18.11.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

137. mál, söltun og niðursuða síldar

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Þessi till., sem ég á ásamt tveimur öðrum, fer fram á að rannsaka möguleika á að salta og sjóða niður síld í stórum stíl fyrir Evrópumarkað, þegar möguleikar skapast til að koma vörum þangað og markaður opnast. Ég geri ráð fyrir því, að Alþ. vilji leggja því máli lið og veita fé til verksmiðjubygginga í þessu skyni.

Vestur í Atlantic City er nú háð ráðstefna um möguleika á að framleiða matvæli í eins stórum stíl og unnt er. — Ísland er eina landið, sem getur gefið sig óskipt að framleiðslu matvæla. Auðugustu fiskimið álfunnar eru út frá ströndum þess. Ef tæki til framleiðslunnar væru fyrir hendi, gætum við framleitt eins mikið af matvælum og stórþjóðir Evrópu fyrir stríð. Nú er þörfin á matvælum svo brýn, að slík hefur hún aldrei verið áður. Einkum er feitmetisskorturinn tilfinnanlegur. Virðist því sjálfsagt, að við Íslendingar gerum allt, sem við getum, til að hjálpa til að bæta úr brýnustu þörfinni. Um það býst ég við, að allir geti verið sammála.

Það er ætlun okkar flm., að sem bráðastur bugur verði undinn að framkvæmdum og settur á þær allur sá kraftur, sem frekast er hægt. Ef við segjum við þær þjóðir, sem nú berjast við matvælaskort: „Hjálpið okkur til þess að framleiða matvæli með því að láta okkur hafa tæki til þess“, verður erfitt að standa á móti. — Við þurfum vélar og efni í verksmiðjur. Vinnuaflið höfum við, og maturinn syndir í sjónum umhverfis landið. En okkur vantar verksmiðjur. Við höfum að vísu tunnuverksmiðju, sem afkastar nokkrum hundruðum þúsunda tunna, ef efni er fyrir hendi. Framleiðslan er misjöfn, en getur verið talsverð að magni, ef framleiðslugetan er notuð til hins ýtrasta. Efni vantar, og er að öllum líkindum erfitt að fá það frá Englandi. Við verðum að gera kröfu til að fá efni frá Kanada.

Það er ekki nóg, þótt við getum saltað síldina, það yrði að gera ráð fyrir, að ekki væri hægt að geyma matjessíld lengi né síld í frystihúsum eins og áður. Það yrði að sjálfsögðu að koma þessari vöru í dósum til neytendanna. Það þarf að koma upp stórfelldum iðnaði á þessu sviði. Það er vitað, að undanfarna áratugi höfum við sent þessa vöru út í venjulegum síldartunnum. Ef hægt á að vera að koma á fót stórfelldum iðnaði á þessu sviði, þarf vélar og verksmiðjur, og þá er hægt að koma vörunum í dósum til neytendanna. Spurningin er, hvort hægt er að koma upp verksmiðjum á skömmum tíma, fáum mánuðum, tæpu ári. Nú eru reistar verksmiðjur erlendis á örskömmum tíma, og tækninni fleygir fram. Þar, sem áður voru tún og grænar grundir, eru komnar verksmiðjur og íbúðarhús eftir fáa mánuði. Þetta getum við gert hér, svo framarlega sem við fáum efni til þess. Mér finnst við geta krafizt þess, ef við gerum allt, sem hægt er, til þess að framleiða mat, að okkur séu látnar í té vélar og annað, sem við þörfnumst til framleiðslunnar. Spurningin er sú, hvort við getum haft nógu mikil áhrif á þá, sem ráða, til þess að þeir geri allt, sem hægt er í þessu efni. Árangurinn fer eftir því, hve vel er haldið á málunum, hve fast fylgt eftir, hvort hægt er að fá Bandaríkin til að gefa þessum málum gaum. Við aðstoðum með því að senda frá okkur mat í þágu hjálparstarfsemi sameinuðu þjóðanna.

Svo er fjárhagshliðin í sambandi við þetta. Það er vitanlega alveg gefið, að slíkt mundi kosta mjög mikið fé. Við mundum þurfa að kosta jafnvel tugum millj. kr. til þess að koma upp þessum verksmiðjum. Það mundi því þurfa að vera samningsatriði fyrir okkur við þessa hjálparstarfsemi hinna sameinuðu þjóða, hvernig með þessi mál skyldi fara, hvort við ættum að taka lán til slíkra framkvæmda eða kannske fá einhvers konar styrk til þeirra. En aðalatriðið er þetta: Ef við getum komið á fót stofnun eða stofnunum til þessarar framleiðslu og sett fullan kraft á þessa framleiðslu það snemma, að við getum notað þann markað, sem fyrir þessar vörur verður í Evrópu að stríðinu loknu, þá eigum við að geta haldið honum áfram. Við höfum átt í baráttu við að koma síldinni inn á markaðinn í Mið-Evrópu, en við fengjum þarna máske tækifæri til þess, sem okkur kannske ekki býðst nema einu sinni á öld. Við fengjum möguleika til þess að kynna þúsundum manna þessa vöru, sem mundi mæla með sér sjálf, sem aftur mundi tryggja það, að hún síðar yrði keypt. Ég held, að sú framleiðsla í þessu efni, sem við gætum aukið frá því, sem nú er, og ætti að geta að mjög miklu leyti hafizt eftir styrjöldina, ætti að geta orðið grundvöllur undir föstum, stórfelldum viðskiptum á þessu sviði við meginland Evrópu. Og ef við getum vonazt til slíks, þá yrði spursmálið um fjárhagslegu útgjöldin við að setja þetta á stofn og um verðið á þessari vöru, meðan neyðin er í Evrópu, ekki aðalatriði málsins. Við hefðum þá vel efni á því, þó að við töpuðum jafnvel nokkrum millj. kr. á því að koma þessum verksmiðjum upp og byrja þessa verzlun, ef við gætum í staðinn tryggt það, að einn okkar efnilegasti atvinnuvegur gæti fengið framtíðarmarkað, sem hann ef til vill hefur ekki annað slíkt tækifæri til að afla sér um áratugi. En hins vegar er auðvitað viðbúið, að einstaklingar, sem við svona atvinnuveg fást, mundu illa treysta sér til þess að fara út í svona stórfelldan atvinnuveg upp á það að sjá fram á það á næstu árum að tapa milljónum króna á þessu. Það er þess vegna gefið, að það form, sem við á í svona framkvæmdum, er samstarf á milli ríkisins og þeirra einstaklinga eða fyrirtækja, sem þetta reka, þar sem það er viðbúið, að ríkið yrði að taka á síg allmikinn halla, sem mætti kannske skipta þannig niður, að einstaklingar tækju þátt í honum ásamt ríkinu. Það er því vísast, að það yrði að vera ríkið, sem bæri áhættuna af þessum atvinnurekstri til að byrja með. Og það er þá líka ríkið, sem ynni við þetta, þegar til lengdar lætur.

Ég held þess vegna, að það færi saman fyrir okkur, ef þetta yrði framkvæmt hér hjá okkur, að vinna stórfellt mannúðarstarf og þarft starf fyrir aðrar þjóðir og framkvæma þar með uppfylling á siðferðilegum skyldum, sem hinni íslenzku þjóð væri kært að inna af hendi, eins og allar aðstæður eru nú, og hins vegar, að að þessum framkvæmdum yrði okkur stórfelldur hagur með tilliti til framtíðarinnar. Og það er sjaldgæft, að maður fái tækifæri til að sameina hagsmuni og hugsjónir í sambandi við eigin atvinnu. Nú er hver einasta þjóð í veröldinni að búa sig undir það viðreisnarstarf, sem þarf að vinna að styrjöldinni lokinni með eflingu atvinnulífsins á ný og skipulagningu á því til þess að tryggja og bæta afkomu fólksins. Og ég held, að okkur eigi að vera það ljóst, að sú viðreisnarstarfsemi eigi að byrja fyrir okkur ekki fyrst að styrjöldinni lokinni, heldur nú á næstu mánuðum, ef þær þjóðir, sem hafa í höndum sér að geta látið okkur í té þau tæki, sem við þurfum, og það efni, sem við þurfum til slíkrar viðreisnar sem þessarar, er hér ræðir um, — sem stefnir að því að koma upp fyrirtækjum til aukinnar matvælaframleiðslu. — vilja gera það. Aðrar þjóðir byrja að byggja upp hjá sér með því að stofna ný fyrirtæki og komast að nýrri framleiðslu, jafnóðum og lönd þeirra eru frelsuð undan hernáminu. Fyrir okkur, sem engin slík höft eru á lögð, fyrir utan þau höft, sem felast í verzluninni við útlönd, er sjálfsagt að byrja nú sem fyrst, ef þessir möguleikar eru fyrir hendi.

Ég þykist vita það, að hv. þm. munu vera sammála um það, að það eigi að nota þetta tækifæri, ef það er fyrir hendi. Ég vil endurtaka það, að það getur vel verið, að við getum að kalla ekkert af þessum möguleikum notað, og væri þá illa farið, bæði fyrir okkur og þá, sem skortir þennan mat. En það getur vel verið, að okkur takist að skapa möguleika á einu ári fyrir framleiðslu með niðursuðuiðnaði og öðru slíku, alveg eins og okkur hefur tekizt það á 14–15 árum í sambandi við síldarbræðslu. Það eru sterk rök, sem við getum flutt fram við framandi þjóðir í þessu máli, þegar við segjum við þær: Við framleiðum hér á ári, jafnvel svo að skiptir milljónum hektólítra af síld, og við verðum að henda 9/10 hlutum af þessu í síldarbræðsluverksmiðjurnar til að vinna úr því síldarolíu og síldarmjöl, nema þið hjálpið okkur til að gera ¼ hluta eða helming af þessu síldarmagni að mat. — Og þá er erfitt fyrir þessar þjóðir að segja: Við látum ykkur ekki hafa neinar vélar né annað, sem þið þurfið til þess að geta þetta. — Ég hygg, að við ættum að vera sammála um að reyna þetta. Ef það kæmi í ljós við athugun hjá n., sem á að hafa með þetta að gera, að möguleikar væru fyrir okkur til að hagnýta nú tækifæri til þess að koma þessari framleiðslu upp, þá er gefið, að við það skapast svo mörg skipulagsleg og fjárhagsleg vandamál í sambandi við það, að þau yrðu að koma til kasta Alþ. Þess vegna yrði þessi n. að undirbúa lagafrv., sem lagt væri fyrir Alþ., um rekstur þessara fyrirtækja, til þess að sjá til þess, að ekki strandaði á þeirri hlið málsins.

Nú er það vitanlegt, að af hálfu Alþ. hefur verið starfandi nefnd, sem alveg sérstaklega hefur með síldarútveginn að gera. Og það er auðvitað sjálfsagt á milli umr., að athugað sé, — ekki sízt þar sem hér á þingi eiga sæti tveir af nm., — hvort samstarf væri hægt að hafa við þessa n. um athugun á þessu máli. En aðalatriðið, sem ég vil leggja áherzlu á, er, að undinn verði bráður bugur að þessu, því að það skiptir miklu fyrir okkur, ef við gætum notað þá aðstöðu að komast að samningum við aðrar þjóðir um að koma þessum fyrirtækjum upp hjá okkur.

Ég vil leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. utanrmn., og eðlilegast væri, að málið væri þar athugað í samráði við ríkisstj. Vil ég, að sú hv. n. skili svo áliti fyrir síðari umr. málsins og ráðfæri sig áður við þá aðila, svo sem síldarútvegsn. og aðra, sem eitthvað hafa fram að bera í sambandi við málið, svo sem kannske breyt. á þessari þáltill., og óska ég, að tíminn á milli umr. verði vel notaður, til þess að samkomulag gæti náðst um málið.