölunni. Um það segir svo í þeirri skýrslu stjórnar mjólkursamsölunnar, sem ég hef minnzt á, að tiltekinn maður, Stefán Björnsson, forstjóri Mjólkurbús flóamanna, skrifi á þessa leið: „Í sumar mætti Captain Harry J. Robertson hér fyrir hönd setuliðsins. Þegar ég eitt sinn í sumar benti Captain Robertsson á það, að svo hlyti að fara, að draga yrði úr mjólkursölu til setuliðsins í haust eða að jafnvel yrði að svipta það allri mjólk, ef mjólkurskortur yrði, skýrði hann mér frá því, að þar sem setuliðið hefði samkv. beiðni íslenzku ríkisstj. keypt meira af mjólk framan af sumri en það hefði kært sig um, gæti það ekki sætt sig við, að mjólkurmagn það, er það fengi nú daglega, yrði skert til muna eða salan stöðvuð í haust. Hann lét einnig svo um mælt, að ef mjólkurskammtur setuliðsins yrði minnkaður í haust, mundi hann ekki fást aukinn aftur, þótt þess yrði óskað . . .“

Þetta er náttúrlega sjónarmið, sem rétt er að taka til greina, vegna þess, hve mikil nauðsyn er á, a. m. k. eins og sakir hafa staðið undanfarið, að selja mjólk til setuliðsins, til þess að sem minnst af mjólkinni þurfi að fara til vinnslu. En þessar upplýsingar stangast gersamlega við upplýsingar hæstv. utanrh., sem hann gaf hér á hæstv. Alþ. 13. okt. s. l., að setuliðið óski ekki eftir að fá keyptar þær neyzluvörur, sem við framleiðum Íslendingar, nema það, sem er á hverjum tíma framleitt umfram neyzluþörf okkar sjálfra. Ég skal ekkert um það segja, hvort stjórn mjólkursamsölunnar hefur gefið þarna rangar upplýsingar um það að þrátt fyrir þessa sölu til setuliðsins mundi verða næg mjólk samt til sölu handa íslenzkum neytendum. Þetta atriði er — eins og fleiri — óupplýst. Og væntanlega gæti það orðið einn þáttur í árangri af rannsóknum þeirrar n., sem hér er lagt til að skipa, að þetta yrði upplýst. En þessi ummæli mín má á engan veginn skilja svo, að við getum haft á móti því, að sjúkum mönnum úr hernum sé séð fyrir mjólk, því að það er sanngjarnt og sjálfsagt, að það sé gert. En ég get ekki trúað því, að þetta mikla mjólkurmagn, sem fer til setuliðsins, sé allt keypt handa sjúklingum.

Það hafa að vísu oft komið fram þær einkennilegu staðhæfingar frá stjórnendum mjólkursölumálanna hér, að það sé misskilningur, að það sé um mjólkurskort að ræða, og rökin fyrir þessari fullyrðingu eiga að vera þau, að í fyrra haust hafi enginn mjólkurskortur verið og nú sé selt 4000 lítrum meira á dag til innlendra neytenda hér í haust en í fyrra haust. Og niðurstaðan hjá mjólkursamsölustjórninni er sem sagt sú, að hér sé þess vegna ekki um mjólkurskort í haust að ræða. Ég held, að húsmæðurnar hér í Reykjavík séu ekki sammála stjórn mjólkursamsölunnar um þetta. Hitt má vera, að mjólkurneyzlan hafi aukizt upp á síðkastið vegna aukinnar kaupgetu neytendanna. En það er annað atriði og óupplýst. Hitt er upplýst, að mjólkurkaup setuliðsins hafa verið 6000–8000 lítrar á dag, og þó er ekkert upplýst um það, hve mikil óbein mjólkurkaup setuliðsmanna hafa verið á matsölustöðum og kaffihúsum. Um þetta veit ég ekki, og er það eitt atriði, sem stjórnendur mjólkursölumálanna hafa hummað fram af sér að gefa nokkrar upplýsingar um.

Nú er það svo, að það þýðir ekkert fyrir stjórnendur mjólkursölumálanna að ætla að skjóta sér á bak við það, að þeim beri ekki skylda til þess að sjá mönnum fyrir mjólk, því að auk þess, sem í mjólkursölul. er ákveðið, að þau miðist við það, að mönnum geti veitzt kostur á að kaupa góða og holla mjólk, þá er tekið fram í þeim, að þeim, sem með þau mál fara, sé skylt að sjá um, að ætíð sé til nóg neyzlumjólk á þeim stöðum, sem mjólkursöluskipulagið fer eftir þeim l. Þessari skyldu hefur ekki verið fullnægt eða gætt hér á þessu mjólkurverðlagssvæði eins og æskilegt hefði verið.

Eitt atriði, sem rannsóknarnefnd mjólkurmála á samkvæmt þessari þáltill. að athuga, er það, hvernig hægt verður, eftir að setuliðið hættir mjólkurkaupum sínum, að auka mjólkurneyzlu Íslendinga. Áður en setuliðið fór að kaupa mjólk af okkur Íslendingum, var það vitanlega svo, að allmikið mjólkurmagn fór til vinnslu, og fyrir þá mjólk fékkst miklu lægra verð en fyrir mjólkina, sem seld var sem neyzlumjólk. Og þegar setuliðið hættir að kaupa af okkur mjólk, þá verður það, að óbreyttum öðrum ástæðum, til þess að draga stórkostlega niður mjólkurverðið í heild. Má búast við, þegar setuliðið hættir að kaupa mjólk, að þetta færist í svipað horf og var fyrir stríð, að allmikil mjólk fari til vinnslu, sem annaðhvort mundi þá hækka mjólkurverðið til neytenda eða lækka það verð, sem framleiðendur fengju fyrir mjólkina að meðaltali. Hins vegar verður það sameiginlegt hagsmunamál bæði neytenda og framleiðenda, að hægt verði að auka daglegu mjólkurneyzluna, til þess að tiltölulega sem minnst af mjólkinni verði að fara til vinnslu. Ég er sannfærður um það, að mjólkurneyzluna hér í Reykjavík og einnig í öðrum kaupstöðum má á venjulegum tímum auka til stórra muna. En til þess að svo megi verða, er eitt grundvallarskilyrðið gott og skynsamlegt samstarf milli framleiðenda og neytenda. En því miður hefur brostið allmikið á, að það hafi jafnan verið. Því miður hefur það verið svo, að forráðamenn mjólkursölumálanna hafa ekki gætt þeirrar sjálfsögðu reglu, sem hver kaupsýslumaður og verzlunarstjóri á að hafa í huga, að reyna að laga sig eftir kröfum neytenda og verða við sanngjörnum óskum þeirra og sýna þeim þá sanngirni, sem hægt er og nauðsynlegt er. Því miður hefur þessarar meginreglu allra kaupsýslumanna ekki verið gætt sem skyldi af stjórnendum mjólkursölumálanna undanfarin ár. Ef þessari aðferð væri beitt og gott samkomulag kæmist á milli stjórnenda mjólkursölumálanna og neytenda, gæti það orðið stór spor til þess að auka mjólkurneyzluna á vissum tímum, auk þess sem með auglýsingum og öðru mætti reyna að auka þessa neyzlu. — Þetta er eitt af þeim atriðum, sem þessi rannsóknarnefnd mjólkurmála á að taka til meðferðar. Og þetta er ekki einungis hagsmunamál neytenda, heldur sameiginlegt hagsmunamál þeirra og framleiðenda mjólkurinnar.

Ég skal ekki fara öllu ýtarlegar út í þessa þáltill. að efni til. Það er rækilega fram tekið í henni sjálfri og grg. hennar, hver er tilgangur hennar. Í niðurlagi hennar er þessari n. gefin heimild, samkv. 34. gr. stjskr.., til þess að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum. Þessi heimild er sett til þess að auðvelda störf n., þannig að hún geti fengið allar upplýsingar, sem hún óskar.

Það hefur komið fram sá misskilningur, að með þessari þáltill. væri um að ræða að fara fram á sakamálsrannsókn á hendur mjólkursamsölunni. En sakamálsrannsókn er hafin, ef um grun um glæpsamlegt athæfi er að ræða. Hefði ég ætlað að koma hér af stað sakamálsrannsókn, þá hefði ég með það snúið mér til sakadómara, en ekki hæstv. Alþ. En þetta er samkvæmt ákvæði 34. gr. stjskr., að hér er farið fram á að skipa n., því að sú gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmönnum til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Þingdeildin getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“ — Þetta er sams konar heimild og viðskiptaráð og verðlagsstjóri hefur, og hefur aldrei komið neitt fram um það, að með störfum þeirra væri verið með á ferðum neina sakamálsrannsókn. Og að þetta sé pólitísk rannsókn, eins og komið hefur fram í einu blaði, er líka misskilningur. Að þm. eigi að skipa þessa n., er samkv. 34. gr. stjskr., svo sem ég las upp ákvæði um.

Það hefur komið fram úr annarri átt, að með þessari þáltill. væri verið að reyna að skjóta mjólkurmálinu á frest. Þetta er náttúrlega líka byggt á misskilningi. Það er nauðsynlegt til þess að fá einhvern fastan grundvöll í þessum mjólkurmálum undir samstarf milli beggja aðila, sem þar eiga hlut að máli, að fá upplýsingar, sem verða að byggjast á rannsókn á málinu. En það er náttúrlega gagnslaust í þessu máli, ef á að fá einhverja lausn á málinu, annaðhvort að grípa til ráðstafana, sem eru skoðaðar sem fullkominn fjandskapur gagnvart framleiðendum, hvort sem þær eru í formi eignarnáms eða annars, eða þá hins vegar, — eins og virðist bent til í skýrslu mjólkursölun., — að kenna neytendum einum um allt, sem talið er vera sök á ófremdarástandi í þessum málum. Þetta er hvort tveggja jafnóskynsamlegt. Hitt er eðlilegt að skipa n. til að rannsaka þessi mál, eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill., sem skuli skila áliti, eins og hér er ákveðið, „svo fljótt sem verða má“. En ég get vel fallizt á það, ef hv. þm. þætti það betur við eiga. að þessari n. væri sett eitthvert tímatakmark, er hún yrði í síðasta lagi að vera búin að skila áliti.

Það hefur komið fram brtt. við þessa þáltill. mína frá hv. þm. V.-Sk. Hún fer fram á, að ekki aðeins verði skipuð rannsóknarn. mjólkurmála, heldur skuli till. orðast þannig, að neðri deild Alþ. álykti að kjósa rannsóknarn. neyzluvara almennings o. s. frv. Um að skipa slíka rannsóknarn. er út af fyrir sig ekkert nema gott að segja. Og brtt. hv. þm. V.-Sk. rýrir að þessu leyti ekki það, sem ég hef haldið fram í sambandi við þessa þáltill. Og mér finnst rétt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, taki þá brtt. til athugunar.

Þessi þáltill. er flutt í því skyni að reyna að finna grundvöll fyrir samkomulag í þessu viðkvæma máli milli framleiðenda og neytenda, sem gæti í framtíðinni verið hægt að byggja á og orðið til hagsbóta báðum aðilum, sem hlut eiga að máli.

Ég legg svo til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. landbn.