25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (3243)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það er satt, að það hefur verið mikið skrafað hér á þessu Alþ. um mjólkina og kjötið, og það er mála sannast, að það hefur sett sinn svip á þinghaldið að þessu sinni. Það er líka mála sannast, að sá svipur er ekki alls kostar menningarlegur. Ég stóð ekki upp til þess að lengja þessar umr., ég álít, að þær séu orðnar nógu langar, og það er sýnilegt, að þær eru að verulegu leyti til orðnar vegna þrákelkni og lundvonzku ýmissa þm., sem hafa hugsað sér þá ómennsku, vil ég segja, að með málþófi geti þeir komið í veg fyrir, að Alþ. afgr. á þinglegan hátt þau mál, sem lögð eru fyrir þingið á þinglegan hátt. En af því að það er alveg sýnt, að hið mikla skraf um þessi mál hér er að verulegu leyti af þessum rótum runnið, málþófi, þá er það þýðingarlaust fyrir mann, sem snertir þetta mál mikið, að ætla sér að komast hjá þessum umr. með því að þegja alltaf. Nú mundi ég þó ekki hafa vikið frá þessum ásetningi mínum, ef ekki hefði verið af hv. þm. Mýr. fylgt úr hlaði brtt. frá honum persónulega og annarri frá honum með öðrum meðnm. hans, hv. 2. þm. Skagf., með þeim ummælum, sem mér finnast alveg kóróna óþinglega og ósómasamlega framkomu í málflutningi, sem hefur sífellt verið að þróast hér á þingi um þessi mál nú að undanförnu. Þegar minnzt er á mjólkur- og kjötsöluna hér á þingi frá hendi þeirra manna, sem valdið hafa um meðferð þeirra mála, þá verð ég að segja það, að ég undrast alveg, að það skuli koma fram annað eins orðbragð og kom fram hjá hv. þm. Mýr. Ég undrast þetta nokkuð, vegna þess að þessi maður hefur alltaf verið nokkuð sléttkembdur líkamlega og andlega. Það er þess vegna dálítið undarlegt, að slíkur maður skuli allt í einu verða að andlegum broddgelti. Hann talaði um áreitni blaðamanna gegn þessum málum og klykkti út með því að segja, að nú hefðu þessir menn komizt í úldið kjöt suður með sjó og á því hefðu þeir lifað um skeið. En tilefnið til þess að blanda þessu kjöti hér inn í er ekkert, því að hér er verið að tala um till. um mjólkurmál. En fyrst hv. þm. Mýr. var að blanda þessu inn í, skal ég minna hann á það, sem hann virðist aldrei hafa vitað eða verið búinn að gleyma, að það er ekki langt, síðan þessi þjóð kom frá sárum sulti, þar sem að heita mátti hver maður varð einhvern tíma ársins að búa við matarskort. Það er því óþarfi að tala með mikilli fyrirlitningu um matvæli, fyrir menn, sem eru nýkomnir út úr sultinum. Það er ekki einungis þetta Hafnarfjarðarhraunskjöt, sem illa er með farið af matvælum hér á landi. Maður veit vel, að hér hefur árlega verið kastað í sjóinn eða á annan hátt látið fara forgörðum talsvert af matvælum vel nýtilegum til þess að halda uppi háu verði á þessum matvælum, kjöti og sláturfjárafurðum. Slíkum matvælum hefur oft heldur verið hent en bjóða þau mönnum fyrir lágt verð. Ég gæti lesið upp margt í þessum efnum, sem er ósamboðið þessari þjóð, sem þekkir vel skortinn frá fyrri tímum. Ég veit, að menn hafa sett smjör í tonnatali inn í íshúsin og beðið með það þar, líklega eftir svörtum markaði, þegar börn og sjúklingar hafa ekki fengið þessa vöru og orðið að líða neyð fyrir. Þetta er náttúrlega ekki til þess að gera sig breiðan út af.

Ég ætla svo ekki að dvelja lengur við þetta kjötmál, — það, sem hér er rætt um, er þáltill. á þskj. 173 og þær brtt., sem fram hafa komið við hana. Nú er það svo, að hv. þm. Mýr. lýsti yfir því, að þó að hann væri hér með brtt., þá væri það ekki fyrir það,. að hann áliti neina ástæðu til athugunar á þessu máli. Og ég ætla, að hv. 2. þm. N.-M. hafi sagt eitthvað svipað. En ég vil enn skýra þessum háu herrum frá því og þá hv. d. um leið, að ég hef verið neytandi hér í Reykjavík, líklega með þeim stærri hin síðari ár, síðan mjólkursamsalan var stofnuð, og þarf því ekki að láta þessa drengi segja mér neitt um þá hlið þessara mála, sem að neytandanum snýr. Ég veit vel, að margt af þessum mistökum er óþarft. Ég veit hitt líka vel, að þeir menn, sem hafa haft með mjólkursamsöluna að gera, hafa lagt sig að verulegu leyti fram til þess að koma í veg fyrir mistök, en það hefur aðeins tekizt að nokkru leyti. En það, sem betur hefur farið í þessum málum, því hefur verið veitt eftirtekt. En hafi í einhverju verið áfátt, þá hefur ekki mátt um það tala eða á það minnast, og er því sýnilegt, að þetta er ekki neitt samkomulagsmál, heldur eingöngu ábyrgðarmál frá hendi seljenda. Ég vil efast um, að það sé vilji hinna eiginlegu seljenda, eftir því sem ég hef kynnzt þeim mönnum, sem framleiða mjólk í nágrenni Reykjavíkur, að það sé komið gikkslega fram við neytendur. Ég hef talsverða reynslu hér sem neytandi, og hún er ekki góð. En eins og ég tók fram áðan, skal ég engan dóm á það leggja, hvað er viðráðanlegt og hvað óviðráðanlegt. Ég hef gert miklar tilraunir til þess að fá ógerilsneydda mjólk. Áður en mjólkursamsalan kom, notaði ég talsvert mikið af mjólk frá Mjólkurfélagi Reykjavíkur, en áður Korpúlfsstaðamjólk, eða ég fékk hana beint úr fjósum frá mönnum hér í nágrenninu, sem ég vissi, að höfðu góðan kúastofn, heilbrigð heimili og góðan þrifnað. Þessi mjólk reyndist mér vel, og heilsufar var þá gott á mínu heimili. Þegar ég neyddist til þess að taka mjólk frá mjólkursamsölunni, breyttist heilsufarið á mínu heimili og spilltist. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að það var mjólkinni að kenna, en mjólk er mjög mikið notuð á mínu heimill. Svo komst ég aftur í samband við undanþágumann og fékk mjólk hjá honum, og þá batnaði heilsufarið. En nú hef ég tapað þessu sambandi, þessi maður er nú fluttur úr bænum, og ég er aftur kominn upp á náð mjólkursamsölunnar. Og ég er sannfærður um, að það muni leiða bölvun yfir mína fjölskyldu. Nú er það svo, að aðeins það, að mjólkin komi beint úr kýrspenanum getur haft mikla þýðingu fyrir heilsuna. En mjólkursamsalan verður að láta gerilsneyða mjólkina, en það er ekki sama, hvernig það er gert. Þeir, sem hafa séð skýrslu framkvæmdastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur, muna, hvernig farið var með stöðina, þegar hann lét hana af hendi. Ég skal lesa það upp, ef menn vilja. Ég skil ekkert í því, að menn skuli leggjast á móti því, að rannsakað verði það, sem tillögumenn tilgreina í þáltill. á þskj. 173.

Ég hef aldrei ætlað að leggja dóm á, hvað sjálfrátt væri og óviðráðanlegt í þessu efni. Ég geri ráð fyrir, að mjólkurskortur sé óviðráðanlegur vissan tíma ársins. En það er fjarstæða að segja, að hún sé ekki til. Ég þekki mjög margar mjólkursölur og kem þar oft, stundum oft á dag. Sjálfur hef ég orðið að slá af mínum mjólkurkaupum, og hef ég ekkert við því að segja. Fólki, sem vinnur í mjólkurbúðum, þykir afar leiðinlegt að afhenda þeim, sem fyrstir koma, fullkominn skammt, en þeim, sem síðar koma, ekki neitt. Það eru kannske gamlar konur eða börn. Það er ekki ástæða til þess fyrir þá menn, sem eru sællegir af heilsusamlegri nýmjólk, að belgja sig upp, þó að á þessi mál sé minnzt, eins og þau liggja fyrir, því að ekki er hægt að neita því, að mjólkursamsalan er til orðin að dálitlu leyti fyrir okkur neytendurna. Það er dálítið þreytandi að fá sífellt kurteislegum spurningum viðvíkjandi þessum málum svarað eins og maður hafi guðlastað, eins og kom fyrir tvær gamlar konur nú fyrir nokkru. Þær höfðu fengið skakkt mælda mjólk, en svarið var eins og sá, sem fyrir ranglætinu varð, væri sá seki. Svo er því haldið fram, að það séu árásir á bændur, þó að forstjóra eða afhendingarmanni yrði á að nota röng mál af misgáningi.

Það er talað um, að með þessu frv. sé verið að ráðast á bændur og taka af þeim mjólkurstöðina, sem sé þeirra eign. Henni hefur verið komið upp fyrir fé, sem tekið hefur verið frá neytendum, en ég skal ekki segja nema eignarrétturinn sé hjá bændum. Ég man ekki betur, þegar mjólkurstöðvar voru teknar af mönnum hér, en að ekki væri það talin árás á bændurna. Þó voru þær stöðvar, sem þá voru teknar, mjög fullkomnar, eftir því sem þá gerðist.

Ég hef athugað þær brtt., sem fram hafa komið, að því leyti, sem till. minni hluta. landbn. lúti að samkomulagstilraunum, og er vel á það lítandi: Auðveldlega má setja þingnefnd samkv. till. hv. þm. Snæf. Í henni mundu fá sæti menn úr ýmsum áttum, sennilega allt ágætir menn, og ekki ástæða til að efast um góð vinnubrögð hjá þeim. Býst ég við, að lítill munur yrði á n., sem skipuð yrði samkv. till. þessa þm., eða eftir till. hv. þm. Mýr. Hv. þm. Mýr. heldur því fram, að þessi n. þurfi skrifstofustjóra, en ég tel, að hún geti vel starfað án þess.

Verð ég að lokum að lýsa yfir, að mér virðist till. á þskj. 173 vera hóflega orðuð og áreitnislaus og nauðsyn beri til, að þær athuganir, sem hún fer fram á, að gerðar verði á stofnun mjólkursamsölunnar, séu nauðsynlegar.