18.11.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (3443)

137. mál, söltun og niðursuða síldar

Finnur Jónsson. Herra forseti. Ég get búizt við því, að það geti farið, eins og hv. 1. flm. þessarar þáltill. tók fram, þannig um framkvæmd hennar, að árangur hennar gæti orðið lítill eða enginn. Það liggja margar ástæður til þess og þó sérstaklega þær, að við höfum ekki hér í landinu neina möguleika til framkvæmda í þessu efni, nema við fengjum verulega aðstoð til þess utanlands frá. Það eru nú ekki til hér í landinu meira en 10–15 þús. söltunarhæfar síldartunnur, og niðursuðuverksmiðjur eru fáar til. Og þó að til séu tvær tunnuverksmiðjur, sem sennilega gætu búið til hátt á þriðja hundrað þús. tunnur yfir árið, þá er nú ekki fáanlegt efni í þessar tunnur. Eina vonin til þess að fá eitthvað framkvæmt í þessu efni er, eins og hæstv. atvmrh. tók fram, ef hægt væri að knýta þetta eitthvað saman við alþjóða-hjálparstarfsemi.

Nú hafa Bretar kvartað nokkuð undan matvælaskorti. En þrátt fyrir það hafa þeir ekki verið fáanlegir til þess að notfæra sér norðlenzku síldina, sem er einhver bezta vara þeirrar tegundar, sem hægt er að fá — nú í stríðinu. Frá hálfu síldarútvegsnefndar hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að komast að samningum um þetta við Breta. Og með aðstoð utanrn. og gegnum ýmsa fulltrúa, sem Bretar hafa átt hér, hafa verið gerðar tilraunir til þess að fá þá til að nota sér þessa síld. Þeim hefur verið bent á, að það væri algerlega óforsvaranlegt, — á stríðstímum a. m. k., — að láta þennan ágæta mat fara í síldarverksmiðjurnar. En allar tilraunir til þess að fá þá til þess að nota sér norðlenzku síldina til matar hafa reynzt algerlega árangurslausar.

Nú hefur kostnaður við að framleiða síld hækkað svo mjög, að telja má, að kostnaður við framleiðslu saltsíldar hafi sjöfaldazt móts við það, sem hann var fyrir stríð. Síldarverðið er nú á þeirri síld, sem seld er til Ameríku, fyrir saltsíld 140 kr. tunnan og fyrir matjessíld 180 kr. tunnan eða því sem næst. Og þó ekki væru borgaðar nema 140 kr. fyrir tunnuna og það samsvarar sjöfaldri hækkun, þá nemur það tæplega því, að sjómönnum þyki borga sig að leggja síld upp til söltunar hjá því að fá 18 kr. fyrir málið í bræðslu.

Nú hefur verið minnzt á umbúðavandræðin. Við höfum reynt að fá umbúðir utanlands frá, en það hefur ekki tekizt. Út af því, sem hv. frsm. sagði, að að öllum líkindum væri erfitt að fá efni í síldartunnur frá Englandi, þá vil ég upplýsa, að það er ekki aðeins erfitt heldur ómögulegt. Englendingar hafa engan við heima fyrir, sem er nothæfur í síldartunnur. Þær síldartunnur, sem fluttar hafa verið inn frá Englandi, síðan stríðið byrjaði, eru allar úr sænskum viði, sem Englendingar hafa verið búnir að flytja til sín fyrir stríð. Vera má, að hægt væri að fá tunnuefni frá Nýfundnalandi, sem er þá líklegasti staðurinn um slíka framleiðslu, næstur Norðurlöndum. En við það er að athuga, að trjáviðarframleiðsla er þar nú lítil á við það, sem hún var fyrir stríð, þannig að ef sami kostnaður væri við framleiðslu síldar og nú er hár veidd, sömu vinnulaun og sama verð á síldinni frá skipunum, þá mundi útflutningsverðið á síldinni verða að hækka mjög mikið, ef það ætti að búa til síldartunnur úr svo dýrum viði.

Eitt er enn í þessu, — fólkið, sem ætti að vinna þessi verk. Við höfum nú á seinni árum breytt framleiðsluháttum okkar mjög mikið. Hraðfrystihúsin tóku til sín mikinn þorra þess kvenfólks, sem áður vann við síldarvinnu, og bæði í sumar og í fyrra sumar var ekki fleira um síldarstúlkur en svo, að það var með naumindum hægt að salta það, sem var saltað, sem voru rúmlega 30 þús. tunnur.

Ég þykist sem sagt sjá, að það verði á þessu mjög margir örðugleikar. Og einu vonirnar væru, ef hægt væri að tengja þetta eitthvað við alþjóða-hjálparstarfsemi, eins og hæstv. atvmrh. hefur drepið á.

Vitanlega kemur fleira til greina í þessu sambandi, m. a. það, að fyrir ófriðinn var meira og meira að dragast saman síldarneyzla í Mið-Evrópu. Og það er náttúrlega ekki alveg víst, þó að við ættum kost á að framleiða 400–500 þús. tunnur af saltsíld á ári fyrst eftir ófriðinn, að við gætum fengið menn til þess að neyta þessarar vöru, vegna þess að menn eru orðnir saltsíldarneyzlu nokkuð óvanir. Ég vil þó ekki segja, að þetta gæti ekki skeð eitt ár í senn. En fyrir þá, sem fylgzt hafa með þessum málum undanfarin ár, er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að saltsíldarmarkaðurinn hefur verið að dragast meira og meira saman. Hitt, að sjóða niður síld, þætti mér líklegri leið. En það kæmi þá til álita, hve fljótt væri hægt að finna markað í þessu skyni. Það má vera, að hungraðir menn spyrðu ekki mikið um, hvað þeir legðu sér til munns. En framtíðarmarkaður gæti var la orðið á saltsíld í svona stórum stíl, eins og hv. frsm. virðist álíta.

En þó að ég bendi á annmarka í þessu máli, tel ég gott, að till. sem þessi komi fram, og er sjálfsagt, að hún verði athuguð í n. En ég vil benda á það um leið til athugunar fyrir þá n., sem fær þessa þáltill. til athugunar, að það er hér starfandi síldarútvegsn., sem er kosin að meiri hluta af Alþ., og væri vitanlega eðlilegast, að henni væru faldar framkvæmdir í þessu máli, ef þáltill. verður samþ. í þessu eða öðru formi. Síldarútvegsn. hefur meiri kunnáttu á þessum efnum en þótt stofnuð yrði ný n. til þess að starfa að þessum málum. Teldi ég því eðlilegast, að n. sú, sem hér í þinginu fær málið til athugunar, fengi upplýsingar m. a. hjá síldarútvegsnefnd.