26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

18. mál, ríkisreikningur 1940

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég hef undirskrifað nál. fjhn. um frv. til l. um ríkisreikninginn með fyrirvara, og það er einmitt með tilliti til 7. liðar í aths. endurskoðenda við landsreikninginn, sem hv. dm. hafa rætt sérstaklega um. Liður þessi fjallar um kostnað við lögregluna í Reykjavík, kr. 19.058,77 fyrir skotvopn og skotfæri. Endurskoðendur spyrja: Hvers vegna voru þessi skotvopn keypt? Svarið, sem þeir fá við þessu, er mjög ófullkomið, sérstaklega frá lögreglustjóranum í Reykjavík, en hann reyndi að smeygja fram hjá sér spurningu endurskoðenda og forðaðist að gefa nema sem minnstar upplýsingar. Yfirskoðunarmenn vildu ekki gera sér að góðu hin loðnu svör lögreglustjóra og vísuðu því málinu til aðgerða Alþ. Mér finnst þetta réttmætt og að Alþ. geti ekki gengið fram hjá þessu máli og verði að taka afstöðu til þess. Alþ. verður að láta skoðun sína uppi um það, hvort það sé ósk þess, að hér sé komið upp liði, sem hafi yfir að ráða alls konar nýtízku vopnum og sé æft í hvers konar meðferð þessara vopna. Það hefur líka verið upplýst af reikningum fyrir árið 1941, að um 60 þús. kr. hefur verið varið til vopnakaupa fyrir lið þetta og að stærsta vopnasendingin, sem inn var flutt, var gerð upptæk af hernaðaryfirvöldunum hér, vegna þess að þeim fannst þetta of stórfelld vopnakaup hjá þjóð, sem hefur lýst yfir, að hún væri vopnlaus og herlaus. Þeim kom mjög á óvart, að stjórnaryfirvöldin teldu sig hafa þörf á að verja sig fyrir þegnunum. Ég hef ekki ætlað mér að ræða málið ýtarlega nú, vegna þess að tilefni gefst til að ræða um mál þetta aftur. Um þetta hefur verið rætt í fjhn., og veit ég ekki, hvort samkomulag muni nást í henni um að flytja sérstaka till. um þetta mál. En þessi till. mun koma fram, hvort sem það verða fleiri eða færri úr n., sem bera hana fram, og mun þá gefast tækifæri til að ræða þetta nánar.

Þar sem ég er á annað borð staðinn upp, vil ég minnast á deilumálið milli hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ), sem er um það, hvort ríkisstj. hafi haft heimild til þessara vopnakaupa. Það er alveg rétt, að ákvæðin eru svo almenns eðlis, að það er hugsanlegt, að það megi teygja þau svo langt, að þau nái jafnvel til kaupa á vélbyssum og vopnum. Þegar þessi l. voru til umr., aðvaraði Sósfl. við að gefa svo almenna heimild viðvíkjandi útbúnaði lögreglunnar. En nú er svo komið, að ég tel nauðsyn á að flytja breyt. á l., þar sem sett séu skýr ákvæði varðandi útbúnað lögreglunnar í Reykjavík og þar sem tekinn verði af allur vafi um það., að hægt verði að skapa hér ríkisher, ef einhverjum dómsmrh. býður svo við að horfa, eins og nú hefur átt sér stað.