02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

100. mál, skipun mjólkurmála

Frsm. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er stutt aths. Mér þykir verst, að hv. 7. þm. Reykv. er hér ekki viðstaddur, því að ég þurfti að kvitta ofurlítið fyrir innlegg hans til mín, þó að ég hlíti þeim tilmælum hæstv. forseta að vera ekki langorður.

Ég skal geta þess, að mér varð á, þegar ég ræddi við hv. 7. þm. Reykv., að kalla hann 6. þm. Reykv. Ég hef þegar beðið hv. 6. þm. Reykv. afsökunar á því, sem ég sagði um hann, og vona ég, að hv. 7. þm. Reykv. taki til sín það, sem hann átti í því.

Þessi hv. þm. hélt áfram uppteknum hætti að ausa yfir mig fúkyrðum. Hann kvaðst sjálfur hafa komið miklum hlutum til leiðar, en aftur á móti hefði ég aldrei komið neinu fram, sem neins virði væri. Ég skal ekki deila við hann um það, og mér væri sama, þó að kosin væri ein n. enn til þess að athuga það, og legði ég óhræddur undir dóm þeirrar n., ef sæmileg væri, hvor okkar hafi átt meiri og merkari þátt í löggjöf síðari ára. Eitt, sem hann fann mér til foráttu, var það, að ég hefði gerzt liðsmaður ýmissa mála og margir hefðu til mín leitað. Það eru til menn, sem ýmsir óska fremur að hafa með sér en á móti, og aðrir, sem menn óska heldur að hafa á móti sér, og það kann að vera þess vegna, að færri hafa leitað til hans en mín, og kemur það heim við þá líkingu, sem hann dró upp um hestana. Góðir hestar eru eftirsóttir af öllum, en það eru líka til hestar, sem enginn vill nýta, þeir eru bæði staðir og slægir og þýðir ekki að bjóða þá neinum manni.

Hann dró talsvert úr gífuryrðum sínum um félög bænda, sem verka og selja kjöt og aðra nauðsynjavöru, gífuryrðum, sem ég taldi, að mættu ekki fara óathuguð gegnum þingið. En hann var fyrst og fremst að dylgja um, að skemmdir á kjötinu hefðu verið að mestu að yfirlögðu ráði þeirra, sem með þessa vöru fara, og fann köllun hjá sér til að lýsa því, hve ljótt það væri að ónýta mat, sérstaklega hjá þessari þjóð, sem til skamms tíma hefði soltið. Þessi blekking gat ekki verið flutt í öðrum tilgangi en þeim að reyna að koma inn hjá þeim, sem á mál hans hlýddu, að þeir, sem hefðu annazt verkun og sölu kjötsins, hefðu vitandi vits látið það eyðileggjast, þó að það kæmi ekki beint fram í dylgjum hans. En síðar í ræðu hans komu beint fram ummæli, sem ég skora á hann að viðhafa utan þings og tilnefna stofnanir og vörutegundir þær, sem hann var þar að tala um, því að hann segist vita til, að verzlunarfyrirtæki hafi á undanförnum árum eyðilagt matvæli til þess eins að halda uppi verðinu á þeim birgðum, sem komu á markaðinn.

Í þessu sambandi vil ég benda á, að þessi hv. þm., sem þykist hafa allra manna bezt vit á öllu, sem lýtur að sjávarútvegsmálum, hefur ekki séð ástæðu til að minnast á, að nákvæmlega þetta sama hefur gerzt með útflutningsvörur sjávarútvegsins, nema bara í margfalt stærri stíl, því að það er vitað, að að undanförnu hafa síld og fiskflök eyðilagzt í stórum stíl, — ég tala nú ekki um þær skemmdir, sem orðið hafa á ísfiski, sem fluttur hefur verið til Englands, sem er miklu alvarlegra mál. Á þetta minnist hann ekki einu orði, hann talar aðeins um framleiðsluvörur bændanna, sem hann segir, að séu eyðilagðar af illgirni einni og mannvonzku. Þetta víti ég og skora á hann að endurtaka þessi orð sín utan þings og skora á hann að tilnefna þau fyrirtæki, sem að þessu hafi staðið, og þær vörur, sem þannig hefur verið með farið, til þess að hlutaðeigendur eigi kost þess að hreinsa sig af þessu máli og láta þennan hv. þm. standa við orð sín, því að svona lagaður áburður getur ekki stafað af öðru en sálsýki á háu stigi eða óþokkaskap, sem fáum er trúandi til nema alkunnum bændaníðingum.