16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. um það, hvað það mundi muna miklu á vísitölunni, sem hann ræddi um, þá skal ég upplýsa það, að það var strax athugað, hvað það mundi nema miklu, og það voru ekki 7 stig, heldur 17 stig — og það með því skilyrði, að ekki þyrfti að hækka verð á innfluttum markaðsvörum. En auk þess er það vitanlegt, að slík hækkun mundi hafa í för með sér margar óbeinar hækkanir, og það mundi hleypa vísitölunni upp úr öllu valdi.

Ég ætla ekki að fara hér inn á að ræða tollaleiðina, sem hv. þm. minntist á. Hún hefur verið rædd áður hér, og ég hygg, að ég hafi þá sýnt fram á, að það, sem þessi hv. þm. og flokkur hans fer fram á, er alls engin lækkun á dýrtíðinni og sízt betri en sú leið, sem ríkisstj. hefur lagt til, að farin yrði, á meðan ekki finnast önnur betri ráð.