25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

100. mál, skipun mjólkurmála

Gunnar Thoroddsen:

Ég hefði nú heldur óskað, að sá þm., sem búinn var að kveðja sér hljóðs á undan mér, hefði flutt mál sitt til þess, ef hann gæti, að þvo af sér þær ásakanir, sem komu fram í hans garð frá þm. A.-Húnv. (JPálm).

Ég vil þá fyrst og fremst þakka hv. meiri hl. landbn. fyrir það, að hún hefur mælt með því, að till. mín verði samþ. óbreytt að öðru leyti en því, að við hana bætist, að n. skuli heimilt að leita aðstoðar sérfræðinga, eftir því sem hún telur þurfa. Að því er snertir minni hl. n., gat hann ekki orðið samferða, og eins og hv. þm. A.-Húnv. sagði, hefur niðurstaðan orðið önnur hjá þessum minni hl. en ætlazt var til, þegar till. kom fram. Það hefði verið æskilegt, að samkomulag hefði orðið í n. í staðinn fyrir, að hún hefur klofnað á till., sem hún síðan hefur fallið frá.

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta, því að hv. þm. A.-Húnv. hefur tekið fram flest af því, sem ég hefði viljað segja. Ég vil segja það, að mér er það gleðiefni eftir þann taumlausa áróður, sem Tíminn hefur beitt út af þessari till. minni, að allir meðlimir landbn. eru mér sammála um, að nauðsyn beri til þess, að þessi rannsókn sé gerð, og það bendir til þess, að hv, framsóknarmenn séu mér sammála um, að ekki sé allt í lagi. Að því leyti eru allir sammála um það, að eitthvað þurfi að gera til úrbóta.

Ég vil taka undir með hv. þm. A.-Húnv., að till. hv. 2. þm. Skagf. (JS) fullnægir þeim tilgangi, sem fyrir mér vakti, þegar ég bar fram mína till., og eins og þm. sagði, er ekki svo mikið á mununum. Aftur get ég ekki fallizt á það, sem hv. þm. Mýr. (BÁ) sagði, og furða mig á þeim upplýsingum hans, að mjólkursölun. muni veita upplýsingar, ef n. verði skipuð með skaplegum hætti. Þm. átti við, að n. væri ekki skipuð með skaplegum hætti, ef þm. væru í henni. Hann meinti það, að ef 5 neðrideildar þm. ættu sæti í n., væri það svo óskaplegt, að mjólkursölun. mundi ekki gefa upplýsingar.

Frá mínu sjónarmiði er það aukaatriði, hverjir eru í n., en ég skil ekki þann mikla áhuga, sem minni hl. landbn. hefur á því að útiloka það, að n. sé skipuð þdm., eins og þó er algengt, að sé gert. Eins og ég sagði áður, tel ég, að till. hv. 2. þm. Skagf. mundi ná sama tilgangi, en ég er fullkomlega mótfallinn því að fara að samþykkja till. hv. þm. Mýr. Sú till. fer fram á, að í n. eigi sæti einn mjólkurfræðingur, skipaður af atvmrh., og sé hann form. n., einn maður skipaður af bæjarráði Reykjavíkur og einn skipaður af Búnaðarfélagi Íslands. Ég veit, að tilgangurinn með till. er, að mjólkurfræðingurinn sé úr flokki framsóknarmanna. Þeir ráða í Búnaðarfélaginu og 3. maðurinn er sjálfstæðismaður. Þessi n., sem á að skipa til þess að athuga framkvæmdirnar í mjólkursölumálunum, þessi n. yrði að formanni og tveim mönnum af þrem skipuð framsóknarmönnum, en þeir mundu lofa einum sjálfstæðismanni að vera með. Að taka fulltrúa frá öðrum flokkum þingsins kæmi alls ekki til mála. Hitt er augljóst, ef skipun n. á að ná tilgangi sínum, að það er grundvallarskilyrði, að allir þingflokkar hafi fulltrúa í þeirri n., og er því fjarstæða að hugsa sér að afgreiða till. mína með till. hv. þm. Mýr. Ég þarf ekki að bæta hér miklu við, en það er í mínum augum ekkert aðalatriði, hvort n. er skipuð eftir minni till. eða till. hv. 2. þm. Skagf., en till. hv. þm. Mýr. er fjarstæða af þeirri ástæðu, sem ég var að lýsa.

Það, að ég hef sett í till. mína heimild til að heimta upplýsingar, er ekki ófyrirsynju, því að hv. þm. V.-Sk., formaður mjólkursölun. (SvbH), er uppvís að því að hafa neitað um upplýsingar, bæði fjvn. og ríkisstj. En þeim, sem telja, að hér sé um sakamálsrannsókn að ræða, vil ég benda á það, að heimild sú, sem gert er ráð fyrir í till., er alveg sams konar og margar aðrar n. hafa. Það er vísvitandi rangfærsla, þegar þessir menn segja, að hér sé um sakamálsrannsókn að ræða, því að þótt margt sé gruggugt í starfi þessara manna, hefur ekkert komið fram um glæpsamlegt athæfi frá þeirra hendi.

nm. ættu að fara inn á hvert heimili og inn í hvert fjós, eins og Tíminn og hv. þm. N.-M. (PZ) segja, er auðvitað ekkert annað en útúrsnúningur. En hv. þm. N.-M. taldi þetta óþarfa, því að Mjólkurbú Flóamanna hefði, eins og hann orðaði það, mann, sem gerði mjólkurprufu á hverjum einasta manni. Vitaskuld er meining till. sú, að mjólkursamsalan og fulltrúar hennar skuli skyldir að gefa allar upplýsingar. Það er fjarstæða, að það sé ætlunin að yfirheyra hvern einasta bónda. Það er eins og ef mþn. í sjávarútvegsmálum ætti að fara að hnýsast í alla báta hjá hverjum einasta útgerðarmanni.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar en gert var í gær í framsöguræðu hv. þm. A.-Húnv. Þær röksemdir, ef röksemdir skyldi kalla, sem fram hafa verið bornar af hv. framsóknarmönnum, eru ekki svaraverðar.

Ég vil endurtaka það, að ég fagna því, að þeir eru á sömu skoðun og ég um það, að einhverra aðgerða þurfi í mjólkurmálunum, að það þurfi n., hvort sem sú n. er skipuð á einn eða annan hátt. Það sýnir, að þeir eru þeirrar skoðunar, að ekki sé allt í lagi og að mjólkursamsalan í Reykjavík sé ekki lengur bezt rekna fyrirtækið í heimi.