26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

18. mál, ríkisreikningur 1940

Jakob Möller:

Það er alveg rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að það væri ekkert eðlilegra en að um það væru ákvæði í l., hvernig lögreglan skuli útbúin. Hins vegar tel ég ekki vafa á því, að til þess að fara með þau mál eins og gert hefur verið, sé til heimild fyrir. Þm. vísaði til þess, að löggjöfin um þetta væri óljós, og las síðan upp úr l. um lögreglumenn, sem kveða á um, að lagt sé í vald dómsmrh., hvernig lögreglan skuli útbúin. Alþ. verður að gera sér grein fyrir, að með þessu eru dómsmrh. falin öll ráð yfir því, hvernig lögreglan skuli útbúin, en ef Alþ. finnst aftur á móti, að þessu hafi verið ráðið á annan veg en rétt sé, þá er ekki nema sjálfsagt að gera aðra skipun á þessum málum. Þess vegna finnst mér eðlilegt, að yfirskoðunarmenn landsreikningsins hafi gert um þetta aths. og vísað málinu til aðgerða Alþ. Alþ. ræður svo, hvað það gerir í þessum efnum, en á þessu stigi er ekki ástæða til að rökræða þetta atriði, því að hér er um að ræða afgreiðslu ríkisreikningsins frá árinu 1940, hvort samþykkja á hann eða ekki. Fjhn. hefur fallizt á, að ekkert sé athugavert við hann og að ekki sé ástæða til annars en samþ. hann. Ef menn svo vilja taka upp umræður út af útbúnaði lögreglunnar, á það ekki að vera í sambandi við landsreikninginn, heldur á að koma fram með sérstakar till. í lagaformi. Ég lít svo á, að fjhn. eigi ekki að taka þetta mál upp. Fjhn. á að fjalla um fjármál og í þessu sambandi um athugun á landsreikningnum, þannig að greiðslur úr ríkissjóði séu forsvaranlegar, og í þessu tilfelli hefur hún komizt að þeirri niðurstöðu, að svo er. Þess vegna finnst mér það ekki vera hlutverk fjhn. að gera till. um þetta. Í allshn. eiga hlutaðeigendur fulltrúa, sem geta tekið mál þeirra upp, og finnst mér ekki ástæða til, að yfirskoðunarmenn landsreikningsins hafi frumkvæðið að þessu. Þeir hafa lokið sinni skyldu.