15.12.1943
Sameinað þing: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

184. mál, uppbót á þingfararkaupi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég stakk upp á því, að þessu máli yrði vísað til n. Það var ekki samþ., en það sýnir sig nú, að þess hefði ekki verið vanþörf, þar sem nú er komin fram rökst. dagskrá og tvær brtt., og mun ég bera fram 3. brtt. Óska ég eftir, að málinu verði vísað til n., þar sem sjáanlegt er, að till. á þskj. 598 getur ekki staðizt, eins og hv. 7. þm. Reykv. hefur skýrt frá, þar sem það er ekki þingfararkaupsn., sem greiðir þingfararkaup.

Leyfi ég mér því hér með að bera fram skrifl. brtt., sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins að greiða alþingismönnum hæfilega uppbót á dag, frá því að núverandi Alþingi hófst, og skulu forsetar fara eftir tillögum þingfararkaupsnefndar í því efni. Skal taka fullt tillit til þess aukakostnaðar, sem utanbæjarþingmenn hafa af þingsetu, þegar uppbótin er ákveðin“.

Það er augljóst, að utanbæjarþm. verða verst úti, og hefur þingfararkaupsn. þegar gert till. um málið, sem sé að hækka dagkaup alþm. um 25% og greiða auk þess aukakostnað til utanbæjarþm., og finnst mér því málið liggja mjög einfalt fyrir, ef þessi till. verður samþ. Ég get ekki fallizt á að samþ. hina rökstuddu dagskrá, þar sem hún mundi baka utanbæjarþm. mikinn aukakostnað, en þeir eiga fulla kröfu á að fá breyt. á þessum málum.