16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af þessari þáltill. Það er í fyrsta lagi það, að ég hef ekki komið auga á það, að fram hafi verið færð gild rök fyrir því, að brýna nauðsyn bæri til þess að halda áfram að kaupa niður vísitöluna með framlögum úr ríkissjóði, og það hafa ekki verið færðar sönnur á það, að atvinnuvegirnir séu svo aðþrengdir, að þeir geti ekki haldið áfram að starfa, þótt niðurgreiðslunum verði hætt. Þvert á móti þá sýna útreikningar einmitt, að jafnvel þeir atvinnuvegir, sem taldir eru verst stæðir, mundu ekki fara um koll, þótt vísitalan hækkaði. Það eru því engin rök til fyrir því, að atvinnuvegirnir séu í bráðri hættu. Hitt, að menn vildu ef til vill leggja eitthvað á sig til þess að lækka dýrtíðina, er allt annað mál en það að veita stórar fjárhæðir úr ríkissjóði til þess að lækka vísitöluna. Það gæti hins vegar verið svo, að þeir, sem standa að þessum greiðslum, gætu bent á eitthvað annað.

Ég tel, að með þessari till. sé bent á ákveðna leið, því að Alþ. veit, hvað ríkisstj. gerir, ef hún fær þessa heimild, þ. e. hún mun greiða niður verð á kjöti og mjólk. Ég held, að þessi leið sé mjög óheppileg fyrir alla launþega, því að hún lækkar vísitöluna og þar með kaupgjaldið, en hún lækkar dýrtíðina raunverulega ekkert. Bændur munu ekki heldur yfirleitt hrifnir af þessari leið, því að þeir fá sitt ákveðna verð fyrir vörur sínar, og í þingtíðindum búnaðarþings frá þessu ári segir svo á bls. 97, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt vill Búnaðarþingið taka það fram, að það telur mjög varhugavert gagnvart landbúnaðinum að lækka útsöluverð á landbúnaðarvörum með greiðslu neytendastyrks úr ríkissjóði“. — Hér er beint tekið fram, að búnaðarþing líti á þetta sem óheppilega leið, og enginn bóndi getur haft áhuga á því, að hún sé farin. Menn mættu því spyrja, hvers vegna tveir háttsettir menn hjá Búnaðarfélaginu og háttsettir hjá Framsfl. skuli gerast meðflm. að þessari till. og að þeir skuli þannig benda á leið, sem er þvert ofan í samþykkt búnaðarþings. Nú er það vitað, að Framsfl. gerir mikið af því að flagga með samþykktir búnaðarþings, ef hægt er að nota þær pólitískt, og ég er viss um, að ef einhver hinna flokkanna hefði borið fram till., sem hefði verið á móti samþykktum búnaðarþings, þá hefðu hv. þm. Framsfl. ekki verið seinir á sér að koma með búnaðarþingstíðindin og lesa upp úr þeim til þess að sýna, að þetta væri á móti vilja bænda. En nú skeður það, að þessir fulltrúar bænda leggja til, að Alþ. gangi í berhögg við samþykktir búnaðarþings. Mig undrar þetta að vísu ekki, því að það er vitað, að Framsfl. notar sér samþykktir búnaðarþings pólitískt, þegar það hentar honum, en annars ekki, og það, að Framsfl. gengur nú svo í berhögg við þær sem raun ber vitni, sýnir það ljóst, hvernig þessir fulltrúar bænda haga sér gagnvart þeim.

Bændur græða ekkert á þessu og launþegar ekki heldur, en stóratvinnurekendur græða. Ég lái því ekki fulltrúum atvinnurekenda, þótt þeir séu með milljónaframlagi úr ríkissjóði til þessa, og það mætti segja, að það væri ekkert við það að athuga, þótt fulltrúar atvinnurekenda gæti hagsmuna þeirra, en það er fráleitt, að fulltrúar verkamanna og bænda geri slíkt. Það kann að vísu að vera, að fulltrúar Framsfl. þykist eiga hönk upp í bakið á Sjálfstfl. fyrir það, sem hér hefur gerzt, að fulltrúar atvinnurekenda og fiskimanna skyldu greiða atkv. með því, að af þeim 10 millj. kr., sem veittar eru til uppbóta, skyldu ekki verða teknar 4 millj. til fátækustu sjómannanna, heldur skyldi það fé renna til stórbænda í landinu. Ég hlakka til að heyra fulltrúa Sjálfstfl. færa rök fyrir því við smáútgerðarmenn, að þeir hafi borið þeirra málstað fyrir brjósti, er þeir greiddu atkv. á móti þessu 4 millj. kr. framlagi til þeirra. En það má vera, að Sjálfstfl. hafi með þessu athæfi gert sér vonir um, að Framsfl. gæti þá í staðinn komið til móts við þá einhvers staðar annars staðar. Það hefur nú líka gerzt, þegar Framsfl. gengur í berhögg við samþykkt búnaðarþings og samþ., að vísitalan skuli greidd þannig niður, að hún verði lægri en dýrtíðin raunverulega. Það eru ekki einungis þessar millj. úr ríkissjóði, sem renna beint til atvinnurekenda, heldur spara þeir líka stórfé í lækkuðum launagreiðslum.

Ég benti á það áðan, að þetta væri óheppilegasta leiðin, sem hægt væri að fara, en ég ætla ekki að fara nánar út í það. En ég vil segja, að það er ein leið, sem ég tel, að sé miklu heppilegra að fara.

Fjmrh. upplýsti það áðan, að með því að greiða niður verð á vörum innan lands verði vísitalan lækkuð um 17 stig. Mín skoðun er sú, að þetta muni ekki lækka hana nema um 14–15 stig. En hvað kosta þessar niðurgreiðslur ríkissjóð? Ef þær kosta 14–15 millj., þá kostar hvert vísitölustig hvorki meira né minna en um 1 millj. króna.

Nú hefur hagfræðingur í hinni nýju sex manna n. reiknað nýlega út, hvað það mundi valda mikilli lækkun á vísitölunni, ef felldir yrðu niður allir tollar á þeim nauðsynjavörum, sem ganga í vísitöluútreikninga kauplagsnefndar. Niðurstöður hans eru þær, að það mundi valda um 20 stiga lækkun á vísitölunni, ef tollar yrðu afnumdir á þeim vörum, sem ganga inn í vísitöluútreikninga kauplagsn. Hann hefur einnig reiknað út, hvað það yrði mikið tap fyrir ríkissjóð, ef af þessu yrði, og kemst hann að þeirri niðurstöðu, að það yrði 8,5 millj., m. ö. o. ½ millj. hvert vísitölustig. Má af þessu sjá, að verði þessi leið farin, verður hún helmingi ódýrari fyrir ríkissjóð. Og hún hefur einnig annan kost fram yfir hina, að hún lækkar dýrtíðina meira en vísitöluna, og hafa margir hagfræðingar athugað þetta mál, og kemur þeim öllum saman um þetta.

Að þessu athuguðu finnst mér enginn vafi á því, að verði farið inn á þá braut að kaupa dýrtíðina niður með fjárframlögum úr ríkissjóði, þá sé miklu skynsamlegra fyrir ríkissjóð að fara þá leið að afnema tollana af nauðsynjavörum og einnig miklu réttlátari leið fyrir almenning.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu, því að ég geri ráð fyrir því, að þetta mál sé ákveðið, en vildi ekki láta hjá líða að benda á þessa leið, þó að ég búist ekki við því, að menn vilji fara hana, þrátt fyrir það að þeir geti ekki mælt á móti henni með rökum.

Þó langar mig til að bera fram eina spurningu og beini ég henni til flm. till.: Hvaðan ætla þeir að taka fé til þess að greiða þetta niður, eða hvaðan ætla þeir að taka á næsta ári 10–20 millj. kr. til þess að greiða dýrtíðina niður? — Það segir sig sjálft, að það þýðir ekkert að áætla einhver útgjöld nema hafa eitthvað fé til þess að borga með. Mér virtist svo við umr. um fjárl., að þá hafi komið fram einmitt hjá þessum flm. og flokksbræðrum þeirra, að það þýddi ekkert að koma með útgjaldatill., nema bent væri samtímis á tekjuöflunarleið. Líta þessir flm. svo á, að þeir geti komið fram með 10–20 millj. kr. till., þrátt fyrir það að öllum beri saman um, að tap verði á sjálfum fjárl., og án þess að benda á nokkra leið til tekna, eða er það svo, — og mér þykir það harla ótrúlegt, –að þessir þm. séu búnir að hugsa sér fyrir tekjum, en að það sé á einhvern þann hátt, sem þeim finnst vanvirða að segja frá, eða sjá þeir einhverja aðra ástæðu fyrir því, að þeir vilja leyna þingið, hvaða leið þeir ætla að fara til þess að útvega fé til þessara útgjalda? Ég verð að segja það, að eins og nú horfir við, að verði málið ekki betur rannsakað en flm. hafa komið fram með það og geri ekki gleggri grein fyrir því, þá er þetta illa undirbúið mál og ástæða til þess, að þeir dragi þessa till. til baka, gefi sér tíma til þess að hugsa málið betur og koma svo aftur með hana í frambærilegra formi. (BSt: Ætlar þm. ekki norður á morgun?) Ég ætla að svara hv. þm, því, að það skaðar ekkert, að þessi till. bíði til næsta þings, því að ég álít till. mjög vanhugsaða, og eins og ég hef áður sagt, er hún alveg óundirbúin og engin grein fyrir henni gerð. Ég hygg því, að eins og hún nú liggur fyrir, sé ekki hægt að ætlast til þess með nokkrum rökum, að menn greiði atkvæði með henni.