16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Einar Olgeirsson:

Ég ætla ekki að lengja þessar umr., en ég kann þó ekki við annað en leiðrétta hv. þm. Ísaf. Hann virðist hafa misminnt í þeim staðhæfingum, sem hann fór með. Hv. þm. virðist svo svartsýnn að álíta, að hér komi nazistastjórn í landinu og eins muni fara og í Þýzkalandi. Hann hélt því líka fram, að það hafi verið kommúnistar, sem stutt hefðu nazista til valda, og þeir mundu eflaust leika sama leikinn hér. Það er rétt að minna þennan þm. á það, að sósíaldemókratar sögðu, þegar Hitler komst til valda, að það væri ágætt, að hann næði völdum, því að hann fengi nú að sjá, hve erfitt væri að stjórna. Þeir litu ekki á þessa valdatöku nazista sem hættulegan hlut, enda studdu þeir þá í utanríkispólitík þeirra. Það stoðar að vísu ekki að deila um þetta hér, en ég kunni þó betur við að leiðrétta þetta. Hitt er hv. þm. bezt kunnugt um sjálfum, hvernig var um þá samninga milli Framsfl., Alþfl. og Sósfl., sem reynt var að ná, um myndun þingræðisstj. í landinu. Á þingi Alþfl. hefur verið lýst yfir því, að kröfur Framsfl. hafi verið algerlega óaðgengilegar. Þó hefur verið reynt að halda því fram, að sósíalistar hafi leitazt við að rjúfa samningana, en það er alrangt. Það voru einmitt hinir, sem það vildu, og mér þykir viðkunnanlegra, að þessi sannleikur komi fram hér.