16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Bernharð Stefánsson:

Ég mun ekki lengja þetta mál mikið, og kemur mér ekki til hugar að svara ýtarlega þeim þm., sem hér voru að tala.

Hv. 2. landsk. var hér að slá um sig með alls konar upplýsingum og tölum. Ég hef ekkert um þetta hér fyrir framan mig, en hins vegar þekki ég sannsögli þessa manns, og ég veit, að það er ekkert á því að byggja, sem hann segir. Það getur viljað svo til, að eitthvað af því hafi verið satt, en það getur alveg eins allt verið ósatt. En ég vil mótmæla því gersamlega, þegar hann sagði, að afskipti Framsfl. af Búnaðarfélagi Íslands væru pólitísk, og skírskota ég því til hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Skagf., hvort svo sé, þar sem þeir eiga báðir sæti á búnaðarþingi og eru ekki í Framsfl. En hvernig er það með Alþýðusambandið? Hann sagði, að það ætti að vera ópólitískt, en hvernig hefur það reynzt? En viðvíkjandi samþykktum búnaðarþingsins, sem það gerði á afurðaverði innan lands fyrir nokkru, þá hlýtur þm. að skilja það, að afstaðan er breytt vegna samþykktar, sem náðist í sex manna n. í vor. Samþykkt búnaðarþings byggðist þá á því, að þessum greiðslum úr ríkissjóði kynni skyndilega að verða hætt, en nú, þegar búið er að lögákveða verð í vissu hlutfalli við kaupgjald til stríðsloka, með samþykki Sósfl., þá er afstaðan vissulega breytt.

Þá spurði þessi þm. að því, hvaðan taka ætti fé til þess að greiða niður verðlagið, eins og till. fer fram á. Ég er nokkuð undrandi yfir spurningu hans, hvaðan taka ætti fé, því að ég man ekki betur en hann hafi lagt til, að tekjuáætlun fjárl. yrði stórkostlega hækkuð frá því, sem nú er. Hann álítur sem sé, að tekjur ríkissjóðs yrðu miklu meiri en meiri hl. Alþ. vildi fallast á. Þess vegna ætti hann manna sízt að vera hræddur við það, að nóg fé yrði ekki til til þess að greiða þetta. Annars vildi ég minna á það, að það liggur ekkert fyrir um það samkv. till., að ákvarðanir hennar gildi nema um stuttan tíma.

Alþ. mun eiga að koma saman 10. jan. n. k., og þá getur það sjálfsagt tekið aðrar ákvarðanir, og þetta kostar a. m. k. ekkert stórfé, þar til Alþ. getur gert aðra skipan á þessum málum.

Hv. þm. V.-Ísf. minntist á málamiðlun þá, er gerð var í vor. En allt, sem gert hefur verið í þessum málum, er bein afleiðing af því, sem hann tók þátt í og samþ. Hann þarf ekki annað en líta á sitt eigið afkvæmi, en það eru dýrtíðarl. frá í vor, til þess að sjá, að það er ekki rétt, sem hann heldur nú fram, að verðákvarðanir sex manna n. ættu aðeins að gilda innlenda markaðinn. Það stendur skýrum stöfum í þessum l., að taka skuli tillit til verðlags á útlendum markaði, og þarf ekki annað en lesa álit sex mann n. til þess að sjá, að hún skildi þetta svo og áleit, að sama verð ætti að vera á öllum framleiðsluvörum bænda, hvort sem þær væru seldar á innlendum eða erlendum markaði. Annars álít ég, að þetta mál ætti að vera útrætt.

Það kom fram hjá þessum hv. þm. og hefur komið fram hjá fleirum, að þótt verðlag væri greint niður innan lands, þá haggaði það ekki við dýrtíðinni. Ég verð nú að segja það, að ég hef aldrei getað skilið þetta, en það er líklega af því, að þetta er einhver hærri fjármálaspeki. T. d. get ég ekki skilið, að kjötkílóið sé ekki ódýrara á 5 kr. en 6 kr., svo ég nefni einhverjar tölur. (SigfS: En ef ríkið borgar 1 kr. og neytandinn 5 kr.?) Kílóið kostar flesta kaupendur ekki nema 5 kr. þrátt fyrir það, það er alveg víst. Skattal. er og þannig fyrir komið hér á landi, þótt færast mætti enn meir í þá átt, að þeir bera mestu skattana, sem breiðust hafa bökin, og ég fullyrði, að þótt ríkið greiði eina krónu af þessum sex, þá kemur það ekki eins hart niður á öllum almenningi, hvorki beint né óbeint, eins og ef menn ættu að borga sex krónurnar úr eigin vasa. Væri þetta rétt, sem þeir halda fram, þá væri ekki til neins að lækka tollana, eins og þeir vilja, því að það yrði einnig á kostnað ríkisins.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég áliti mjög gott, ef hægt yrði nú að ganga frá þessu máli. En það, sem einkum fékk mig til að taka til máls, voru ummæli hv. 2. landsk. svo kallaða, sem ég mótmæli harðlega, en þau voru á þá leið, að Búnaðarfélagið og búnaðarþing væru einhvers konar handbendi Framsfl. o. s. frv. Þessum ósvífnu getsökum leyfi ég mér að mótmæla. Já, ég sagði „svo kallaða“, því að hann er aðeins varaþm. og hefur ekki verið kosinn á þing.