14.12.1943
Sameinað þing: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

184. mál, uppbót á þingfararkaupi

Flm. (Lárus Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. til þál. um að veita þm., sem búa utan Reykjavíkur og hafa orðið að sleppa störfum vegna þinghaldsins, uppbót á þingfararkaupið, frá því er þing hófst. Þarf ekki að færa rök fyrir því, að þingfararkaup er nú mjög lágt samanborið við önnur starfslaun, og þetta kemur einkum niður á þeim þm., sem heima eiga utan Reykjavíkur. Mér finnst ekki vansalaust, að þeir séu ekki skaðlausir vegna þingsetu, og get ég því fremur borið þetta fram, að ég tel það ekki taka til mín eða annarra þeirra þm., sem reka starfsemi í Reykjavík. Ég leyfi mér að óska þess, að þetta verði samþ.