15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

180. mál, jarðræktarmál

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Þetta er aðeins stutt athugasemd, og skal ég ekki tefja málið frekar. Mér fannst líking hv. þm. Dal. ekki nógu fyndin, því að ég get ekki gert að því, þótt við séum ólíkir að vaxtarlagi. Það er ekki mín sök, þó að ég sé ekki sambærilegur við hann að líkamlegum vexti og verði því meiri sigling hjá honum en mér, þegar stendur í seglin, og verður hver að vera sem hann er skapaður, þó að hann sé breiðari en ég. Þetta vildi ég sízt leiða inn í umr. Hann er allra manna gervilegastur og þess vegna eðlilegt, að hröð verður sigling, þegar vindur stendur í hann. En „Fótur vor er fastur, þá fljúga vill önd“, segir Matthías.

Annars þýðir ekki að endurtaka það, sem ég hef sagt. Það er fjarstæða að halda, að það sé til tafar að hvetja til aðgerða. Það er ekki nokkurt vit. Það er ekki líklegt, að Búnaðarfélagið mundi segja: Við útvegum ekki meira, því að þáltill. er til fyrirstöðu. Við gerum ekki meira, því að það liggur fyrir að hefja stórar aðgerðir. — Það er fjarstæða. Hv. þm. Str. sagði: „Þetta er svo kunnugt“ — og vitnaði til Englendinga og framkvæmda þeirra, en ég vil segja það, að engin rannsókn hefur farið fram á hinum miklu víðlendum bænda, og þeir geta ekki annað en horft á þessi ónotuðu lönd og hugsað, að það væri ekki mikið, þó að hið opinbera greiddi fyrir því, að þeir gætu ræktað þetta upp, og hjálpaði þeim til þess að leysa þetta af hendi. Ég álít fjarstæðu að ræða þetta, og einu rökin, einu frambærilegu rökin, sem komið hafa fram móti till., eru frá mér sjálfum, um að hún taki kannske ekki yfir nógu mikið, að það hefði mátt fella fleira inn í hana. Ég er ekki með þann sjálfbyrgingsskap, að ég sjái ekki, að hún mætti ná yfir meira. Tíu ára áætlunina, sem hv. þm. Dal. talaði um, dettur mér ekki í hug að leiða inn í umr. Þessi tíu ára áætlun er fjarstæða, en það, sem gildi hefur, er lífið sjálft, hvað sem dauðum bókstafnum líður. Ég ræði þetta svo ekki meira, en get látið máli mínu lokið.