25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

100. mál, skipun mjólkurmála

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason): Það hafa nú verið ræddar nokkuð till. hv. landbn. í þessu máli, og ætla ég að víkja lauslega að þeim. Ég held, að síðan ég kom á þing, hafi aldrei verið viðhafðar aðrar eins starfsaðferðir og við þetta mál. 30. náv. var till. afgr. í landbn. Till. frv. um, hvernig n. skyldi skipuð, var felld með 2:3 atkv. 25 dagar liðu, þar til till. kom til umr., og komu brtt. frá minni hl. og brtt. við þær brtt. Skal ég ekkert segja um, hvort n. hefði klofnað, ef þær brtt. hefðu þá legið fyrir. Skiptir litlu frá mínu sjónarmiði, hvor till. er. Það er aðallega um orðabreyt. að ræða, en n. á að hafa sama verkefni. En hvort orðin eru þessi eða hin, skiptir ekki máli. Hér er um að ræða að rannsaka, hvernig betri skipan verði komið á í þessum málum, hvernig komið verði á friði milli framleiðenda og neytenda um þetta viðskiptamál, sem varðar alla þjóðina. Þetta á að vera sex manna n. Ég fæ nú ekki séð annað en hún gæti komið að sama gagni þótt þeir væru fimm, eins og fram kom í till. hv. þm. Snæf. Aðalbreyt. er sú, að yfirdýralæknir á að vera formaður. Ég er sannfærður um, ef kjósa ætti n. innan deildarinnar, að hann yrði fyrsti maðurinn, sem við sjálfstæðismenn kysum. Bæjarstjórn Reykjavíkur á að kjósa tvo. Tel ég ekki annað líklegra en annar þeirra yrði hv. þm. Snæf., og skiptir þá litlu, hvort hann yrði kosinn af bæjarstjórn eða hér í þessari hv. deild. Hv. þm. Hafnf. yrði að líkindum tilnefndur af bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Mjólkursamsalan kýs einn, og er ekkert sennilegra en það yrði hv. þm. V.-Sk. Tel ég því engu skipta, hvort n. er skipuð á þennan hátt eða hinn.

Það á að skylda framkvæmdastjóra mjólkursamsölunnar og stjórn hennar til að veita allar þær upplýsingar, sem n. þarf á að halda, og sýnist litlu skipta, hvort það er samkv. 34. gr. stjórnarskrárinnar eða með sérstakri tilskipun. Sannleikurinn er því sá, að það er ekki ríkið, sem á milli ber, munurinn minni en menn vilja vera láta.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um ýmis atriði, sem fram komu í ræðu hv. þm. Mýr. Sumt var þannig, að ekki er ástæða til að svara því, svo sem „rannsóknaræði og gauragangur“. Hvorugt get ég tekið til mín. En viðvíkjandi því, að hann sagði, að Alþingi gæti ekki sóma síns vegna samþ. till. hv. þm. Snæf., vil ég taka það fram, að sú till. er ekki mjög fjarri þeirri till., sem hann sjálfur flytur. Held ég því, að það skerði ekki sóma Alþingis, þótt aðaltill. verði samþ. Yrðu deilur um það, hvora leiðina skyldi fara, mundi það aðeins vera gert til að valda ófriði.

Það hafa verið pöntuð mótmæli úr fjarlægustu héruðum landsins, eins og þegar sósíalistar þurftu mótmæli gegn gerðadómsl. og létu þeim mótmælum rigna hér á hv. Alþingi. Ég legg lítið upp úr því, þótt ýmsir sjálfstæðismenn kunni að hafa tekið þátt í þessum mótmælum. Þeir munu hafa litið svo á, að sama væri, hvort þau væru send eða ekki, og því verið með.

Ég held, að þótt hv. þm. Mýr. sé að tala um, að með þessu sé verið að skapa ófrið, sé það út í bláinn. Hvort ófriður verður út af þessu, fer eftir því, hvernig farið verður með málið. En það, sem þarf að gera, er að lægja ófriðinn.

Þeir, sem telja, að ekkert sé að í þessum málum, ættu að vera fúsastir til að láta fara fram rannsókn, því að sannaðist það, að röksemdir þeirra væru réttar, v æri það hinn mesti sigur fyrir þá.

Ég skal ekki tala frekar um þessar brtt. á þskj. 429, en er samþykkur till., eins og hún var upphaflega flutt.

Þá vil ég minnast á ræðu hv. 2. þm. N.-M. Hann var með illyrði í minn garð, talaði um flónsku, fljótfærni og þekkingarleysi. Hann sagði, að ég sýndi þekkingarleysi í því, að ég hefði sagt, að þessari n. væri ætlað að fara inn á heimilin og rannsaka fjósin. Mér hefur aldrei dottið í hug, að hún ætti að gera það, ætti að rannsaka, hvernig farið er með mjólkina á heimilunum. Mjólkin og meðferð hennar er mjög misjöfn, svo að ef til vill væri nauðsynlegt að rannsókn færi fram á heimilunum. En samkvæmt þessum upplýsingum verða mjólkurbúin að vera vönd að þeirri mjólk, sem þau taka. Ef það er rétt hjá hv. þm. N.-M., að mjólkin sé oft mjög gölluð, mega búin ekki taka hana án þess að sía hana úr. (PZ: Er það ekki gert?) Það veit ég ekki, en það er hlutverk n. að rannsaka það, því að miklu skiptir, hvort tekin er öll mjólk, hvernig sem hún er, eða ekki nema 1. flokks mjólk.

Hv. 2. þm. P.–M. virtist líta á þessa rannsókn sem sakamálsrannsókn og starf n. mundi verða bændum síður en svo vinveitt. Ég skil ekki í, að nokkrum þm., sem er inni í þessum hlutum, detti í hug, að n. fari að ferðast um sveitirnar og skoða fjósin, eins og Tíminn útmálar og eins og þeir útmála, sem eru á móti þessari till. Hér verður aðallega um það að ræða að undirbúa breytingar á þessu fyrirtæki, sem tekur við mjólkinni frá bændum, og koma í veg fyrir, að allt gangi eins og það hefur gengið undanfarið. Ég skal ekki alveg fullyrða um það, — mig skortir þekkingu á því, — hvort hægt er að bæta úr þessu. Ef í engu er ábótavant, á það að koma í ljós, og er það bezt fyrir þá menn sjálfa, sem að þessu standa, en að svo miklu leyti sem einhverju er ábótavant, þarf að reyna að bæta úr því, og það er ekki síður hagur bændanna og sveitanna en neytendanna, að það verði gert. Annars er ýmislegi, sem hefur komið fram í sambandi við þetta mál, sem ætti ekki að draga úr því, að rannsókn væri gerð. Það var ýmislegt í ræðu þeirri, sem Eyjólfur Jóhannsson flutti á dögunum, sem bendir til þess, og það er sannarlega rannsóknarvert, þegar slíkar upplýsingar koma frá manni eins og honum, sem er málinu svona kunnugur. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé verkefni til rannsóknar.

Það komu fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 7. þm. Reykv. (SK), svartar umsagnir, sem að vísu hefur heyrzt fleygt. Hann sagðist vita um það, að geymt hefði verið og eyðilagt í tonnatali smjör, þegar smjör vantaði á markaðinn. Hann tók fram, að það hefði beinlínis verið flutt inn í hús í bænum. Það er alveg furðulegt að heyra, að þeir menn, sem telja, að ekkert sé athugavert á þessu sviði, séu í jafnharðri andstöðu gegn því, að þetta sé athugað. Ég álít, að það ætti ekki sízt að vera í þeirra þágu að fá úr því skorið á þennan hátt, hvort þessar ásakanir eru á rökum reistar eða ekki, og það er sannarlega betra fyrir þá að fá upplýst, að þetta sé ekki rétt.

Ég skal svo ekki að sinni tala meira um þetta, því að þess gerist ekki þörf. Ég býst við, að það verði ekki atkvgr. um þetta nú. Það er líka orðið það mikið hitamál, að það hæfir betur, að allir þm. verði viðstaddir atkvgr. En það er vitað, að ýmislegt hefur komið í ljós, sem sýnir, að þetta ætti að athuga sem bezt.