11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

93. mál, byggingarsamþykktir

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Herra forseti. Þetta er lítið frv., en þó er líklega nauðsynlegt að setja lög um þetta efni.

Það vill svo til, að í l. nr. 19 20. okt. 1905 er aðeins átt við löggilta verzlunarstaði. Þá þekktust þeir ekki hér á landi nema við sjó. Hins vegar hafa á síðari árum risið upp þorp inni í landi. Tiltölulega stór þorp eru risin upp í Hveragerði og á Selfossi og vaxandi þorp í Rangárvallasýslu og tilvonandi þorp á Fljótsdalshéraði. Virðist svo sem það þurfi að setja lög um byggingarsamþykktir fyrir þessi þorp engu síður en þorp, sem eru við sjóinn.

Hins vegar hafa lög þessi bætt nokkuð úr með því að setja reglur um, hvernig byggingum skuli fyrir komið og hvernig umhverfið skuli vera. En það er tvímælalaus nauðsyn að láta lögin ná til annarra þorpa en þeirra, sem við sjávarsíðuna eru, og verzlunarstaða. Þess vegna má telja heppilegt að rýmka lög þessi svo, að þau nái og til þorpa þeirra, sem eru og kunna að myndast annars staðar en gert er ráð fyrir í þeirri mynd, sem l. nú hafa.

Vil ég mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.