16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3357)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Eysteinn Jónsson:

Það eru fáein orð. Ég vil endurtaka það hér, að Framsfl. telur það neyðarúrræði að borga verðlag innan lands niður með framlagi úr ríkissjóði og telur það ekki nú fremur en áður neina lausn á dýrtíðarmálinu. Hins vegar hefur flokkurinn, frá því að dýrtíðarl. voru sett, sem nú gilda, ekki viljað synja fyrir það, að þessi leið væri farin sem bráðabirgðaúrræði, meðan ekki væri hægt að fá samtök um neina leið, sem til frambúðar mætti verða. En meðan gengið er úr skugga um, að ekki verður með neinu móti hægt að fá samkomulag um varanlega aðferð til að hindra vöxt dýrtíðarinnar, vill flokkurinn styðja, að þessi leið verði farin til bráðabirgða og heimild gefin um það til hæstv. ríkisstj. Í samræmi við þá afstöðu hefur Framsfl. á þessu þingi, sem nú er að verða lokið, stutt tekjuöflun, til þess að hægt yrði að fara þessa bráðabirgðaleið. Hann var reiðubúinn til að styðja framlengingu verðlækkunarskattsins í þessu skyni, og þegar það fékkst ekki, vegna þess að aðrir flokkar þingsins beittu sér gegn þeim skatti, þá lýsti flokkurinn yfir, að hann mundi geta stutt aðra tekjuöflun, sem hæstv. stj. lagði fyrir þingið í sérstöku frv., en það frv. var einnig stöðvað í þinginu af þeim sömu flokkum, sem felldu verðlækkunarfrv., þannig að Framsfl. hefur í samræmi við þessa stefnu sína viljað styðja þessa tekjuöflun, en slíkt hefur ekki fengizt fram.

Framsfl. telur, að sú heimild, sem nú er í gildandi dýrtíðarl., sé skýlaus og hæstv. stj. hafi því heimild til að borga niður dýrtíðina og þurfi því í raun og veru ekki þessa heimild. Samt sem áður vill Framsfl. styðja, að þessi ályktun, eins og hún liggur fyrir, verði samþ. í Sþ. til staðfestingar þeirri afstöðu sinni á málinu, sem ég hef nú lýst.

En það er augljóst, að ef halda á áfram að borga niður dýrtíðina að verulegu ráði, verður ekki annað séð en nýja tekjuöflun þurfi þar á móti, eins og Framsfl. hefur álitið. En sýnilegt er, að um það fæst engin afgreiðsla á þessu þingi. En þótt þessu sé þannig varið og frá málinu sé afar illa gengið að dómi flokksins, þá vill hann samt ekki svipta stj. þeim heimildum, sem hún hefur, enn um stund, og mun hann í samræmi við það vera með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, þar sem það þykir atriði, að hún verði samþ., til þess að þingviljinn komi í ljós.

Ég ætlaði að svara ýmsu, sem fram kom í dag, en læt það niður falla og þessi fáu orð duga.